Grein

Jón Fanndal Þórðarson.
Jón Fanndal Þórðarson.

Jón F. Þórðarson | 19.03.2003 | 16:46Íslenskur her

Danir og Íslendingar ætla í stríð við Íraka, einir Norðurlandaþjóða. Danir eiga einn kafbát og er hann á leið til Persaflóa til að berja á Írökum. Íslendingar eiga engan her en ætla í þess stað að aðstoða við herflutninga til átakasvæðanna. Flytja þangað vopn og hermenn, þar sem Bandaríkjamenn og Bretar eru ekki sjálfum sér nógir með herflutningatæki að því er virðist.
Árið 1785 var að boði konungs ákveðið að stofna íslenskan her. Levetzov var þá stiftamtmaður yfir Íslandi. Hann reri að þvi öllum árum að stofna íslenskan her. „Dátarnir eiga að vera tuttugu til tuttugu og fjögurra ára og skal undirforinginn ferðast um og æfa liðsmenn við kirkjur eftir messu á sunnudögum. Sá, sem efnilegastur reynist í hverri sókn, á síðan að gerast liðþjálfi sveitar sinnar. Búast má við, að sumir þrjóskist við að hlýðnast kvaðningu, og þykir Levetzov hæfilegt, að slíkir liðhlauparar og svikarar séu látnir standa bundnir við staur og barðir með kaðli.“

Árið 1788 sendi Hans von Levetzov út herkvaðningu til íbúa Suðuramtsins til landvarna, því frést hafði að ófriðlega horfði með Svíum og Rússum. Í herútboðinu fólst, að íbúar hverrar sveitar mynduðu sérstakan flokk, tygjaðan þeim vopnum sem völ væru á heima fyrir.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa enda mikið atvinnuleysi í landinu.

Hópar manna gáfu kost á sér í landvarnarliðið. Bestar voru undirtektirnar á Álftanesi. Þar gengu 203 menn fram fyrir skjöldu, 173 með spjót og stjaka, 29 tinnubyssur og eitt skylmingasverð. Landvarnasveitirnar þynnast þegar dregur suður með sjó en vopnabúnaðurinn verður fjölbreyttari.

Á Vatnsleysuströnd eru 22 reiðubúnir til herþjónustunnar, þrír með barefli, tveir með járnslegnar lensur, tveir með gaddakylfur, tveir með öxi með löngu skafti en önnur vopn þessarar sveitar eru trébarefli með eggjárni fram úr, trébarefli járnslegið með göddum, handspík regguð með broddum úr, kylfa með járngöddum, járnslegin kylfa, stjaki með járni, skógaröxi, norskur forkur, byssa, trékeppur og páll.

Í Garðinum eru 33 líklegir ef óvinalið verður fámennt. Í þessu liði hafa sex barefli, fjórir bromsmur í löngum sköftum, fjórir axir og þrír trékeppi. Aðrir ætla í stríð með broddstafi, spíruleggi og orf með löngum ljáum. Einn hefur jafnvel byssu með kúlu, annar byssu og atgeir og þriðji pál.

Í Höfnum rituðu tuttugu nöfn sín á útboðsskjalið. Tólf þeirra ætla að berjast með spjótum, fjórir með bareflum, einn með byssu og spjóti og einn hyggst ætla að láta byssuna eina duga. Einn segist ekki geta gefið sig til varnar vegna hræðslu.

Grindavíkursveitin er fjölmenn, 43 menn, 31 með barefli, fimm með atgeira, sex með byssur og einn með byssusting.

Bændur í Reykholtsdal hafa tjáð sig reiðubúna til þess að „voga lífi og blóði fyrir kónginn og föðurlandið og verja sig og sína til þess ydersta og ganga á móti óvininum með þeim verjum sem hafa kunna, sem ekki er annað en staurar og slagbrandar.“

Í Holtunum hafa áttatíu gefið sig fram. Fimmtán með kylfur, ellefu með spjót og lagvopn, fimm með stingi, tveir með ljái og einn með tvíeggjaðan atgeir.

Í Landeyjum verður 40 manna sveit að nægja, enda eru þar 15 með stöng og stjaka með broddi í, tólf með barefli með broddi, sex með spjót, þrír með ljái, tveir með lagvopn og tveir með atgeira.

Á Rangárvöllum eru 36 reiðubúnir að hlýða kallinu. Þar eiga 18 barefli, tveir hyggjast berjast með ljáum og tveir með járnkörlum. Hinir ætla að vopnast spjótum, lagvopnum, sverðum, byssum, öxum og kylfum.

Í Fljótshlíð gefa 56 kost á sér. Af þeim hafa 22 ljái til bardagans, sextán kylfur, þrír barefli, tveir með byssur, einn með járnkarl og einn með spjótsmynd.
Í Austur-Landeyjum verður öll sveitin með samskonar vopn, barefli, 45 menn samtals en þeir kunna allir að geta veitt sér orf og ljái en ekki önnur vopn.

Þannig var sá eini her sem stofnaður hefur verið á Íslandi skipaður og vopnum búinn.

Svo getur farið að General Halldór Ásgrímsson stofni íslenskan her til að vera til taks ef kallið kemur frá Búss um að drepa þjóðir. Þá tel ég að hann geti haft þessa fyrstu og einu tilraun til myndunar hers á Íslandi að fyrirmynd og lært af henni nokkuð. Þess vegna tók ég þessa fróðleiksmola saman honum til handa. Ég vil geta þess að þetta er allt tekið úr annálum og er enginn skáldskapur.

Njóttu


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi