Grein

Gústaf Gústafsson.
Gústaf Gústafsson.

Gústaf Gústafsson | 02.10.2004 | 20:13Dóri og vinir hans!

Í gegnum tíðina hefur það talist til mannkosta að standa við orð sín, vera staðfastur, láta ekki stjórnast af öðrum, heldur virða eigin tilfinningar og greind og vera fylginn sér. En það virðist ekki eiga við í Framsóknarflokknum. Framsóknarflokkur! Hverslags öfugnefni er þetta að verða.

Í eld – gamladaga breyttu framsóknarmenn Íslandi til hins betra, stofnuðu kaupfélög fyrir almúgann, rufu skarð í ofurvegg lénstímans og lyftu íslenskri alþýðu upp á lýðræðispallinn. Framsókanarmenn voru í framsókn, þeir sóttu fram, börðust fyrir réttlæti og hjálpuðu lýðræðinu, gerðu menn fjárhagslega sjálfstæða með aðgerðum sínum og unnu með alþýðunni. Í dag er annað uppi á teningnum.

Þegar ég var ungur voru í Framsóknarflokknum menn sem létu að sér kveða, hræddust ekki skoðanir annarra og voru fylgnir sér. Ég get nefnt Ólaf Jóhannesson, Steingrím Hermannsson og marga fleiri merka menn, en það þjónar ekki tilgangi þessarar greinar. En það gustaði af þessum mönnum. Þeir lentu í ýmsu, höfðu persónutöfra og þekkingu og voru menn orða sinna. Í dag er Framsóknarflokkurinn orðinn flokkur einræðisherrans, hækill samstarfsflokksins, mannsins sem stjórnar, mannsins sem leggur allt í sölurnar fyrir stjórnarsamstarfið og stólinn, enda held ég að þegar þessu tímabili lýkur, þá lýkur stjórnartíð einræðisherrans og hægrimannsins Halldórs Ásgrímssonar, lærisveins Davíðs. Oddsonar.

Það kemur mér á óvart hversu ódýrt sumir flokksmanna Framsóknar selja sig, eins og t.d. Hjálmar vetnisfrömuður og fyrrverandi skólastjóri af Suðurnesjum sem í kosningabaráttunni fyrir ,,næstum of löngu” virtist bera hagsmuni fjöldans fyrir brjósti, en hefur nú snúið við blaðinu og kastað stríðshanska framan í þá framsóknarmenn sem ekki eru sömu skoðunar og Halldór Ásgrímsson. Og ég spyr: ,,Hvers vegna láta konurnar það yfir sig ganga sem nú á sér stað í flokknum, er það í lagi af því Kristni var hent út?“ Kona í stað Kristins og þá er allt í lagi! Upp með ungliðana, hlýðna liðið!

Til hvers eru stjórnmálamenn annars? Hvað haldið þið að það séu margir framsóknarmenn sem ekki eru nákvæmlega sömu skoðunar og Halldór. Ég fullyrði að þeir er nokkuð margir. Í einu vetfangi eruð þið að gera einn af þingmönnum Vestfirðinga næstum ómerkan á þingi, vegna þess að hann þorir að standa á meiningu sinni. En ég fullyrði að þetta á eftir að koma ykkur í koll. Ég get vel skilið sjálfstæðismenn sem þegja þunnu hljóði. Þeir hafa náð árangri, hent út manni úr öðrum flokki sem þeim líkar ekki. Hvað segir það?

Það er mín trú að Vestfirðingar láti ekki bjóða sér slíka meðferð þingmanna sinna, næstum því hvar í flokki sem þeir eru og sýni það í næstu kosningum. Kristinn H. hefur talað okkar máli alla tíð, staðið á sínu og sýnt það í verki að það sem hann segir, það kemur fram á Alþingi Íslendinga, löggjafarsamkundunni sem Ísland er svo frægt fyrir að hafa stofnað fyrst allra þjóða. Í útlöndum er talað um að ef Bretland sé móðir lýðræðis þá sé Ísland amman. Framsóknarflokkurinn er ekki að leggja neitt markvert af mörkum í þeim djúpa skilningi orðsins ,,lýðræði”.

Hvað Kristinn H. gerir nú, er mér að sjálfsögðu algjör ráðgáta, en ég vona að hann haldi áfram því þarfa starfi sem hann hefur stundað, þ.e. að kafa djúpt í málin og taka afstöðu eftir málefnum. Ég óska Kristni alls hins besta, en verð að biðja þingflokk framsóknarmanna og þá sem að ,,eineltinu” gagnvart honum standa að skammast sín. Þetta yrði ekki þolað í grunnskólakerfinu, það fullyrði ég!

Það sem Halldór Blöndal gerði við þingsetninguna ætla ég ekki einu sinni að ræða og ekki þess virði, enda maðurinn bara skoffín stjórnarinnar sem á að leiða athyglina frá líðandi stund og því sem í raun er að gerast í samfélaginu.

Gústaf Gústafsson, Patreksfirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi