Sjálfstæðisflokkur og óháðir: orkumálin í brennidepli – veltum öllum steinum við

Friðbjörg Matthíasdóttir, oddviti D lista.

Afhendingaröryggi og aukin græn orkuöflun er eitt helsta baráttumál okkar Vestfirðinga í ljósi orkuskipta og framtíðarmöguleika svæðisins sem valkostur í búsetu og uppbyggingu atvinnulífs segir Friðbjörg Matthíasdóttir oddviti D lista sjálfstæðismanna og óháðra í sameinuðu sveitarfélagi Vesturbyggðar og Tálknafjarðar.

„Við viljum leggja áherslu á að öllum steinum sé velt við í þeirri vegferð, hvort heldur sem það er könnun á möguleikum við virkjun í Vatnsdal, tvöföldun vesturlínu og aðrir stærri sem smærri virkjanakostir á svæðinu. Við munum beita okkur fyrir því að fram komi lausnir sem geta skilað okkur skýrum valkostum sem allra fyrst, þannig að hægt sé að hefja viðeigandi undirbúningsferli.“

„Staðan eins og hún er í dag, þar sem verið er að brenna olíu til húshitunar er fullkomlega óásættanleg og þurfum við að finna lausnir sem falla að skuldbindingum okkar íslendinga í náttúruverndar- og loftslagsmálum, þar sem við Vestfirðingar ætlum svo sannarlega ekki vera eftirbátar annarra landshluta. 

Við höfum átt góð samtöl við Guðlaug Þór Þórðarson umhverfis- orku og loftslagsráðherra um þessi mál og fengum hann m.a. til að koma hingað á Patreksfjörð til að halda opinn fund fyrir íbúa. Á fundinum fór fram hreinskiptið samtal um orkumálin og framtíðina. Við teljum nauðsynlegt að halda umræðunni opinni og erum í raun að biðja um umboð kjósenda til að halda því samtali áfram, ásamt öðrum þeim mikilvægu málum sem liggja fyrir í okkar góða samfélagi og ljóst er að berjast þarf fyrir á komandi misserum.“

DEILA