Grein

Ásthildur C. Þórðardóttir.
Ásthildur C. Þórðardóttir.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir | 29.11.2001 | 17:40Vestfirðingar leggist á eitt

Alveg finnst mér makalaust hvernig opinberir aðilar taka á fréttum um brottkast á afla, sem fram komu fyrir nokkru. Auðnuleysi þeirra er algert. Upphrópanir um einlægan brotavilja og rannsókn lögreglu er gott dæmi um veruleikafirringu þessara manna. Ég hélt að það stæði í stjórnarskrá þessa lands, að öllum mönnum væri tryggt að sjá fyrir sér og sínum. En í dag blasir við að heilu byggðarlögin eru að leggjast í auðn út af kolvitlausu kvótakerfi, sem engu skilar, hvorki að tryggja atvinnu í dreifbýli né að byggja upp fiskistofna, en samt á að höggva stöðugt í þann sama rann.
Og hver voru viðbrögðin? Jú, að skjóta sendiboðann. Þegar sjómönnum okkar er farið að blöskra hvernig komið er og taka til bragðs að sýna alþjóð alvöru málsins til að reyna að stöðva vitleysuna, þá á að eltast við tvo fiskibáta. Mér er algjörlega ofboðið. Ég vona svo sannarlega að almenningur láti ekki glepjast af þessum embættismönnum, sem hafa ekki hugmynd um ástandið í raun og veru.

Ég hef talað mikið við fólkið hér heima og þar er mikill skilningur á málinu og hiti í mönnum. Það er sífellt talað um að smábátasjómenn séu að óskapast yfir málinu og blása það upp af græðgi einni saman. En þetta er ekki bara málefni smábátasjómanna, þetta er mál landsbyggðarinnar. Þetta er líka spurning um umhverfisvænar veiðar og verndun fiskimiðanna. Útgerðarmenn blása og hvása og ætla af göflunum að ganga af vandlætingu yfir því hvað kvótalitlir karlar eru ósvífnir.

Þetta er bara ekki spurning um smábátasjómenn, þetta er spurning um að lifa af. Og hvað sem þeir blása og hvása, þá er það staðreynd að það er líka brottkast á togurum. Það er líka vitað mál að nýting úti á sjó er miklu minni en í landi. Það er engin sátt um frjálst framsal kvóta og verður aldrei. Það skulu þessir menn hafa í huga. Mannssálin er þannig gerð að rík réttlætiskennd er innbyggð í hana. Stundum er svolítið djúpt á henni en hún er til staðar, og þegar óréttlætið og yfirgangurinn hafa viðgengist í einhvern tíma, þá fer að frussast út um götin. Alveg eins og gerðist í Júgóslavíu og Rússlandi. Menn stóðu þar frammi fyrir skriðdrekum og líf þeirra var í hættu. Kannski er ekki langt í það hér. Alla vega er undarlegt að upplifa að menn þora ekki að tjá sig um ákveðna hluti, af ótta við að forystumenn stjórnarflokkana frysti þá úti og geri þá upp.

Þetta er nú staðreyndin í dag, fyrir alla sem vilja vita það. Fréttamenn þora ekki annað en að sitja og standa eins og foringjarnir vilja vegna þess að þá verður ekkert viðtal, eða mönnum er bolað burt. Heilu ráðunum og nefndunum er bolað burt af því að fólk vill hafa sína meiningu. Og sífellt stækkar púkinn á fjósbitanum. Af hverju?

Ég vil að við Vestfirðingar íhugum í alvöru að skera okkur frá Íslandi og girðum af landið frá Gilsfirði að Hrútafirði. Ég er sannfærð um að það yrði okkur fyrir bestu. Og ef við erum svona mikill baggi á þjóðfélaginu, þá ættu menn syðra bara vera fegnir að losna við okkur. Við myndum bara sjá um okkur sjálf, alveg eins og við höfum alltaf viljað gera. Hér býr harðduglegt fólk eins og sést ef litið er yfir þær manneskjur sem mest er áberandi í okkar þjóðfélagi. Þá sést að meirihlutinn er ættaður eða kominn beint frá Vestfjörðum.

Því vil ég skora á alla Vestfirðinga að leggjast á eitt, hvar sem þeir eru, og fara að vinna að því að gera okkur kleift að lifa af frjáls og óháð. Við viljum bara vera í friði og vinna okkur sjálf út úr vandanum með það sem við höfum hér – kraftinn, dugnaðinn og náttúruauðæfin sem við höfum.

Og að lokum: Ég stend 100% með sjómönnunum og fréttamönnunum sem stóðu fyrir fréttunum um brottkastið. Ég hvet alla sem eru mér sammála til að láta í sér heyra um það svo ekki fari á milli mála að þeir hafi okkar stuðning. Ég vil að þeir fái að heyra að þeir gerðu rétt í því sem þeir gerðu og eiga heiður skilinn.

Með baráttukveðju.

– Ásthildur Cesil Þórðardóttir, Vestfirðingur og dreifbýliskona.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi