Alþingi: vilja koma í veg fyrir að umsagnaraðilar tefji framgang mála

Teitur Björn Einarsson, alþm.

Teitur Björn Einarsson alþm (D) og fimm aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa tillögur til breytinga á lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana og skipulagslögum með það að markmiði að tímafrestir umsagnaraðila í leyfis- og skipulagsferli séu virtir þannig að framkvæmdaraðili geti búið við meiri vissu um framvindu verkefnisins og aðlagað aðra þætti þess að ferlinu eins og segir í greinargerð flutningsmanna.

Virði ekki umsagnaraðili setta tímafresti þá verði að lögum litið svo á að viðkomandi stofnun samþykki efnislega umsókn sem beint er til umsagnarbeiðanda eða telji ekki ástæðu til að bregðast við með umsögn. Með öðrum orðum að óheimilt verði að tefja framvindu málsins ef fagstofnun dregur það fram yfir tímafrest að skila umsögn. 

Flutningsmenn segja að lögbundnir tímafrestir séu ekki virtir af fagstofnunum með tilheyrandi töfum og óvissu um framvindu verkefna. Hins vegar séu ekki ákvæði í lögunum varðandi afleiðingar af því að stofnanir dragi að svara erindum um umsögn.

Frumvarpinu sé ætlað að bæta úr þessu með því að kveðið verði á um almennan hámarkstíma, sem umsagnaraðilar hafa samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, og skipulagslögum, nr. 123/2010. Yrði þá hámarkstími sem umsagnaraðili hefur til að skila inn umsögn átta vikur, nema mælt sé fyrir um annan tímafrest í lögum. Þá yrði jafnframt skylt að líta svo á að berist umsögn umsagnaraðila ekki innan lögbundins frests geri umsagnaraðili engar athugasemdir við umrætt mál.

Vísað er til skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2022 þar sem fram kemur að löng málsmeðferð sé algengasta ástæða kvartana til embættisins, líkt og hefur alla jafnan verið. Rík þörf sé á því að skýra betur þá tímafresti sem umsagnaraðilar hafa og afleiðingar þess ef þeim er ekki fylgt. 

DEILA