Grein

Hildur Halldórsdóttir.
Hildur Halldórsdóttir.

Hildur Halldórsdóttir | 19.05.2006 | 16:50Stóru málin

Árið 1996 varð Ísafjarðarbær til við sameiningu sex ólíkra sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum. Undirrituð er ein þeirra sem var valin til starfa sem bæjarfulltrúi í hinu unga sveitarfélagi í upphafi kjörtímabilsins sem hófst vorið 1998 og lauk 2002. Ég man stóru málin sem við vorum að glíma við á tímabilinu í kjölfar sameiningarinnar. Kennaraskipti í grunnskólum voru tíð og deilur höfðu staðið um húsnæðismál Grunnskólans á Ísafirði. Hlutfall aflaheimilda snarminnkaði og í kjölfarið fylgdi upplausn í atvinnumálum. Umhverfismál voru í ólestri og viðhorf landsmanna til svæðisins einkenndist af umræðu um snjóflóð og hörmungar. Sjálfstæðismönnum og samstarfsmönnum þeirra var sannarlega vandi á höndum og verkefnin stór.

Það leikur ekki vafi á því að mikil verðmæti felast í þeirri reynslu sem Halldór Halldórsson og Birna Lárusdóttir búa að eftir að hafa með þrotlausri vinnu á sl. átta árum eflt tengsl sín við ráðamenn þjóðarinnar og þokað þannig mikilvægum málum áfram. Slíkt krefst þolinmæði, útsjónarsemi, festu og trausts af hálfu þeirra sem á peningunum halda – en það traust hafa Halldór og Birna sannarlega öðlast. Það er skiljanlegt að bæjarbúar geri sér almennt ekki grein fyrir því hvar og hvenær þessi vinna fer fram en þetta eru einmitt stóru viðfangsefni kjörinna fulltrúa Ísafjarðarbæjar. Góðir og vel reknir grunnskólar, Háskólasetur Vestfjarða, samgöngubætur á Vestfjörðum, Vaxtasamningur Vestfjarða, samskipti og samvinna við Samband íslenskra sveitarfélaga eru dæmi um stór mál sem skipta samfélagið okkar verulegu máli.

Nú má ekki skilja mig svo að minni málin skipti ekki líka máli en göngustígur hér og þakleki þar eru smámál við hliðina á háskólasetri og verðandi háskóla. Jafnvægi hefur komist á atvinnumál, stöðuleiki í starfsmannahaldi í grunnskólum er viðvarandi, unnið hefur verið að umhverfismálum, rekstur grunnskólanna gengur vel og viðhorf landsmanna hefur færst frá hörmungarumræðu yfir í umræðu um háskólamál og lykilbyggðakjarnann Ísafjarðarbæ.

Ísafjarðarbær er fyrirtæki sem með útsjónarsemi, þrautsegju og skýrri stefnumótum hefur tekist að þoka mikilvægum og stórum málaflokkum áfram. Það gæti reynst erfitt fyrir óreynda aðila að efla þau tengsl sem þarf til að viðhalda þeim árangri sem náðst hefur. Ég treysti því að félagar mínir í sjálfstæðisflokknum fái þann stuðning sem þau þurfa til þess að halda þessari vinnu áfram og efla sveitarfélagið enn frekar. Það tekur langan tíma að byggja upp jafn flókið fyrirtæki og sveitarfélög eru og varasamt að skipta um áhöfn í miðjum róðri. Veitum þeim tækifæri til að halda áfram og tryggja Ísafjarðarbæ þann sess og það fjármagn sem við þurfum á að halda til að vera samfélag sem vex að verðleikum.

Hildur Halldórsdóttir framhaldsskólakennari.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi