Grein

Kristinn Hermannsson.
Kristinn Hermannsson.

Kristinn Hermannsson | 07.02.2005 | 18:16Háskóli sem byggðatæki

Sumir segja að háskóla eigi eingöngu að reka þekkingarstarfseminnar vegna og ekki spá í neinum byggðasjónarmiðum í því tilliti – það sé síðasta sort. Gott og vel, auðvitað á ekki að stofna háskóla út af einhverjum annarlegum hvötum, það er hárrétt. En þekkingarstarfsemin er ekkert ómerkilegri á 66° breiddargráðu en 64°. Staðreyndin er einfaldlega sú að háskólar hafa áhrif langt umfram það eitt að kenna og rannsaka, þeir smita út frá sér. Nálægð við rannsóknar- og þekkingarbanka er einfaldlega lykillinn að nútímalegu atvinnulífi. Og þegar markmiðið er (og hefur verið) að setja hefðbundinn lágþekkingariðnað á öskuhauga sögunnar er nema von að menn óski eftir því að fá að taka þátt í framtíðinni?

Í löndunum í kringum okkur hefur krafan þótt afskaplega eðlileg og uppbygging háskólastarfsemi verið notuð sem öflug aðferð til að umbreyta stöðnuðum iðnaðarsvæðum og um leið styrkja þekkingarinnviði landsins. Það geta allir verið sammála um að refabúavæðingin á sínum tíma var tóm steypa en einnig ættu flestir að geta fallist á að aukin rannsóknarstarfsemi skilar öllum landsmönnum ábata.

Farsælt hjónaband byggðarsjónarmiða og akademíu

Um þessar mundir er ég einmitt við nám í slíkum háskóla sem var stofnaður sem byggðalegt umbreytingartæki, í Maastricht, syðst í Hollandi. Hér í Hollandi telst svæðið vera útkjálki, skagi sem stendur suðaustur úr landinu og rekur sig inn í Belgíu og Þýskaland. Höfuðborgarsvæðið, sem markast af Amsterdam, Rotterdam og Utrecht, er náttúrlega aðalmálið, efnahagsleg þungamiðja landsins. Þar ægir öllu saman, ferðamönnum stjórnsýslu, öflugum háskólum, sumum af flottustu listasöfnum í heiminum, viðamikilli flutningastarfsemi og risavaxinni olíuhreinsunarstöð Shell, svo nokkrar að þeim aðsópsmiklu stofnunum sem þar eru vistaðar séu nefndar. Hinsvegar virðist mönnum ekki þykja neinn akkur í því að flytja alla íbúa landsins þangað og þess vegna hefur verið staðið myndarlega að uppbyggingu héraðshöfuðborga, þó hvert svæði fyrir sig hafi e.t.v. ekki úrslitaþýðingu fyrir veg landsins, samanborið við slagkraftinn á höfuðborgarsvæðinu.

Háskólinn í Maastricht var stofnaður í byrjun áttunda áratugarins, um líkt leyti og Menntaskólinn á Ísafirði. Margvíslegur iðnaður lagði upp laupana í Hollandi á sjöunda áratugnum, m.a. öflug námustarfsemi í kringum Maastricht. Til mótvægis var ráðist í stofnun háskóla, sem var víst mjög umdeild á sínum tíma, en að lokum tókst að fóðra málið á því að skólinn skyldi byggja á framúrstefnulegum kennsluaðferðum sem enginn annar skóli í landinu beitti. Þannig náðist á endanum sátt um að ráðast í þessa nýsköpun. Skólinn hefur síðan vaxið og dafnað, og hreiðrað um sig víðsvegar um bæinn, í mörgum gömlum húsum sem hafa verið endurbætt, en oft er um aflagt atvinnuhúsnæði að ræða. Skólinn hefur raðað sér meðal bestu háskóla Hollands, og telst til þeirra fremstu í Evrópu.

Hliðstæðurnar við Ísafjörð

Síðan ég fór að sækja nám hérna í haust og heyra af sögu skólans, hef ég ekki getað varist tilhugsuninni um hliðstæðurnar við Ísafjörð. Sögufrægur staður sem gengur í gegnum erfitt tímabil afiðnvæðingar en gengur loks í endurnýjun lífdaganna með uppbyggingu háskóla- og þekkingarstarfsemi. Við höfum söguna og afiðnvæðinguna, það væri gaman að fylgja fordæmi Maastrichtingana alla leið.

Svæðið hér þykir hafa upp á aðra eiginleika að bjóða en t.d. höfuðborgarsvæðið í kringum Amsterdam, hér er ekki sami hraðinn og lætin, og e.t.v. ekki sami sprengikrafturinn í efnahagslífinu, en það er vaxandi og byggir á traustum grunni. Lífsgæðin þykja að mörgu leyti betri en annars staðar og því er fasteignaverð, sérstaklega í gömlu miðborginni, svimandi hátt. Á móti kemur að bílar eru víðast hvar alveg óþarfir og auðvelt að fara sinna ferða gangandi eða á hjóli. Þetta stuðlar líka að því að um helgar er miðbærinn stútfullur af fólki á öllum aldri sem hefur klætt sig í betri fötin til að fara út og fá sér bjórkrús. Eftir því sem andúð nútímamannsins á ofurstresslífstílnum breiðist út, verða borgir eins og Maastricht, eftirsóttari íverustaðir. Svo vel hefur tekist til að á síðasta ári var borgarstjórnin útnefnd sveitarstjórn ársins í Hollandi. Hér eru menn lausir við hraðbrautir og eimyrjuspúandi stóriðnað en samt virðast allir vera að „meika” það.

Nú óska ég eftir því að sveitastjórnarmenn og Alþingismenn kjördæmisins setji allan sinn slagkraft í að sigrast á kerfisljónunum og stofna Háskóla Vestfjarða fyrir lok kjörtímabilsins. Það eru rúmir 27 mánuðir til stefnu, við erum farin að telja niður!

Kristinn Hermannsson.
Höfundur er einn fjölmargra áhugamanna um stofnun háskóla á Vestfjörðum og er þetta síðasti pistillinn af þremur sem hann ritar um efnið á bb.is.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi