Kanada: vilja áframhaldandi laxeldi í sjó

Diane Lebouthillier sjávarútvegsráðherra og Justin Trudeau forsætisráðherra. Mynd: Diane Lebouthillier.

Hópur frumbyggja í Kanada sem nefnist First Nations for Finfish Stewardship Coalition hefur óskað eftir því við Justin Trudeau  forsætisráðherra að framlengja um sex ár leyfi fyrir sjókvíaeldi á norskum laxi í fylkinu Bresku Kólombíu á Kyrrahafsströnd Kanada.

Leyfin eru 66 og eiga að renna út í lok næsta mánuðar og eldið er á svæði sem frumbyggjarnir hafa yfirráð yfir.

Ríkisstjórn Trudeau ákvað 2019 að sjókvíaeldið myndi renna út árið 2025. Í frétt IntraFish.com á mánudaginn um málið segir að síðan hafi dregið verulega úr eldinu eða um 40% en um 500 manns starfa við eldið.

Í bréfi frumbyggjanna til forsætisráðherrans kemur fram að þeir styðji það eldi sem enn er starfandi og þeir vænti þess að stefna stjórnvalda taki mið af réttindum frumbyggja, sjálfsákvörðunarrétti þeirra og efnahagslegu sjálfstæði.

Í síðasta mánuði reitti leikarinn Leonardo DiCaprio frumbyggjana til reiði, skv. frétt á Fishfamingexpert vefnum, þegar hann skoraði á stjórnvöld að banna laxeldið, en hann hefur 62 milljón fylgjendur á Instragram. Frumbyggjaættbálkurinn Kitasoo Xai’xais svaraði DiCaprio og sagði hann ekki tala í þeirra nafni. Hafsvæðið sem um ræði væri í umsjón Kitasoo, sem væru ábyrgir laxabændur og hefðu gætt svæðisins um aldir. Var fræga fólkið gagnrýnt fyrir að fara með rangt mál og að það skildi ekki veruleika frumbyggja. Allt það sjókvíaeldi sem enn er til staðar í Bresku Kólombíu væri á yfirráðasvæði frumbyggja, það væri stundað með ábyrgum hætti og það væri þeirra að taka ákvarðanir um nýtingu þess, en hvorki stjórnvalda né Hollywood leikara.

Beðið er ákvörðunar ríkisstjórnar Kanada og viðbrögðum hennar við erindi frumbyggjanna.

Mynd: FishfarmingExpert.com.

DEILA