Grein

Sigurður Pétursson.
Sigurður Pétursson.

Sigurður Pétursson | 24.06.2006 | 10:53Forarvilpur samgönguráðherra

„Vegasamgöngur á Vestfjörðum uppfylla ekki þær lágmarksgrunnþarfir sem samfélög krefjast í dag.“ Þetta er niðurstaða skýrslu Hagfræðistofnunar frá því í vor eins og hún birtist í frétt Bæjarins besta 19. apríl 2006. Þar segir ennfremur að vegasamgöngur séu skemmst á veg komnar á Vestfjörðum og Norðausturlandi.

Niðurrifsgrýlan

Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga ritaði ég grein um forgangsmál í samgöngum á Vestfjörðum og átaldi þar frammistöðu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og ráðherra hans í þeim málum. Þar var líka deilt á þjónkun heimamanna við valdsmenn, sérstaklega þeirra sem standa framarlega í flokki samgönguráðherrans. Þjónkun sem birtist í sama lífsmottói og í sögu H. C. Andersens um naglasúpuna: „Þökkum það sem hendi er næst, en fáumst ei um það sem ekki fæst.“ Þannig hafa forystumenn Sjálfstæðisflokksins hér í Ísafjarðarbæ lofað og prísað allar framkvæmdir í samgöngumálum, stórar og smáar, einsog þær séu alveg sérstakur greiði sem samgönguráðherra vinni fyrir okkur Vestfirðinga. Þeir sem benda á þá staðreynd að framkvæmdir í samgöngumálum eru eðlileg og sjálfsögð uppbygging á innra kerfi samfélagsins, líka hér á Vestfjörðum, eru ekki bara sagðir vanþakklátir, heldur líka illa innrætt niðurrifsöfl. Það mátti lesa í skrifum opinberra og óopinberra aðstoðarmanna samgönguráðherrans fyrir síðustu kosningar.

Ástand vega á Vestfjörðum

Í grein minni benti ég á nokkrar staðreyndir um ástand samgöngumála á Vestfjörðum og rifjaði upp fögur loforð síðustu tveggja eða jafnvel þriggja alþingiskosninga í þeim málum. Auðvitað er alltaf vont að láta minna sig á loforð sem ekki hafa verið uppfyllt, sérstaklega kosningaloforð. Og eftir þau stóryrði sem aðstoðarmenn og ráðherra höfðu látið flakka fyrir kosningar, lá við að ég væri farinn að halda að ég hefði bara alls ekki verið hér fyrir vestan síðustu ár og þekkti hreint ekkert til ástands mála. Og til að vera alveg viss hafði ég augun virkilega vel opin nú í mánuðinum þegar ég átti leið um Djúpið og aftur þegar ég fór yfir að Hrafnseyri um síðustu helgi. Jú, viti menn, það hafði ekkert breyst, frá því í fyrra. Kleifin, eða Eyrarfjall, milli Mjóafjarðar og Ísafjarðar var enn á sínum stað. Vegurinn var bara helmingi verri en í fyrrasumar. Hvar var brúin yfir Mjóafjörð og nýi vegurinn sem þeir lofuðu að kæmi þegar Fagranesið hætti að sigla um Djúpið? Eru ekki komin tíu ár síðan? Ég sá hvergi að framkvæmdir í Mjóafirði væru komnar af stað. Eru það huldumenn sem þar vinna verkin? Hrafnseyrarheiðin er líka enn á sínum stað og hvergi sést í jarðgöng. Ekki einu sinni vinnuflokk að gera tilraunaborun. Eftir þetta sannfærðist ég um það að allar staðreyndir úr grein minni frá því fyrir kosningar stæðu óhaggaðar:

1. Það er enn ekki komið slitlag á veginn um Ísafjarðardjúp.
2. Það er enn ekki byrjað á því að þvera Mjóafjörð í Ísafjarðardjúpi.
3. Það eru ekki enn byrjaðar framkvæmdir við jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar.

Alveg sama hvað samgönguráðherra belgir sig, aðstoðamenn hans gjamma eða hjálparhellur hans hér heima rífa sig. Þetta eru blákaldar staðreyndir.

Svo allrar sanngirni sé gætt, þá hafa auðvitað verið framkvæmdir á vegum og flugvöllum á Vestfjörðum síðustu árin. Það hafa líka verið framkvæmdir á vegum og flugvöllum allt í kringum landið á síðustu árum. Það er búið að endurnýja allar helstu leiðir um, að og frá Snæfellsnesi, bara svo dæmi sé tekið. Það er líka búið að gera tvenn jarðgöng á Austufjörðum. Allt eru það þarfar framkvæmdir.

Loforð ráðherrans

Samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, ritaði grein sem birtist þrem dögum fyrir sveitarstjórnarkosningar á vefsíðu bb.is og sama dag í blaðinu Bæjarins besta. Þar rakti hann helstu afrek sín sem ráðherra samgöngumála, einkum sem snúa að Vestfirðingum. Þar tilkynnti hann í valdi síns embættis, að í sumar verði gerðar rannsóknarboranir vegna tveggja jarðganga á Vestfjörðum. (Samgönguráðherra lofaði reyndar rannsóknum til undirbúnings jarðgangaframkvæmda fyrir síðustu alþingiskosningar. Það má sjá á heimasíðu hans 1. maí 2003. Eru þær fyrst að fara í gang núna, þrem árum síðar?). Og Djúpvegi verður lokið árið 2008. „Guð láti gott á vita.“ sagði gamla fólkið og við tökum undir það Vestfirðingar. Það eru líka að koma kosningar aftur eftir eitt ár, og þá er gott að rifja upp gömul loforð og endurnýja þau.

Hótanir ráðherrans

Sturla Böðvarsson er nefnilega ekki bara samgönguráðherra, æðsti yfirmaður samgöngumála allra landsmanna, hann er líka stjórnmálamaður, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Og hann virðist ekki skilja þarna á milli. Í grein hans, sem er undirrituð: „Sturla Böðvarsson samgönguráðherra“, stendur þetta: „Það er von mín að samgönguráðuneytið geti áfram átt gott samstarf við þá öflugu sveit sem leitt hefur bæjarmálin á Ísafirði undir styrkri stjórn sjálfstæðismanna ... Það er því mikilvægt að tryggja áfram sterka stöðu sjálfstæðismanna við stjórn bæjarmála á Ísafirði. ... Miklum árangri síðustu ára yrði fórnað með því að koma til valda ósamstæðum hópi þriggja flokka. Sá hópur á sér ekkert annað sameiginlegt en að komast til valda. Þessa uppskrift er búið að prófa með R-listanum í höfuðborginni. Það ætti að vera nægjanlegt víti til að varast.“ Þetta eru kaldar kveðjur frá handhafa framkvæmdavaldsins á Íslandi til mín og annarra sem buðum okkur fram fyrir Í-listann í Ísafjarðarbæ, og til allra þeirra 1003 kjósenda sem studdu okkur. Sturla Böðvarsson fellur þarna í forarvilpu valdhroka og hótana sem ekki á heima í lýðræðissamfélagi. Þess konar vinnubrögð eru því miður farin að sjást æ oftar, einkum hjá valdsmönnum úr flokki Sturlu. Sturla Böðvarsson sagði kjósendum í Ísafjarðarbæ, að ef þeir ekki kysu hans flokk, þá myndi hann refsa þeim sem samgönguráðherra!

Forarvilpurnar á Þorskafjarðarheiði og Kleifinni í Ísafjaðardjúpi eru nógu slæmar, fyrir okkur Vestfirðinga, þó að samgönguráðherra leiði ekki íbúa fjórðungsins inni í forarvilpu stjórnmála þar sem hótunum og undirmálum er beitt til að halda völdum.

Sigurður Pétursson, sagnfræðingur.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi