Grein

Jóna Benediktsdóttir.
Jóna Benediktsdóttir.

Jóna Benediktsdóttir | 06.07.2006 | 14:51Um frestun á vegaframkvæmdum

Eins og alþjóð veit hefur ríkisstjórn Íslands nú boðað frestun á öllum vegaframkvæmdum sem ekki hafa þegar farið í útboð. Þetta mun bitna illa á okkur Vestfirðingum sem líklega ökum á verstu vegum landsins. Að auki erum við háð vegasamgöngum um flutninga til og frá svæðinu á öllum varningi og framleiðsluvörum. Oft hefur komið fram að hár flutningskostnaður hefur áhrif á afkomu fyrirtækja hér fyrir vestan. Flutningskostnaðurinn hér hjá okkur er hlutfallslega meiri en annarsstaðar því kostnaður við að aka á slæmum vegum er meiri en á þeim vegum sem teljast boðlegir.

Sturla Böðvarson hefur reyndar sagt að engu verði frestað nema í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir, líklega þýðir það að koma eigi ábyrgðinni yfir á sveitarstjórnirnar með því að krefjast samþykkis þeirra. Bæjarstjórinn okkar sagði í útvarpinu um daginn að í þessu máli yrði ekkert gefið eftir, við myndum ekki fallast á neina frestun. Ég vona sannarlega að það gangi eftir hjá bæjarstjóranum en tel líklegt að hann þurfi liðsauka þungavigtarmanna til að ná markmiði sínu. Nú er það svo að þessar frestanir eru breytingar á ákvörðunum alþingis og þurfa því líkega að koma fyrir þingið til samþykktar eða synjunar. Þar eru í meirihluta framsóknarmenn og sjálfstæðismenn.

Við í Norðvesturkjördæmi kusum í þann meirihluta fimm þingmenn. Allir þingflokkar stjórnarandstöðu hafa lýst sig mótfallna frestun á vegaframkvæmdum og stjórnarandstaðan hefur 28 þingmenn. Því má vera ljóst að ef þessir fimm þingmenn Norðvesturkjördæmis eru andvígir frestuninni í raun og veru er ekki þingmeirihluti fyrir henni. Nú skora ég á þá Kristinn H. Gunnarsson, Einar K. Guðfinnsson, Einar Odd Kristjánsson, Magnús Stefánsson og Sturla Böðvarsson að standa með öðrum Vestfirðingum í þessu máli og láta þessa frestun ekki koma til framkvæmda þannig að tímasetningar standist á þeim verkum sem komin voru á áætlun.

Jóna Benediktsdóttir, bæjarfulltrúi Í-listans í Ísafjarðarbæ.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi