Grein

Víðir Benediktsson.
Víðir Benediktsson.

Víðir Benediktsson | 25.04.2005 | 17:48Uppsögn vegna svika og áhrifaleysis

Ráðherrar, alþingismenn og sveitarstjórnarmenn. Ykkur er hér með sagt upp störfum. Þjónustu ykkar er ekki lengur óskað því þið hafið brugðist trúnaði okkar. Það var erfitt að taka þessa ákvörðun en hana höfum við tekið að vandlega athuguðu máli eftir að hafa áttað okkur á viljaleysi ykkar, áhuga- og getuleysi til þess að snúa við hinni neikvæðu þróun á landsbyggðinni. Þar er átt við þá einu landsbyggð sem eftir er á landinu, „Vestfjörðum". Þið hafið fengið mýmörg tækifæri í almennum kosningum til alþingis og sveitarstjórna og einnig á milli kosninga til að bæta ástandið. Því miður hefur alltaf hallað á verri veginn og hafa loforð ykkar ekki verið annað en innantómt skrum.

Svikin loforð sjást hvarvetna, samanber síðustu vegaáætlun. Maður er óneitanlega sjálfum sér sárreiðastur fyrir að hafa lagt lag sitt við ykkur.Þetta á við um alla stjórnmálamenn sem boðið hafa sig fram til starfa fyrir Vestfirði. Það er enginn almennilegur talsmaður eða baráttumaður til lengur í ykkar röðum og það eina sem hugsanlega getur bjargað okkur er að fá ráðherra frá Vestfjörðum. Það er svo að allt virðist vera að gera sig í þeim kjördæmum sem á ráðherra í sínum röðum. .Það er nú svo komið að rótgrónir sem aðfluttir Vestfirðingar eru alveg að verða búnir að missa trúna á því að þeirri óheillaþróun verði snúið við sem hefur verið að gerast síðastliðin 20 ár. Hér hefur átt sér stað stöðug fækkun íbúa, alger eignarupptaka, svæðið er orðið láglaunasvæði, svik ráðherra við að færa opinber störf út á land, slæmar samgöngur, ungt fólk þarf að fara í burtu til náms og sífelld skerðing þjónusta á svæðinu.

Hver er ástæðan fyrir þessari þróun? Sjálfsagt fjölmargar utanaðkomandi og heimatilbúnar og örugglega miklu fleiri en hægt er að setja á blað í stuttri grein og víst er að það eru ekki allir sammála um það hverjum er um að kenna. Einnig finnst eflaust einhverjum fullkomlega óþarft að ræða þetta eða að leita að sökudólg.

Þessar hugleiðingar eru ekki settar á blað fyrir okkur heldur komandi kynslóðir, því okkur óar við hvernig er komið fyrir Vestfjörðum, þessum fornfrægu útgerðar og fiskvinnslustöðum þar sem þjóðarauðurinn varð til um aldir. Hér er gott að eiga heima ,hér er gott og duglegt fólk, náttúrufegurð mikil og það er eftirsjá af öllu því góða fólki sem hefur flutt í burtu. Heilu fjölskyldurnar, heilu ættirnar eru horfnar á braut og með svo mikilli fækkun verður allt mannlíf fátækara og erfiðara að halda úti félagsstarfi og þeirri þjónustu sveitarfélaganna sem nútíma fólk gerir kröfu um.

Ekki það að það þurfi að kvarta yfir þjónustu sveitarfélaganna. Hún er með því besta sem gerist og sjálfsagt meiri en þau hafa efni á.Hinsvegar viljum við og þurfum að verða miklu fleiri því þá væri allt miklu eðlilegra. Það er svo miklu skemmtilegra og meira hvetjandi að gera ýmsa hluti ef staðirnir héldu í við aðra staði hvað varðar fólksfjölda, menningu, atvinnu og framtíðarsýn. Nú er svo komið vegna fábreytts atvinnulífs að heilu árgangana vantar af unga fólkinu. Um leið vantar börnin. Með unga fólkinu kemur vonin um vöxt og viðgang staðanna og auknar tekjur í allt of illa stöddum bæjarsjóðum rekstrarlega séð.

Ætlunin okkar er að vekja athygli á ástandinu eins og það er og brýna fyrir ráðamönnum að grípa nú þegar til róttækra aðgerða. Allar tölfræðilegar upplýsingar sína svo ekki verður um villst að framanritað er síður en svo of sagt. Vestfirðingar, við erum alltof hógværir í kröfum okkar. Við eigum betra skilið. Við erum líka fólk.

Þeir sem vilja taka þátt í að stofna samtökin „Til varnar Vestfjörðum" geta sent póst á vbenehf@simnet.is eða jfanndal@mi.is og fengið nánari upplýsingar.

f.h. væntanlegra samtaka: Til varnar Vestfjörðum,
Víðir Benediktsson.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi