Grein

Karl Jónsson.
Karl Jónsson.

Karl Jónsson | 29.10.2002 | 10:40Samvinna íþróttafélaga í Ísafjarðarbæ

Aukin samvinna íþróttafélaga í Ísafjarðarbæ er áhugamál margra, mitt þar á meðal, þrátt fyrir að ég sé ekki lengur búsettur á svæðinu í bili a.m.k. Enn sem komið er hafa menn ekki fundið neinn sérstakan samstarfsvettvang sem allir hafa sameinast um, í það minnsta ekki á rekstrarlegum grunni. Ég batt vonir við að héraðssambandið og sveitarfélagið í sameiningu gætu komið því til leiðar að félögin færu að vinna saman. Enn sem komið er bólar lítið á því og er það miður.
Ég er á þeirri skoðun að íþróttafélögunum beri hrein og klár skylda til að starfa meira saman en þau gera, iðkendum og fjölskyldum þeirra til hagsbóta. Sem dæmi, þá þarf iðkandi sem áhuga hefur á að stunda fleiri en eina íþróttagrein að greiða fullt æfingagjald í hverri grein fyrir sig.

Ég minnist þess þegar ég var félagi í KFÍ, að í desember árið 2000 sendum við bréf til stjórnar BÍ þar sem við vildum kanna áhuga þeirra á því að félögin tækju upp samvinnu varðandi æfingagjaldainnheimtu. Við höfðum þá um haustið orðið varir við áhuga nokkurra iðkenda á því að æfa báðar greinarnar en heima hjá þeim var það ekki mögulegt kostnaðarins vegna. Okkar hugmynd var á þeim nótunum að félögin gæfu þeim iðkendum, sem áhuga hefðu á að stunda æfingar í báðum greinum, umtalsverðan afslátt á æfingagjöldum. Við sáum þetta fyrir okkur sem tækifæri til að brjóta ísinn og okkar vonir voru bundnar við að fleiri félög kæmu síðan inn í samstarfið. Ekki reyndist áhugi á þessari málaleitan hjá BÍ.

Hjá Ungmennafélaginu Snæfelli hér í Stykkishólmi, sem býður upp á æfingar í nokkrum íþróttagreinum, er málum þannig háttað, að iðkendur greiða eitt æfingagjald og mega æfa eins margar greinar og þá lystir. Gjaldið er kr. 7.000 fyrir fjóra mánuði, eða samtals 14 þúsund krónur fyrir átta mánaða tímabil. En þetta dugar ekki fyrir launum þjálfara eitt og sér. Stykkishólmsbær styrkir þennan hluta starfsemi Snæfells með einnar milljón króna framlagi árlega og hefur gert það allar götur síðan 1999, sem klárar að dekka launakostnað vegna þjálfunar yngri flokkanna. Öll launaumsýsla er á höndum aðalstjórnar félagsins og koma deildirnar þar hvergi nærri.

Þetta er eitthvað sem ég vildi sjá í framkvæmd í Ísafjarðarbæ undir merkjum HSV. Ég tel þetta vel framkvæmanlegt ef áhugi er fyrir hendi. Sambandið gæti haft yfirumsjón með innheimtu þessa æfingagjalds og hluti af styrk Ísafjarðarbæjar til sambandsins færi í að standa undir launakostnaði ásamt gjaldinu. HSV sæi síðan alfarið um að greiða út launin beint til þjálfara félaganna – eða millifærði kostnaðinn inn á reikning félaganna sem sæju um greiðslurnar.

Allt sem þarf er vilji. Þarna er mikið framfaramál á ferðinni að mínu mati, allt sem þarf er vilji manna til að standa svona að málum. Ég skora líka á foreldra og forráðamenn iðkenda að láta til sín taka í þessum efnum, því þetta er fyrst og fremst til hagsbóta fyrir þá. Iðkendur fengju tækifæri til að æfa og kynnast fleiri íþróttagreinum sem aftur gæfi þeim færi á fjölbreyttari hreyfiþroska, fyrir mun minni pening en til er í dæminu í dag. Óþarfi er að minna á að íþróttafélögin í landinu standa fyrir öflugasta og besta forvarnarstarfi sem unnið er en því miður nýtur það lítils skilnings opinberra aðila. Það er líka vert að hafa í huga í þessu sambandi, að félögin eru fyrir fólkið á svæðinu en fólkið ekki fyrir félögin. Það ber því að leita leiða til að gera fólki það léttbærara að stunda íþróttir og holla hreyfingu í stað þess að hver húki í sínu horni og hafi jafnvel horn í síðu hvers annars. Þetta á ekki að vera samkeppni – heldur samvinna.

Þetta gæti aðeins orðið fyrsta skrefið að nánara samstarfi félaganna á svæðinu. Það má viðra fjölmargar hugmyndir að frekara samstarfi félaganna. Það sem ég teldi mikilvægast í framhaldinu af þessu væri aukið samstarf íþróttafélaganna við Vávest-hópinn og barátta fyrir aukinni hlutdeild opinberra aðila í ferðakostnaði. En ég læt þetta duga í bili.

Með íþróttakveðju.
– Karl Jónsson.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi