Grein

Kammerkórinn tekur lagið í Svíaríki.
Kammerkórinn tekur lagið í Svíaríki.

Birna Ágústsdóttir | 01.07.2002 | 10:47Heimsókn góðra gesta

Laugardaginn 15. júní fengum við góða gesti í heimsókn til Gautaborgar er Kammerkór Ísafjarðar kom hingað og voru þar 14 fullorðnir og 10 börn. Ferðin var farin til að halda tónleika hér í borg og fyrri uppákoma kórsins var þegar daginn eftir komu þeirra. Ákveðið var frá upphafi að Sænsk – íslenska félagið í Gautaborg myndi flýta hátíðarhöldum þjóðhátíðardagsins aðeins, þar sem 17. júní er ekki helgidagur í Svíaríki.
Hátíðarhöldin voru haldin í skemmtigarði nokkrum í Gautaborg og voru um 200 manns viðstaddir. Garður þessi er í litlum fallegum skógarlundi og þar eru þar haldin vel sótt skemmtikvöld á hverjum þriðjudegi á sumrin og koma þar fram margir af þekktustu skemmtikröftum Svía, meðal annars hafa þar verið Lill Babs og síðast Raymond Björling (sonarsonur Jussi Björling).

Sjálfa hátíðina byrjuðum við á al íslenskan máta með skrúðgöngu, ávarp fjallkonu var á sínum stað, ratleikur fyrir börnin og síðan kom þessi frábæri kór fram og söng nokkur lög undir stjórn Guðrúnar Jónsdóttur. Einn af starfsmönnum þessa garðs sem mætti á staðinn til að hlusta á kórinn og er hann mikill kóraaðdáandi féll alveg í stafi og mælti að kór þessi væri með þeim betri sem hann hefði hlustað á. Á sjálfan þjóðhátíðardaginn voru síðan tónleikar kórsins í Skårs kirkju, þetta er sama kirkja og messur íslenska safnaðarins fara fram í. Í upphafi tónleikanna var tilkynnt að kórinn hefði orðið fyrir því að fjögur úr kórnum hefðu forfallast en ákveðið hefði verið að fara þessa ferð og halda tónleikana eins og hefði verið rætt í upphafi. Verð ég að segja að bæði ég og fleiri af þeim sem á tónleikana hlustuðu gátu ekki heyrt að neinn vantaði þar. Þvílíkir tónleikar, kórinn fór á kostum og flutti allar tegundir af tónlist frá dægulögum til óperu.

Mig langar fyrir hönd Sænsk-íslenska félagsins í Gautaborg til að þakka Kammerkórnum fyrir hjálpina á 17. júní hátíðarhöldum okkar. Jafnframt viljum við Júlli þakka fyrir yndislegar stundir sem að við og kórfélagarnir ásamt fjölskyldum þeirra áttu saman þessa rúmu viku sem að þau voru í Gautaborg. Ég veit að þau fengu að upplifa ýmislegt hér í borg meðal annars versta þrumuveður sem gert hefur í Gautaborg í áratugi.

Birna Ágústsdóttir, Gautaborg.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi