Grein

Guðrún Anna Finnbogadóttir.
Guðrún Anna Finnbogadóttir.

Guðrún Anna Finnbogadóttir | 31.10.2005 | 17:27Takk fyrir frábærar viðtökur

Ég vil byrja á að þakka öllum þeim sem hafa hringt, sent mér bréf, komið til mín og þakkað mér kærlega fyrir greinarskrif mín í BB og sagt mér að þetta væri sannanlega það sama og þeim lá á hjarta eftir ræðu Ingibjargar Maríu Guðmundsdóttur á kvennafundinum í Alþýðuhúsinu. Hvað nákvæmlega stóð á minnisblaði hennar er eitt en upplifunin af því sem hún sagði var sú sama hjá þeim konum sem ég hef rætt við. Dauft klappið var eftilvill besti dómurinn um undirtektir orða hennar.

Greinarkornið sem var skrifað yfir morgunverðinum á harðahlaupum hlaut svo mikla athygli að miðað við þakkirnar fyrir greinina býður mig í grun að ég viti ekki nema hálfan sannleikann um starfsmannamál bæjarins. Ég legg ekki í vana minn að lesa netdagbækur en efni einnar slíkrar hef ég verið hvött til að lesa þar sem um ótrúlegar ásakanir í minn garð er að ræða.

Á kvennafrídaginn talar Halldór Halldórsson á heimasíðu sinni mjög fallega til kvenna og hvetur sína yfirmenn til að gefa konum frí eins og kostur er. Auk þess spyr hann sjálfan sig: ,,Getur það verið vegna þess að konur séu ekki nógu ákveðnar í launaviðtölum?” (sem þær hafa ekki hærri laun).

Daginn eftir kveður við annan tón hjá Halldóri og þar talar hann um að grein mín um kvennafundinn sé rakalaus þvættingur og því vil ég færa rök fyrir máli mínu að hans ósk. Vona ég að rökin séu ,,gott innlegg í þá vinnu og þá samstöðu sem er þörf” eins og Halldór segir í lok athugasemda sinna um grein mína þann dag.

Í greininni sem ég skrifaði hvet ég ísfirskar konur til að vera harðar og krefjast hærri launa þar sem öllum í Alþýðuhúsinu var ljóst undir ræðu Ingibjargar Maríu að málin væru í þeirra höndum og engra annarra. Þær þyrftu sjálfar að standa fyrir sínu hver og ein. Láðist Halldóri algerlega að þakka mér fyrir aðal inntak greinarinnar. Hvað meinti hann annars með þessum skrifum um ,,ákveðni í launamviðtölum” daginn áður?

Það hafa margir góðir hlutir verið gerðir á Ísafirði og ég er afskaplega stolt af því að vera Ísfirðingur en undanfarin ár hefur komið upp hvert málið á fætur öðru þar sem mér hefur verið brugðið í samskiptum yfirmanna bæjarins við sína undirmenn. Ég mun grípa niður í greinar úr hinu ágæta bæjarblaði BB máli mínu til stuðnings auk þess sem ég hef fylgst með málefnum líðandi stundar í gegnum tíðina.

Hlífarmálið

,,Bæjaryfirvöld sýndu ekki af sér mikinn sóma þegar loks átti að ráða hjúkrunarfræðing til þjónustudeildarinnar á Hlíf en þar hafði um árabil ekki verið fagaðili starfandi við deildina. Til þess að fjármagna stöðuna var ákveðið að taka af starfskonunum átta óunna yfirvinnutíma á mánuði sem þær fengu greidda fyrir álag þar sem enginn hjúkrunarfræðingur starfaði á deildinni.

Þegar starfsfólkið mótmælti þessu, sérstaklega þar sem aðbúnaður nýrrar þjónustudeildar var og er mjög slæmur til aðhlynningar aldraðra, var það ekki tekið til greina. Öll framkoma yfirmanna bæjarins var nöturleg í garð þessara kvenna og lét Bryndís Friðgeirsdóttir bóka ályktun um það á bæjarstjórnarfundi því málið var sífellt dregið á langinn auk þess sem verkalýðsfélagið sendi mörg bréf til bæjarins um málið til að reyna að rétta hlut þessara kvenna. Líðan þessara kvenna meðan á þessu stóð var slæm og muna allir bæjarbúar eftir því þegar þetta gekk á.”

Heimild: 29.10.2005. Bryndís Friðgeirsdóttir

Gjaldkeramálið

Hófst haustið 2003 og lauk fyrir dómstólum.

Fyrrverandi gjaldkeri fær 1,8 milljónir í skaðabætur
,,.... Eins og sagt var frá á sínum tíma var Pálínu vikið úr starfi vegna „fyrirhugaðra skipulagsbreytinga“, eins og það var orðað. Formaður FosVest vildi meina að uppsögnin væri ólögmæt, en Þórir Sveinsson fjármálastjóri bæjarins sagði uppsögn Pálínu hafa verið í samræmi við gildandi kjarasamninga og fyllilega málefnalega.”
bb.is 14.01.05

Bakkaskjólsmálið

,,Starfsmenn leikskólans Bakkaskjóls segja upp: Rætt um lokun
Allir starfsmenn leikskólans Bakkaskjóls í Hnífsdal að undanskildum leikskólastjóranum hafa sagt upp störfum. Fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar hyggst í kjölfarið endurskipuleggja rekstur leikskóla á Ísafirði og í Hnífsdal.....”
bb.is 02.12.03

,,Það sem í upphafi virtist stormur í vatnsglasi er orðinn harmleikur
.... Mér er spurn, hversvegna gerði bæjarstjóri ekkert í málunum fyrr en allt var komið í óefni? Hér er ekki lengur um málefni að ræða, stöðugildi, ofmönnun eða undirmönnum heldur manneskjur. Ég lít á þetta sem hreina aðför að skólanum og börnunum okkar og tel að fræðsluyfirvöld sem og bæjarstjóri hafi ekki unnið vinnuna sína sem skyldi.”

Guðrún Jónsdóttir: bb.is. 02.02.04

Allt þetta mál út af stöðugildi vekur upp spurningar og ljóst að samskipti starfsmanna leikskólans og yfirmannabæjarins voru ekki sem skyldi en bæði starfsmenn og þeir sem þjónustunnar nutu voru mjög ánægðir með vinnustaðinn samkvæmt heimildum BB frá þessum tíma.

Starfsmat ófaglærðra starfsmanna á leikskólum

,,Neyðarástand í leikskólum Ísafjarðarbæjar vegna veikinda starfsfólks

Allir ófaglærðir starfsmenn leikskólanna Eyrarskjóls, Sólborgar, Bakkaskjóls og Laufáss í Ísafjarðarbæ tilkynntu sig veika í dag og hafa því flestir foreldrar verið sendir heim með börn sín... Starfsmatið nær aftur til 1. desember 2002 og telur starfsfólkið sig því eiga umtalsverða fjármuni inni hjá bænum þar sem laun þeirra hafi verið langlægst í Ísafjarðarbæ. ....

Það hefur ekkert gengið hjá okkur að ná út umsömdum launum hjá Ísafjarðarbæ. Okkur hefur verið lofað margoft að þessar greiðslur séu að koma og kjörnir fulltrúar hafa verið að lofa dagsetningum sem ekki hafa staðist. Í gær kom síðan í ljós að lítið sem ekkert hefur verið unnið í málinu og það varð okkur mikið áfall. Fólk má ekki við miklum áföllum á þessum árstíma og því fór sem fór“, segir starfsmaðurinn.”
bb.is 21.12.04

Starfsmenn leikskólanna fengu ekki greidda launauppbót byggða á starfsmati þar sem útreikningar reyndust mjög flóknir og tímafrekir. Biðu starfsmenn þolinmóðir í tvö ár eða þar til þeir urðu svo langþreyttir á biðinni að þeir þurftu að hvílast einn dag og tilkynntu veikindi.

Leikskólakennarar

Leikskólakennarar fá greitt eftir kjarasamningum þegar þeir vinna á leikskólum og nefni ég ekki einu orði að svo sé ekki í greininni enda var ekki minnst á laun þeirra.Hinsvegar hef ég mjög góðar heimildir fyrir því að leikskólakennari hefur í kringum 200.000 kr í laun á mánuði samkvæmt kjarasamningi. Eftir þeim hefur verið sóst í störf í Grunnskólann á Ísafirði við að aðstoða yngstu börnin og í dægradvöl en þá er vinna þeirra metin á 139.000 kr á mánuði. Leikskólakennarar fá menntun sína lítið metna og munurinn mikill hvort þeir sinna 5 eða 6 ára börnum. Eru þeir ekki nógu ákveðnir í launaviðtölum?

Varaformaður fræðslunefndar hafði þetta um launamál leikskólanna að segja:

„Hitt er auðvitað ekkert launungarmál að hlutfall leiðbeinenda hefur verið hærra hjá okkur en víða annars staðar. Launakostnaður er langstærsti einstaki kostnaðarliðurinn við rekstur fræðslumála og því vegur það þungt í heildarkostnaðinum þegar hlutfall leiðbeinenda, sem eru launalægri, er hærra“, segir Óðinn.

Aðspurður hvort hæstu leikskólagjöld á landinu geri það ekki að verkum að útgjöld til fræðslumála eru hér lægri segir Óðinn að eflaust geti það verið hluti af málinu. „Við erum einnig að sjá að við erum að greiða ófaglærðum starfsmönnum lægri laun en annars staðar tíðkast og það sýnir að mínu mati ráðdeild í rekstri.“

bb.is 20.10.2004

Gæti verið að ég hafi heyrt að það sé skoðun fjármálastjóra bæjarins að það sé hagkvæmast að hafa sem fæsta leikskólakennara á leikskólum bæjarins? Ef þetta er skoðun hans er hún þá e.t.v. mótandi fyrir stefnu meirihlutans í bæjarstjórn?

Margir leikskólakennarar hafa hætt störfum á leikskólum Ísafjarðarbæjar undanfarin ár og langar mig að benda fólki á hversu margir eru fluttir úr bænum og ekki síður hversu margir sinna öðrum störfum en þeim sem þeir hafa lært til. Leikskólakennurum er það að sjálfsögðu frjálst en fyrir fólk með lítil börn er erfitt að horfa á eftir mjög hæfileikaríku starfsfólki hverfa frá störfum ár eftir ár. Af hverju leikskólakennararnir hættu veit ég ekki.

Fagfélög

Ég hef mjög góðar heimildir fyrir því að starfsfólk bæjarins með fagmenntun hafi orðið að vera á töxtum Fos-vest og þurfti að berjast fyrir því að fá launin hækkuð til samræmis við samninga fagfélagsins eins og þeir voru við ríkið. Þar til launanefnd sveitarfélaga gerði síðan samninga við viðkomandi fagfélög fyrir nokkrum árum.

Slökkviliðsmenn

Starfsmenn eru bundnir af sínum kjarasamningum og geta ekki skipt um stéttarfélag fyrr en samningstímanum lýkur en það þurfa allir aðilar að samþykkja skiptin bæði stéttarfélögin og bæjarfélagið. Þegar samningar losnuðu hjá slökkviliðsmönnum á Ísafirði um síðustu áramót var eina mótstaðan hjá bænum. Á endanum náðust samningar og þeir fór úr Fos-Vest í sitt stéttarfélag. Skemmst er frá því að segja að undirtektir bæjarins voru ekki góðar.

,,Verður Slökkvilið Ísafjarðarbæjar einkarekið?

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt ósk InPro ehf. í Kópavogi um að hefja formlega úttekt á rekstri slökkviliðs Ísafjarðarbæjar með tilliti til hugsanlegs einkarekstur þess. Ósk fyrirtækisins kemur fram í kjölfar fundar sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins átti með Halldóri Halldórssyni bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar. .....”
bb.is 16.03.05

Vart þarf að taka fram að þessi tillaga kom í kjölfar þess að slökkviliðsmenn fengu nýju samningana í gegn og enn hefur ekkert komið fram opinberlega um hver staða einkavæðingarmálanna er.

Mótframlag fyrirtækja

Mótframlag fyrirtækja í séreignarlífeyrissparnað var sett í landslög fyrir nokkrum árum, þrátt fyrir að vera í landslögum láðist að setja þetta ákvæði inn í samninga hjá starfsmönnum sveitarfélaga og því gátu starfsmenn bæjarins í Fos-vest ekki krafist þess. Í stað þess að sýna sanngirni og fylgja landslögum og veita sínum starfsmönnum þessa kjarabót sem launþegar voru að fá á þessum tíma var ekki greidd króna fyrr en við gerð kjarasamninga í vor þegar þetta var sett inn í samningana. Þá höfðu aðrir launþegar safnað í nokkur ár. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir starfsmanna kom það aldrei til greina að þeir fengju greitt mótframlag frá bænum.

Stúdentspróf

Það tók bæjaryfirvöld nokkra mánuði að leysa úr nýjum þætti karasamninga Fos-vest í vor þar sem stóð að allir þeir sem eru með stúdentspróf eigi að fá 4% launahækkun aukalega hvort sem krafist er slíkrar menntunar eða ekki. Það tók einn starfsmann fjóra mánuði eftir síendurteknar viðræður, ítrekaðar, hringingar og leiðinleg samskipti við yfirmenn bæjarins að fá greitt eftir kjarasamningnum.

Grunnskólinn á Ísafirði

Þetta birtist í grein í BB í maí.

Segir fækkun starfsmanna augljóslega rýra þjónustu Grunnskólans
Skarphéðinn Jónsson skólastjóri Grunnskólans á Ísafirði segir augljóst að þjónusta skólans muni versna í kjölfar fækkunar stöðugilda sem boðuð er í fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar og koma mun að óbreyttu til framkvæmda í sumar.....


Þá segir Herdís í grein sinni: „Grunnskólinn á Ísafirði er ódýrasti grunnskóli landsins í rekstri, og samt er okkur gert að spara meira. Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að spara í einum skóla án þess að það komi niður á gæðum skólastarfsins. Það getur ekki annað en bitnað á ímynd Ísafjarðarbæjar, gæði grunnskóla vega þungt í mati fólks á því hvaða sveitarfélög eru vænleg til búsetu og hver ekki. Þeir sem ætla að skora í þeirri keppni, hafa það ekki í forgangi að fjársvelta grunnskólann sinn.“
bb.is 17.05.05

Lokaorð

Það sem ég vitna til í grein minni á þriðjudaginn var því ekki fengið úr leyniskýrslum heldur vitneskja komin úr fjölmiðlum og með almennri eftirtekt á viðburðum líðandi stundar.

Ég hef verið yfirmaður og veit því vel hver staða einnar verkakonu úr fjölmennri starfsstétt er til að ræða sérstaka launahækkun fyrir sig við sinn yfirmann. Enda var það samstaða kvenna sem var til umfjöllunar á fundinum sem ég tel vera sterkasta aflið til að berjast fyrir bættum kjörum.

Þegar ég fór yfir öll þessi mál og las fréttir um hvert eitt þeirra varð mér ljóst að almennir starfsmenn Ísafjarðarbæjar hafa ríka réttlætiskennd og hafa reynt að berjast fyrir sínu. Viðhorf bæjaryfirvalda til sinna starfsmanna í öllum þessum málum skín í gegn og því við ramman reip að draga.

Níð af því tagi sem Halldór Halldórsson skrifar um mig þar sem ég lýsi upplifun minni af ræðu á kvennafrídagsfundi, sem hann hlýddi ekki á, vekja upp enn fleiri spurningar í mínum huga um samskipti hans við sína undirmenn. Það sem hér hefur verið rakið lýsir ótrúlegum hroka yfirmanna bæjarins til starfsmanna sem nú teigir anga sína til konu út í bæ sem skrifar litla grein um kvennafrídag.

Vona að rökin séu nægilega góð og Halldór nái inntaki fyrri greinar minnar en þegar ég lít til baka sést best hversu þröngt bæjaryfirvöld túlka kjarasamninga og að samningaviðræðum við þau lyktar ekki ávalt farsællega né starfsmönnunum í hag.

Virðingarfyllst,
Guðrún Anna Finnbogadóttir.
Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi