Grein

Dr. Ólína Þorvarðardóttir | 19.08.2005 | 15:37Hvers virði er góður skóli?

Öflugur framhaldsskóli er grundvöllur að velferð ungs fólks og möguleikum þess til frekara náms og starfa í framtíðinni. Hann laðar að atgerfi, hefur nýsköpunaráhrif, er atvinnuskapandi, hækkar menntunarstig í héraði og hefur með ýmsum hætti jákvæð áhrif á byggðaþróun.

Undanfarinn áratug hafa íslensk stjórnvöld innleitt nýskipan í ríkisrekstri á grundvelli árangursstjórnunarstefnu með það að markmiði að auka skilvirkni og gæði opinberrar þjónustu. Lagt er að forstöðumönnum að bæta rekstur og starfsemi stofnana sinna, um leið og ríkar kröfur eru gerðar til starfsmanna um vönduð vinnubrögð og metnað. Þessi stefna hefur náð inn í framhaldskólana, ekki síður en aðrar ríkisstofnanir. Þannig hefur verið hert á kröfunni um gæði skólastarfs síðustu árin og sérstök áhersla lögð á að minnka brottfall, enda er brottfall nemenda úr framhaldsskóla alvarleg vá í uppeldis- og æskulýðsmálum okkar litlu þjóðar.

Ógnanir í rekstri framhaldsskóla

Ógnanir og tækifæri framhaldsskóla eru misjöfn eftir því hvar þeir eru í sveit settir. Framhaldsskólum er skammtað fjármagn á grundvelli nemendafjölda og því hefur byggðaþróun bein áhrif á afkomu landsbyggðarskólanna sem standa margir hverjir frammi fyrir viðvarandi hallarekstri vegna sveiflna í aðsókn. Sá rekstrarvandi gerir þeim ennfremur örðugt um vik að laða til sín hæft starfsfólk og halda því. Slök aðsókn, brottfall, rekstrarhalli og atgerfishnignun eru því samverkandi þættir sem hafa á stundum komið framhaldsskólum landsins í illviðráðanlegan vítahring.

Menntaskólinn á Ísafirði er einn þeirra skóla sem um skeið stóð frammi fyrir vanda af þessu tagi. Fyrir fáum árum sýndu kannanir að hlutfall framhaldsskólanema á Vestfjörðum væri eitt hið lægsta á landinu. Skólinn átti í rekstrarvanda, kennsluyfirvinna var mikil og heimavist skólans var við það að lognast út af sökum dræmrar aðsóknar. Brottfall nemenda var verulegt, og haustið 2001 – þegar undirrituð kom að skólanum - voru réttindakennarar einungis um þriðjungur kennara í námskrárbundnum greinum. Þá var hafist handa við að snúa vörn í sókn.

Skólameistari, meðstjórnendur og skólanefnd settust á rökstóla um að bæta rekstur skólans á grundvelli árangursstjórnunar, auka kennslugæði og aðsókn en minnka brottfall. Hafist var handa – með aðkomu allra starfsmanna skólans - við að móta stefnu og setja sér mælanleg markmið. Lítum nú á hvað áunnist hefur.

Árangur MÍ

Aðsókn hefur aukist um 40% á undanförnum fimm árum, samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands.

Brottfall liggur á bilinu 4-6% en var 18,6% haustið 2001.

Fjöldi brautskráðra hefur nánast tvöfaldast: 63 voru brautskráðir frá skólanum s.l. vetur samanborið við 37 veturinn 2000-2001.

Rekstrarfrávik hafa verið óveruleg undanfarin fjögur ár og oftar rekstrarafgangur en halli.

Á nýhöfnu skólaári verða 23 kennarar af 28 með full réttindi í námsrárbundnum greinum, þar af hafa 11 aflað sér réttinda frá því undirrituð kom að skólanum.

Það er deginum ljósara að Menntaskólinn á Ísafirði hefur á síðustu fjórum árum styrkt stöðu sína sem framhaldsskóli Vestfirðinga. Skólinn er öflug og framsækin menntastofnun og einn stærsti vinnustaður á Vestfjörðum með á sjötta tug starfsmanna á skrá og um fjögur hundruð nemendur í dagskóla og öldungadeildum. Í skólanum eru tvær bóknámsbrautir til stúdentsprófs, fjórar iðnbrautir, sjúkraliðabraut, almennar brautir og starfsbrautir. Á hverju ári koma fram nýjungar í námsframboði skólans – fyrir tveimur árum hófst kennsla fyrir nýbúa, í fyrra var hafin kennsla fyrir starfsfólk í félagsjónustu, í haust hefur göngu sína ný húsasmíðabraut sem mun útskrifa húsasmíðasveina. Miklar endurbætur hafa verið gerðar á húsakynnum og allsherjar endurnýjun hefur orðið á tölvu- og tækjabúnaði. Skólinn gerir kröfur til starfsfólks og nemenda og fylgir markmiðssetningu sinni eftir.

Hvað er í húfi?

En það er ekki nóg að ná árangri, honum þarf að viðhalda og hann þarf að þróa lengra. Þetta er hvergi mikilvægara en einmitt í skólastarfi, og kostar bæði alúð og einbeittan vilja allra sem að því verki koma. Við skólamenn höfum ekki aðeins störfum að gegna – við höfum hlutverk. Það er hlutverk okkar að „stuðla að alhliða þroska allra nemenda svo að þeir verði sem best búnir undir að taka virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi“ eins og segir í framhaldsskólalögum. Ekki einungis ber okkur að búa nemendur undir störf í atvinnulífinu og frekara nám heldur ber okkur einnig að „efla ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum og gagnrýninni hugsun, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja til stöðugrar þekkingarleitar“, eins og lög og aðalnámsskrá gera ráð fyrir.

Það er ekki lítil ábyrgð sem okkur starfsmönnum skólakerfisins er lögð á herðar með þessum orðum, og “veldur hver á heldur” segir máltækið. Höfum hugfast að skóli – hversu stór eða lítill sem hann er, vel eða illa búinn tækjum – er aldrei annað en fólkið sem þar starfar. Hlutverk framhaldsskóla og markmið aðalnámskrár eru ekki bara orð á blaði, heldur eru þau samfélagslegt fyrirheit og um leið áskorun til allra starfsmanna framhaldsskólakerfisins að vanda vel til verka og gæta þess fjöreggs sem velferð og uppeldi ungs fólks í rauninni er. Í því efni erum við ekki einungis kennarar og leiðbeinendur, heldur einnig fyrirmyndir.

Við Menntaskólann á Ísafirði hefur stefnan verið sett á skýr og mælanleg markmið. Árangur hefur náðst – og hann er ekki lítill. Vestfirskt samfélag á mikið undir því að það grettistak sem lyft hefur verið í málefnum skólans velti ekki undan. Ég skora því á alla velunnara skólans og byggðarlagsins að standa vörð um Menntaskólann á Ísafirði og styðja vel við þá framfarasókn sem þar hefur verið blásið til. Menntaskólinn á Ísafirði er samfélagslegur máttarstólpi, á honum veltur velferð ungmennanna okkar, sjálfra vaxtarsprotanna sem eru framtíðarvon vestfirskrar byggðar.

Höfundur er skólameistari Menntaskólans á Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi