Grein

Halldór Halldórsson.
Halldór Halldórsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri | 17.02.2003 | 13:36Auknar framkvæmdir á réttum tíma

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að setja 6,3 milljarða króna til að sporna gegn atvinnuleysi og taka á þeim slaka sem tímabundið verður í efnahagslífinu. Það er vissulega ástæða til að fagna þessari ákvörðun því hún mun hafa jákvæðar afleiðingar í för með sér fyrir atvinnulífið, bæði tímabundið og til lengri tíma litið, vegna bættra samgangna sem alltaf koma að góðum notum. Sökum sterkrar stöðu ríkissjóðs og skynsamlegrar stefnu í sölu ríkiseigna er hægt að bæta þessum miklu fjármunum inn í efnahagskerfið án þess að það hafi neikvæð áhrif á ríkissjóð eða efnahagslífið, heldur þveröfugt.
Verulegar samgöngubætur á Vestfjörðum

Fyrir þann milljarð sem fer aukalega til Vestfjarða er hægt að bæta verulega samgöngur í landshlutanum. Þetta er hrein viðbót við það fjármagn sem er í þingsályktunartillögu að samgönguáætlun. Þegar þessi grein er skrifuð hafa þingmenn og samgönguráðherra ekki tekið ákvörðun um skiptingu fjármagnsins innan Vestfjarða. Undirritaður gerir ráð fyrir að þeir taki mið af þeirri áætlun sem unnið hefur verið eftir og byggir á samgönguáætlun vestfirskra sveitarfélaga frá Fjórðungsþingi Vestfirðinga 1997. Um þá áætlun hefur verið ágæt samstaða en hún gerir ráð fyrir að lokið verði heilsársvegi með bundnu slitlagi um Ísafjarðardjúp annars vegar og um Barðastrandasýslu hins vegar inn á þjóðveg nr. 1. Að því loknu verði byggðir á norðan- og sunnanverðum Vestfjörðum tengdar saman með göngum milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Sú tenging eykur mikilvægi Ísafjarðar sem byggða- og þjónustukjarna fyrir Vestfirði.

Á leiðinni um Ísafjarðardjúp og Strandir er gert ráð að fara um Arnkötludal sunnan við Hólmavík yfir í Reykhólasveit. Þar með styttist leiðin um 44 kílómetra til Reykjavíkur. Segir í áætluninni að þessi leið sé talin hafa yfirburði yfir aðra valkosti. Hún stytti leiðina fyrir íbúa norðanverðra Vestfjarða (Bolungarvíkur, Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps) auk íbúa Hólmavíkurhrepps, alls um 6.000 manns, um 44 kílómetra inn á þjóðveg nr. 1, og að auki tengi hún saman Strandir og Reykhólasveit.

Verði hægt að ljúka framkvæmdum við Arnkötludal á næstu tveimur árum er ástæða fyrir þingmenn og samgönguráðherra að gaumgæfa þennan valkost í samgöngumálum nú þegar svo mikið viðbótarfé kemur til vegamála. Víða er hægt að nota þetta viðbótarfé en enginn valkostur getur stytt leiðina jafnmikið og þessi fyrir jafnmarga vegfarendur fyrir jafnlítið fjármagn.

Atvinnuþróunarátak og menningarhús

Töluverð hugmynda- og stefnumótunarvinna hefur verið unnin á Vestfjörðum til að hægt sé að átta sig á hvaða tækifæri við höfum til þróunar nýrra atvinnutækifæra sem byggi ofan á og sé til viðbótar við atvinnulífið á svæðinu. Ísafjarðarbær og fleiri sveitarfélög hafa unnið atvinnustefnu og öll sveitarfélög á Vestfjörðum hafa unnið sameiginlega byggðaáætlun fyrir Vestfirði. Þess vegna er til góður hugmyndabanki sem mun nýtast við ákvörðun um útdeilingu þeirra 700 milljóna sem ríkisstjórnin setur til atvinnuþróunarátaks. Þar eigum við Vestfirðingar mörg tækifæri og munum kynna hugmyndir sem skapa munu verðmæti og auka atvinnu á svæðinu.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar kynnti menntamálaráðherra sínar hugmyndir að menningarhúsum strax á árinu 1999. Ákvörðun ríkisstjórnar um fjármagn til menningarhúsa á Akureyri og í Vestmannaeyjum er til viðbótar menningarhúsum á Ísafirði og breytir engu um stöðu mála þar. Viðræður Ísafjarðarbæjar við menntamálaráðherra eru í gangi og er greinarhöfundur bjartsýnn um samning um menningarhús á Ísafirði fljótlega.

Togstreita milli svæða

Eitthvað hefur heyrst um að of lítið komi til höfuðborgarsvæðisins af þessu fjármagni og er þá miðað við íbúafjölda. Vegagerð, hvar sem er á landinu, nýtist landsmönnum öllum. Þá fer vart á milli mála að höfuðborgarsvæðið er sterkara en önnur landsvæði og hefur miklu meiri möguleika til að bæta tímabundna erfiðleika vegna atvinnuleysis en aðrir staðir. Svo má líka nefna að þar sem langflestar þjónustustofnanir samfélagsins eru á höfuðborgarsvæðinu mun mestallt fjármagn sem fer til vegaframkvæmda, menningarhúsa eða atvinnuþróunarátaks renna í gegnum stofnanir og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og skapa þar atvinnu áður en það fer út á land.

Undirritaður telur það neikvætt að stilla upp landsbyggð annars vegar og höfuðborgarsvæði hins vegar þegar mál sem þessi eru rædd. Þess vegna er leitt að verða vitni að málflutningi sumra þingmanna Reykjavíkur í stjórnarandstöðu, sem telja höfuðborgarsvæðið verða útundan. Það getur ekki staðist, að höfuðborgin og aðliggjandi bæir séu útundan þegar það er nánast eina svæði landsi


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi