Grein

Sigurður Filippusson.
Sigurður Filippusson.

Sigurður Filippusson | 05.03.2003 | 14:27Það er búið að stela sjónum!

„Það sem er að hjá okkur er að búið er að stela sjónum af okkur“ sagði trillukarl á Seyðisfirði við mig nýlega, og er þar allur sannleikurinn samankominn í einni setningu. Gera má ráð fyrir að um það bil tvö hundruð störf séu glötuð hér á Seyðisfirði síðan lögin um stjórn fiskveiða voru sett. Á sama tíma og þeim fáu trillum sem eftir eru á Seyðisfirði eru gefnir aðeins örfáir dagar á ári á sjó (og þessa daga fá flestar aðeins að veiða með krókum), fær stórt togveiðiskip (snurvoð) úr öðrum landshluta að urga og skafa öll hefðbundin trillumið Seyðfirðinga. Þetta samrýmist ekki lögum um bátfiski á fjörðum frá 1888.
Aðferðir stjórnvalda til að byggja upp fiskistofna eru ekki trúverðugar, enda árangurinn eftir því. Þeir er á sjávarjörðum búa vita að togveiðar á grunnslóð og inni á fjörðum eru ekki góðar fyrir lífríkið því að þar er barnheimili fiskanna. Stundum vita dýrin betur en sérfræðingarnir.

Hægt er að líkja núverandi úthlutun veiðiheimilda við að stjórnvöld myndu banna Jökuldælingum að nýta túnin sín, úthaga og afréttir sem þeir eru búnir að nýta og lifa á í ellefu hundruð ár, nema örfáa daga á ári og þá aðeins með handverkfærum, en leyfðu í staðinn Sunnlendingum að nýta tún þeirra, úthaga og afréttir á meðan eitthvað væri þar að hafa og til verksins mættu þeir nota jarðýtur og skriðdreka ef þeir vildu.

Að taka atvinnuréttindi og lífsviðurværi með þessum hætti frá stórum hluta þeirra sem á landsbyggðinni búa er því miður ekkert annað en þjófnaður. Það er stærsta byggðamálið í dag, að lögverndaður réttur sjávarbyggðanna til fiskimiða sinna verði virtur á ný og það án allra undanbragða.

– Sigurður Filippusson,
bóndi á Dvergasteini í Seyðisfirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi