Grein

| 06.03.2001 | 13:47„Hugsunarleysi eða ögrun?“!

Athugasemdir vegna greinarinnar „Hugsunarleysi eða ögrun“, sem Magnús Ólafs Hansson skrifaði í netútgáfu Bæjarins besta 2. mars sl.
Mér þykir rétt og skylt að leiðrétta ýmislegt sem Magnús Ólafs Hansson segir í umræddri grein. Málið er mér skylt, þar sem ég er þessi umræddi maður sem „lenti í hrakningum á Eyrarfjalli“.
Er þar fyrst að telja, að Magnús segir: Leiðindaveður var á og reyndar komið miklu fyrr eða áður en hann fór frá Hólmavík áleiðis vestur.
Þetta er ekki rétt, því að veður var ágætt er ég fór frá Hólmavík um kl.19.00 fimmtudaginn 15. febrúar og var alveg þokkalegt allt þar til um kl. 12 á miðnætti, að það fór að auka í vind og rigna. Þetta geta Veðurstofa og Vegagerð staðfest. Ef ég hefði ekki fest mig, þá hefði ég því verið kominn til Bolungarvíkur áður en ferðaveður breyttist til hins verra.

Annað sem Magnús segir, er að ég kemst til Ísafjarðar og þaðan til Hnífsdals, en þá – já þá hafði „helvítis löggan“ tekið það upp hjá sjálfri sér að loka Óshlíðinni. Hvað var eiginlega í gangi? Getum við aldrei fengið frið fyrir „helvítis löggunni“? En hann fór samt út Óshlíð og komst í einn af vegskálum á Hlíðinni þar sem hann komst ekki lengra vegna mikillar ofankomu og snjóflóða. Enn og aftur varð að kalla til hjálparlið þessum vesalings manni til bjargar.

Þarna verður Magnúsi illilega á í messunni.

Staðreyndin er nefnilega sú, að ég fór alls ekki Óshlíðina fyrr en um hádegi á föstudeginum þegar búið var að opna hana og þaðan af síður að ég hafi lokast þar og verið bjargað.

Einnig er orðalag um lögregluna hans sjálfs en ekki mitt.

Ég kom að lokaðri Óshlíð Hnífsdalsmegin og hringdi þá í lögregluna á Ísafirði og spurði Önund Jónsson yfirlögregluþjón hvort hann vissi hvenær Hlíðin yrði opnuð. Hann sagði mér að það væri Vegagerðin en ekki lögreglan sem stýrði lokunum og opnunum og benti mér á að tala við þá og gaf mér upp símanúmer þeirra. Ég hringdi þá í Vegagerðina og var mér þar tjáð að mælar bentu til að snjóflóð væru hugsanlega að falla á Óshlíðinni og menn færu ekki af stað með ruðningstæki fyrr en Vegagerðin teldi það óhætt.

Ég þakkaði fyrir greið svör og hélt aftur til Ísafjarðar til útréttinga og fór síðan til Bolungarvíkur um hádegið þegar Óshlíðin var orðin opin.

Þessu til viðbótar er rétt að það komi fram, að ég hafði verið í góðu sambandi við lögregluna á Ísafirði og það var mitt fyrsta verk er ég kom til Ísafjarðar að gefa mig fram við lögregluna og tilkynna þeim að ég væri kominn þangað svo ekki hlytust frekari áhyggjur af ferðalagi mínu.

Þetta getur m.a. Önundur Jónsson yfirlögregluþjónn staðfest.

Að öllu þessu sögðu get ég ekki annað en sent þessa grein til föðurhúsanna með sömu fyrirsögn og hún kom: „Hugsunarleysi eða ögrun?“!

Grímur Lúðvíksson,
Bolungarvík.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi