Ríkið greiðir Vesturbyggð 137 m.kr. fyrir Bíldudalsskóla

Grunnskólinn á Bíldudal. Mynd: RUV.

Ríkissjóður og Vesturbyggð hafa undirritað samkomulag þar sem ríkið leggur sveitarfélaginu til kr.
136.926.900,- sem er fjárhæð sem tekur mið af markaðsverðmæti Dalbrautar 2 (húsnæði grunnskólans) og kostnaði við niðurrif eignarinnar.

Vesturbyggð ábyrgist að á grundvelli greiðslunnar frá ríkissjóði mun sveitarfélagið færa starfsemi grunnskólans af hættusvæði og finna henni annan viðeigandi stað.

Húsnæði skólans er á hættusvæði og fram kemur í samkomulaginu að áætlað er að varnargaður til að verja skólann fyrir ofanflóðum kosti 220 m.kr. og muni ekki gagnast til að verja aðrar eignir á svæðinu. Í gildandi fjárlögum er heimild fyrir ríkið til þess að ganga til samninga við Vesturbyggð um ráðstöfun á Bíldudalsskóla.

Heimilt verður að nýta eignina Dalbraut 2 til takmarkaðrar nýtingar (sumardvalar) með þeim skilyrðum að dvöl í henni sé óheimil á tímabilinu 1. nóvember til 30. apríl. Verði af einhverjum ástæðum ekki hægt að tryggja ofangreinda kvöð ber sveitarfélaginu að ráðast í niðurrif á eigninni og standa undir þeim kostnaði sem af því hlýst, ríkissjóði að kostnaðarlausu.

DEILA