Grein

Jóna Benediktsdóttir.
Jóna Benediktsdóttir.

Jóna Benediktsdóttir | 03.06.2004 | 16:13Í hvaða liði vilt þú vera

Næstkomandi föstudag klukkan 20:00 verður almennur fundur um friðarmál í Edinborgarhúsinu. Í tilefni af því langar mig að biðja ykkur lesendur góðir að renna yfir þetta greinarkorn sem eru hugleiðingar mínar um ástandið í heiminum og hér hjá okkur um þessar mundir. Við Íslendingar getum ekki skorast undan ábyrgð í því stríði sem nú geisar suður í Írak Ráðamenn þjóðarinnar hafa lýst yfir stuðningi við stríðið, við vorum að vísu ekki spurð álits og ekki Alþingi heldur.

Stuðningur þjóðar við stríð felur í sér að viðkomandi þjóð telur þær ,,aukaverkanir” sem stríð hefur ásættanlegar í þágu málstaðarins. Ég trúi því ekki að Íslendingum finnist í lagi að sprengja vatnsleiðslur sem almennir borgarar nota, drepa saklausa borgara eða að pynta fanga bæði andlega og líkamlega til þess eins að hefna sín á vondum ráðamönnum. Ég þekki engann sem telur í lagi að börn upplifi þær hremmingar sem stríð óhjákvæmilega hefur í för með sér, samt fara menn af stað með stríð og styðja stríðsrekstur annarra. Halda menn kannski að það séu líka til ,,góð” stríð þar sem enginn meiðir sig í alvöru nema vondu kallarnir og að maður geti valið hvort stríð á að vera gott eða vont. Í stríðinu í Írak virðist mannvonskan hafa unnið, eða hvaða árangur halda menn að verði af því að niðurlægja fólk og beita það kynferðislegu ofbeldi, er líklegt að það geti bætt ástandið?

Sú þjóð sem ráðamenn á Íslandi hafa kosið að fylgja, Bandaríkamenn, hafa svo sannarlega sýnt svo ekki verður um villst að þar í landi eru mönnum alþjóðasáttmálar ekki heilagir. Nei, Bandaríkjamenn óska eftir því að hermenn þeirra fái undanþágu frá því að vera sóttir til saka af stríðsglæpadómstólum. Við vitum öll núna af hverju þeir vilja það, þeir þurfa að geta treyst því að þeir sem stunda pyntingar á þeirra vegum verði ekki ákærðir. Viljum við Íslendingar fylkja okkur undir fána þjóðar sem lætur pynta fanga sína kerfisbundið eða beitir óhefðbundum yfirheyrsluaðferðum eins og það heitir á fagmáli? Eru slíkir glæpir gegn mannkyni til fyrirmyndar í samfélagi þjóðanna? Er réttlætanlegt að loka augunum gagnvart því ofbeldi sem beitt er í nafni Bandaríkjanna og þá um leið í nafni þeirra þjóða sem lýst hafa yfir stuðningi við stríðsreksturinn? Ég svara öllum þessum spurningum neitandi og er sannfærð um að það hljóta allir hugsandi menn að gera. Af hverju sættum við okkur þá við að ríkistjórn Íslands lýsi því yfir í okkar nafni að þetta sé réttlætanlegt stríð og aðhafist ekkert í þeim tilgangi að reyna að hafa áhrif til að stöðva þetta óhugnalega ofbeldi?

Oft hefur verið sagt að til þess að lýðræði geti dafnað þurfi hinn almenni borgari að taka afstöðu. Tökum nú afstöðu og sýnum hvað okkur finnst. Skipum okkur í lið hinna hugsandi manna. Það er hefur alltaf þótt stórmannlegt á Íslandi að geta viðurkennt mistök sín. Krefjumst þess að ríkistjórnin lýsi því yfir að stuðningur við stríðið hafi verið mistök.

Jóna Benediktsdóttir, kennari á Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi