Endurnýjað leyfi Arctic Fish kært en stöðvunarkröfu hafnað

Matvælastofnun gaf út 21. mars sl. endurnýjað leyfi til Arctic Fish fyrir 7.800 tonna eldi í Tálknafirði og Patreksfirði. Í apríl kærðu Veiðifélag Blöndu og Svartár, Landssamband veiðifélaga og Veiðifélag Hrútafjarðarár og Síkár þá ákvörðun Matvælastofnunar til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál og er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Kærendur kröfðust þess jafnframt að framkvæmdir verði stöðvaðar eða réttaráhrifum ákvörðunar frestað á meðan málið er til meðferðar til fyrir úrskurðarnefndinni. Þessi krafa felur í sér að eldið fari ekki fram þá mánuði sem aðalkrafan er til meðferðar hjá nefndinni.

Stöðvunarkrafan var tekin fyrir á miðvikudaginn og var niðurstaðan að hafnað var kröfum kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar Matvælastofnunar.

Segir í úrskurðarorðum að það sé meginreglan í lögum um úrskurðarnefndina að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Heimildin til þess að  krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar sé undantekningarregla og beri nefndinni að líta til réttmætra hagsmuna allra aðila málsins auk þess sem horfa þurfi til þess hversu líklegt sé að ákvörðuninni verði breytt.

Krafan um frestun réttaráhrifa er byggð á því að „útgáfa hins kærða rekstrarleyfis hafi farið í bága við þær kröfur sem lög geri til starfsemi í sjókvíaeldi. Ekki hafi verið leitað umsagna viðeigandi stofnanna við undirbúning ákvörðunarinnar né liggi fyrir byggingarleyfi. Þá er einnig byggt á því að knýjandi nauðsyn standi til þess að koma í veg fyrir óafturkræf áhrif á náttúruna sem geti leitt af þeirri starfsemi sem leyfið heimili.“ Nefndin bendir á að í kærumáli þessu eru aðilar máls fleiri en einn og hafa þeir andstæðra hagsmuna að gæta og segir svo:

„Með hinu kærða leyfi eru ekki heimilaðar nýjar framkvæmdir heldur starfsemi sem leyfishafi hefur stundað í þónokkur ár. Í ljósi þess verður ekki álitið, með hliðsjón af því tjóni sem stöðvun framkvæmda myndi hafa í för með sér fyrir leyfishafa, svo og að teknu tilliti til þess að ekki verður talið að sú framkvæmd sem hér um ræðir sé óafturkræf, að skilyrði séu til þess að beita undantekningarheimild 5. gr. laga nr. 130/2011 og stöðva framkvæmdir á grundvelli hins kærða rekstrarleyfis.“

DEILA