Sveitarstjórar fagna frumvarpi um lagareldi

Ráðhús Vesturbyggðar.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð og Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri í Tálknafjarðarhreppi hafa sent til Alþingis sameiginlega umsögn í nafni sveitarfélaganna um frumvarp ríkisstjórnarinnar um lagareldi.

Þau fagna því að frumvarp að heildarlöggjöf um lagareldi sé komið fram með það markmið að skapa m.a. sjókvíaeldi skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbærri nýtingu og með áherslu á að minnka neikvæð áhrif á vistkerfið. Segja þau að sveitarfélögin hafi um árabil kallað eftir stefnumótun og skýrari lagaramma um sjókvíaeldi og telja að með þessu lagafrumvarpi sé komið til móts við það ákall.

Sveitarfélögin séu fylgjandi áframhaldandi uppbyggingu sjókvíaeldis á Vestfjörðum og leggja áherslu á að hugað sé að samfélagslegum áhrifum einstakra greina frumvarpsins. Telja þau mikilvægt að aðilar í greininni axli ábyrgð á starfsemi sinni, en taka fram að þau samfélagslegu og efnahaglegu áhrif sem refsingar og takmarkanir á starfsemi fyrirtækja í greininni geta haft bæði á íbúa og sveitarfélög.

Því er fagnað að í frumvarpinu sé lögð áhersla á að fjármunir muni renna til sveitarfélaga í samræmi við umfang sjókvíaeldis og þar með þar sem þörf er fyrir innviðauppbyggingu.

Þau vara við mögulegum breytingum sem fyrirtækin gætu gripið til og segja mikilvægt að ráðuneytið fylgist vel með því hvort sveiflur verði á greiðslum til sveitarfélaganna, sem tengist ekki minnkuðum umsvifum. „Ákvarðanir fiskeldisfyrirtækjanna um breytt vinnulag sem gæti t.d. falist í ákvörðun um slátrun fisks með öðrum hætti en gert er í dag eða að aðeins verðir ráðnir verktakar til starfa eru meðal áhrifaþátta. Mikilvægt er að hægt verði að grípa hratt inn í ef forsendur tekjuskiptingarinnar endurspegla ekki umfang sjókvíaeldis í viðkomandi byggð.“

Í umsögninni er lögð áhersla á að ríkið nýti þær tekjur sem í ríkisjóð koma af framleiðslugjaldi fiskeldis til uppbyggingar þeirra innviða sem ríkið ber ábyrgð á. Segja þau óumdeilt að á Vestfjörðum sé mikil þörf á bæði uppbyggingu og viðhaldi á opinberum mannvirkjum og benda þar m.a. á vegakerfið.

Talið er óvarlegt að rekstrarleyfi til sjókvíaeldis verði ótímabundin eins og fram kemur í 33. grein frumvarpsins. „Vissulega þarf tímalengd leyfa að vera með þeim hætti að það borgi sig fyrir rekstraraðila að leggja í þann kostnað sem fylgir uppbyggingu og þróun atvinnugreinarinnar. Það á þó ekki að vera ávísun á ótímabundin leyfi“ segir í umsögninni.

Að lokum leggja umsagnaraðilar áherslu á að lagareldi sé byggt á vísindalegum grunni. Að vísindalegri nálgun sé beitt við ákvarðanir sem varða áhrif á umhverfi, vistkerfi, dýravelferð og sjúkdóma en ekki pólitískri nálgun þar sem þrýstingur hagsmunaaðila getur haft áhrifá ákvarðanir.

DEILA