Viðtalið: Gauti Geirsson

Ég er fæddur árið 1993 og ólst upp inní firði. Mér fannst frábært að alast upp á Ísafirði, æfði skíði, fótbolta og fiktaði við golf, lærði á píanó og bassa auk þess að hafa byrjað snemma að stússa í vélaútgerð og búskap með afa. Foreldrar mínir eru Geir Sigurðsson og Edda Björg Kristmundsdóttir og á ég tvær systur, sem reyndar hafa ekki ratað jafn greitt til baka á heimaslóðirnar og ég, Nína Guðrún sem býr í New York og Gerður sem býr í Stokkhólmi.

Unnusta mín er Elena Dís Víðisdóttir og saman eigum við tvö börn. Við héldum út til Noregs árið 2017 til þess að nema, ég lærði sjávarútvegsfræði og Elena orkuverkfræði. Við áttum þar frábær 5 ár en fluttum heim til Ísafjarðar fyrir tveimur árum, sumarið 2022. Við vorum svo heppinn að fá bæði vinnu við hæfi, Elena er að vinna hjá Orkubúi Vestfjarða á orkusviði en ég er framkvæmdastjóri Háafells.

Háafell er fiskeldisfyrirtæki í 100% eigu Hraðfrystihússins-Gunnvarar. Ég hef starfað hjá Háafelli frá árinu 2017 en verið framkvæmdastjóri frá árinu 2021. Undanfarið hefur fyrirtækið vaxið hratt, við byggjum á mikilli reynslu af eldi þar sem HG hóf þorskeldi árið 2001 og hefur nánast verið með samfellda starfsemi síðan en frá árinu 2022 hafa umsvifin aukist mikið bæði með uppbyggingu á seiðaeldisstöðinni á Nauteyri sem og með eldi á þremur staðsetningum í Ísafjarðardjúpi. Hjá fyrirtækinu starfa nú um 25 manns og er mikið um að vera. Við leggjum áherslu á að byggja upp í Djúpinu á ábyrgan hátt til þess að tryggja sem minnst umhverfisáhrif og velferð fiskanna. Á sama tíma verða til störf og verðmæti fyrir samfélagið. Það hefur gengið vel og er það okkur hvatning um að leggja mikið á okkur til þess að halda áfram á sömu braut.

Mín helstu áhugamál eru margþætt, frá því að ég var ungur var stefnan alltaf að koma heim aftur og taka þátt í að efla samfélagið hér ennfrekar. Við búum í stórbrotnu umhverfi og því skorar margskonar útivist ansi hátt í áhugamálunum. Ég er formaður stjórnar björgunarbátasjóðs Vestfjarða sem rekur björgunarbátinn Gísla Jóns, ég hef mikinn áhuga á skíðaiðkun hverskonar, á kind í félagsbúinu á Góustöðum auk þess að hafa staðið fyrir hreinsunum á Hornströndum undanfarin 10 ár undir merkjum Hreinni Hornstranda. Nánast allur laus tími núna fer hinsvegar í húsbyggingu okkar Elenu inní Holtahverfi sem fer nú að sjá fyrir endann á. Algengasta spurningin sem við fáum þessa dagana er, hvenær á að flytja inn? Allar dagsetningar sem ég hef nefnt hingað til hafa ekki staðist svo ég þori ekki að gefa það upp, skulum bara vona að það verði fyrir heyskapinn.

DEILA