Grein

Jón Fanndal Þórðarson.
Jón Fanndal Þórðarson.

Jón Fanndal Þórðarson | 03.07.2002 | 14:55Er þetta það sem koma skal?

Fyrir ári síðan skrifaði ég grein í BB varðandi umhverfi Funa, þar sem ég kom með ákveðnar tillögur um það hvernig mætti leysa þann umhverfisvanda sem af sorpbrennslunni stafar. Ekki stóð á viðbrögðum bæjarstjórnar, því nokkrum dögum síðar kemur frétt í sama blaði um að bæjarráð hafi ákveðið að láta hanna jarðvegsgarð umhverfis svæðið til að koma í veg fyrir sjónmengun.
Þessi ákvörðun bæjarráðs var náttúrulega þvert ofan í mínar tillögur. Ekkert var hugað að kostnaði, jarðraski eða öðru sem slíkum framkvæmdum hljóta að fylgja. Ekkert bólar á jarðvegsgarðinum en í stað hans er komin snjóflóðavörn fyrir ofan þetta eina hús, sem er staðsett á þeim vitlausasta stað sem hægt hefði verið að finna, en um það er of seint að deila. Má í því sambandi nefna að sorpbrennslan er staðsett í mesta lognpolli sem finna má í nágrenni kaupstaðarins og mitt í útivistarsvæði bæjarbúa. Þá má og minnast á nálægðina við grafreitinn sem er í hæsta máta ósmekkleg.

Þessi snjóvarnargarður er að mínu mati ein hryggðarmynd og hvet ég bæjarbúa til að keyra inn eftir og skoða óskapnaðinn. Ef þetta er það sem koma skal, ekki aðeins umhverfis Funa, heldur vítt og breitt um bæjarlandið, skv. ummælum bæjarstjóra eftir að nýja snjóflóðahættumatið leit dagsins ljós, þá gef ég ekki mikið fyrir ásýnd bæjarins að þeim framkvæmdum loknum. Hinn fallegi bær okkar á annað og betra skilið en slíka misþyrmingu á landslaginu.

Ég vil því bera fram þá spurningu til bæjarstjóra, hvað líði gerð væntanlegs jarðvegsgarðs umhverfis Funa og í leiðinni vil ég varpa fram þeirri spurningu, hvað líði framkvæmdum við uppbyggingu áningarstaðar fyrir ferðamenn í Teigahverfi, sem heiðursmannasamkomulag var gert um sl. sumar, milli fulltrúa bæjarins annars vegar og fulltrúa íbúanna í Hnífsdal hins vegar.

Jón Fanndal Þórðarson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi