Grein

Ómar Már Jónsson.
Ómar Már Jónsson.

Ómar Már Jónsson | 11.01.2006 | 11:26Póstþjónusta í dreifbýli Súðavíkurhrepps

Um miðjan desember sl. boðuðu forsvarsaðilar Íslandspósts breytingar á póstþjónustu í dreifbýli Súðavíkurhrepps og skildu þær breytingar taka gildi strax í upphafi nýs árs, 2006. Lá fyrir að við breytingarnar myndu ekki verða skerðing á sjálfri póstþjónustunni og því virðist sem aðilar Íslandspósts hafi ekki talið ástæðu til að ráðfæra sig við íbúa dreifbýlisins eða forsvarsaðila sveitarfélagsins um fyrirhugaðar breytingar, sem þeir hefðu þó átt að gera. Breytingarnar sem áttu að verða á póstþjónustu Íslandspósts í dreifbýli Súðavíkurhrepps voru eftirfarandi:

a) Sérútbúnum gámi yrði komið fyrir við afleggjarann út á Langadalsströnd og notaður sem skiptistöð fyrir póstinn.

b) Akstursleið póstbílsins átti að vera þannig að í stað þess að fara frá Ísafirði með póstinn og dreifa honum á bæina inn að Svansvík og til baka aftur samdægurs, skildi póstbíll fara með póstinn frá Ísafirði og skilja hann eftir í sérútbúnum gámi sem yrði hafður við afleggjarann út á Langadalsströnd. Landpósturinn átti síðan að koma frá Laugalandi, taka póstinn úr gámnum og dreifa honum á bæina, allt að Hvítanesi og aka svo til baka aftur. Þessar póstferðir landpóstsins skildu farnar á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum eins og verið hafði.

c) Nýr starfsmaður skildi sinna póstþjónustunni, þar sem sá sem hafði séð um póstþjónustuna til margra ára, varð, samkvæmt reglum Íslandspóst að láta af störfum við póstflutningana sökum aldurs.

Þegar íbúar dreifbýlis Súðavíkurhrepps fengu fregnir af fyrirhugaðum breytingum, skapaðist óvissa og síðan andstaða við fyrirhugaðar breytingar af nokkrum ástæðum. Mikil samstaða myndaðist síðan um að gera allt sem í þeir gætu til að koma í veg fyrir að þessar breytingar næðu fram að ganga.

Ástæðurnar fyrir andstöðu við fyrirhugaðar breytingar voru nokkrar, m.a. óánægja með að akstursleiðin yrði ekki samtengd, þ.e. til Ísafjörður - Svansvík og ekki síður óánægja með að fyrirhugað var að skilja póstinn eftir í eftirlitslausum gámi á fjölförnum stað.

Einnig var það annar, ekki síður mikilvægur þjónustuþáttur sem ljóst var að mundi breytast mikið, en það var sú viðbótarþjónusta sem fráfarandi landpóstur hafði veitt íbúum dreifbýli Súðavíkurhrepps til margra ára, sem var bæði mikil og góð og töluvert umfram skilgreinda póstþjónustu Íslandspósts. Sú þjónusta fólst í farþegaflutningum allt til Ísafjarðar og til baka aftur, hliðrun á aksturstímum þegar þess þurfti og öðrum liðlegheitum sem voru í hávegum höfð þegar útrétta þurfti fyrir íbúanna.

Þessa þjónustu var ekki hægt að sjá fyrir hvernig mundi verða veitt eftir fyrirhugaðar breytingar Íslandspósts, en það ber að hafa það í huga að á mörgum bæjum í dreifbýli Súðavíkurhrepps eru íbúar fáir, langt er á milli bæja í byggð, margir komnir á efri ár og dreifbýlið víðfermt, en um 175 km. er á milli sveitarfélagsmarka Súðavíkurhrepps.

Ef þessi viðbótarþjónustuþáttur hefði verið tekin af íbúum dreifbýlisins, þá hefði það verið gríðarleg skerðing á þjónustu og í raun aðför að samfélagslegum búsetuháttum í dreifbýli Súðavíkurhrepps og því ljóst að til mikils var að vinna til að halda því þjónstustigi eins og verið hafði, en eins og kunnugt er hefur landbúnaður í Súðavíkurhreppi átt undir högg að sækja vegna fækkunar og því mikilvægt að hlúa að því eins og hægt er.

Þegar ljóst var í hvað stefni fór undirritaður yfir málið með samgönguráðherra og aðilum Íslandspósts og greint frá því hvað fyrirhugaðar breytingar hefðu í för með sér fyrir íbúa dreifbýlis Súðavíkurhrepps. Það vinnuferli sem þá tók við gekk mjög vel fyrir sig, góð samvinna og góður skilningur varð á mikilvægi þess að finna úrlausn og í því var þáttur samgönguráðherra að málinu mjög mikilvægur og góður.

Þann 30. desember náðist síðan samkomulag milli Súðavíkurhrepps, samgönguráðuneytisins og Íslandspósts um póstþjónustuna og aðra þjónustu við íbúa dreifbýlis Súðavíkurhrepps sem Íslandspóstur mun sinna áfram. Samningurinn er til eins árs og verður þjónustunni í meginatriðum háttað á eftirfarandi hátt.

a) Akstursleið nýs landpósts verður frá Laugalandi til Ísafjarðar og til baka aftur samdægurs, þrisvar í viku, mánudaga, þriðjudag og miðvikudaga.

b) Pósturinn verður tekin frá Ísafirði og honum dreift inn í Djúp á sama hátt og verið hefur.

c) Fallið verður frá því að koma fyrir sérútbúnum gámi undir póst við afleggjarann út á Langadalsströnd

d) Mögulegt verður fyrir íbúanna að fá að nýta ferðirnir til Súðavíkur og Ísafjarðar og til baka aftur þegar þess þarf, þeim að kostnaðarlausu.

e) Íbúum dreifbýlisins gefst kostur á að láta útrétta fyrir sig þegar þess þarf.

f) Í samkomulaginu er nú skilgreint í hverju þjónustan er fólgin, þ.e. sú þjónusta sem er umfram skilgreinda póstþjónustu.

Þegar farið var yfir þau atriði með íbúum dreifbýlis Súðavíkurhrepps sem skiptu hvað mestu máli og þau borin saman við efnisatriði samkomulagsins við Íslandspóst er niðurstaðan sú að leyst hefur úr öllum þeim meginþáttum sem óánægja var. Samkvæmt samkomulaginu er akstursleið landpóstsins í gegn um allan Súðavíkurhrepp, þrisvar í viku, eins og var og fallið hefur verið frá því að koma upp sérútbúnum gámi inni í Djúpi ásamt því að fyrrnefnd viðbótarþjónusta verður áfram eins og verið hefur. Því tel ég að við getum sátt við unað, en á næstu vikum og mánuðum verður síðan fylgst með hvernig núverandi fyrirkomulag hentar og það mun tíminn leiða í ljós.

Það ber að hafa í huga að aðstæður í dreifbýli Súðavíkurhrepps eru sérstakar og mikilvægt að halda vel utan um þá samfélagslegu þjónustu sem verið hefur og þarf að vera við íbúa dreifbýlis Súðavíkurhrepps. Næsta skref liggur síðan í því að festa slíkt samkomulag um þjónstunna til lengri tíma við samgönguyfirvöld til að tryggja að áfram megi veita íbúum dreifbýlis Súðavíkurhrepps þá þjónustu sem þeim ber og vilji Súðavíkurhrepps er fyrir.

Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi