Matvælaráðherra: fiskeldi hefur fest sig í sessi

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra sagði í gær á kynningarfundi um frumvarp til laga um lagareldi að fiskeldi hefði fest sig í sessi og væri í örum vexti. Vísaði hún til skýrslu Boston Consulting sem sagði gríðarleg tækifæri felast í uppbyggingu á lagareldi hér á landi en að styrkja þyrfti stjórnsýsluna. Markmið frumvarpsins væru að sögn ráðherrans sjálfbær uppbygging, verðmætasköpun, byggð í landinu og verndun villtra nytjastofna.

Fram kom í máli ráðherrans að í frumvarpinu væri gengið lengra í ýmsum aðgerðum en gert hefur verið hingað til í helstu samanburðarlöndum okkar, Noregi og Færeyjum. Meðal annarrar aðgerða væri að friða með lögum meginþorra fjarða landsins fyrir fiskeldi og ætlunin væri að bæta burðarþolsmatið og vöktun fjarðanna. Þá væri ætlunin að gera breytingar á áhættumati erfðablöndunar í þágu villtra laxastofna, gera strok laxa óheimilt og gera afföll refsiverð þannig að verði afföllin meiri en 10% komi til sektir og verði þau meiri en 20% hjá einni kynslóð leiði það til skerðingar á framleiðsluheimildum. Sama muni gilda um lúsasmit. Bjarkey lagði áherslu á sjálfbærni, vistkerfisnálgun og umhverfisvernd.

Fram kom á kynningarfundinum að sektir geta orðið 5 m.kr. fyrir hvern fisk sem sleppur og er fjárhæðin reiknuð út frá væntanlegu markaðsverði á ótímabundnum framleiðsluheimildum miðað við verð í Noregi. Þá er lagt til að breyta skilgreiningu laganna á villtum nytjastofnum og fjölga þeim ám sem teljast bera nytjastofn.

Auk ráðherra og embættismanna ráuneytisins töluðu fulltrúar frá Hafrannsóknarstofnun og Matvælastofnun.

Kynningarfundurinn var allveg sóttur. Fyrirspurnir voru ekki leyfðar en fjölmiðlum boðið upp á viðtal við ráðherra.

Glæra úr ávarpi ráðherra sem sýnir samanburð við Noreg og Færeyjar.

DEILA