Miðvikudagur 7. maí 2025
Heim Blogg Síða 2336

Mýrarboltinn verður í Bolungarvík

Evrópumeistaramótið í Mýrarbolta fer fram í Bolungarvík um verslunarmannahelgina. Mótið var fyrst haldið árið 2004 á Ísafirði, langoftast í Tungudal. Vísir greinir frá að mótið í sumar verði haldið á þremur völlum sem verða settir upp nærri tjaldsvæðinu í Bolungarvík, sem er við íþróttahúsið og sundlaugina. Búið er að staðfesta að hljómsveitin SSSól og rapparinn Emmsjé Gauti muni koma fram á hátíðinni en lokahófið verður í Félagsheimilinu í Bolungarvík ásamt dansleikjum hátíðarinnar.

Þá er búið að ganga frá ráðningu drullusokks, en það heiti ber mótsstjóri Mýrarboltans, sem verður enginn annar en altmúlígmaður Bolungarvíkur, sjálfur Benni Sig.

smari@bb.is

Auglýsing

Kæra frávísun Lögreglunnar á Vestfjörðum

Regnbogasilungur

Landssamband veiðifélaga (LV) hefur kært frávísun Lögreglunnar á Vestfjörðum á kæru LV vegna slysasleppingar regnbogasilungs á Vestfjörðum til Ríkissaksóknara. Kæran laut að því hvort að lög um fiskeldi hafi verið brotin í ljósi fjölda regnbogasilungs sem veiddust í ám á Vestfjörðum síðla síðasta sumar. Lögreglan á Vestfjörðum vísaði kærunni frá meðal annars vegna þess að eftirlitsaðilar, þ.e. Matvælastofnun og Fiskistofa, hafi slysasleppingarnar til rannsóknar. Í fréttatilkynningu kemur fram að LV telur að Matvælastofnun hafi ekki sérstakar valdheimildir til að rannsaka málið sem opinbert mál. Þá teljist það ekki skilyrði fyrir opinberri rannsókn að kæra hafi komið frá Matvælastofnun.

Í kærunni vekur LV athygli Ríkissaksóknara á því að starfsemi Matvælastofnunar sætir nú úttekt í kjölfar gagnrýni á stofnunina um að sinna ekki ábyrgðarhlutverki sínu. Telur Landssambandið að mál þetta til marks um að stofnunin hafi ekki uppfyllt lögbundið eftirlitshlutverk sitt og því nauðsynlegt að opinber rannsókn fari fram á á öllum þáttum þess.

smari@bb.is

Auglýsing

Óbreyttir stýrivextir

Óbreytt vaxtastig hjá Seðlabankanum.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 5 prósentum. Segir í rökstuðningi nefndarinnar að of snemmt sé að segja til um efnahagsleg áhrif síðustu skrefa við losun fjármagnshafta og að hugsanlegt sé að betra jafnvægi skapist á milli inn- og útstreymis á gjaldeyrismarkaði. Skammtímahreyfingar kunni hins vegar að aukast eins og gerst hefur undanfarna daga.

Þetta er fyrsta stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans frá því tilkynnt var um losun fjármagnshafta.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að vísbendingar séu um að vöxtur muni halda áfram að aukast á árinu en hagvöxtur mældist 7,2% á síðasta ári. Störfum fjölgi hratt, atvinnuleysi sé lítið og atvinnuþátttaka meiri en þegar hún var sem mest fyrir hrun. Spenna í þjóðarbúinu fari því vaxandi.

1,9% verðbólga mældist í febrúar sem er svipað og verið hefur undanfarna sex mánuði. Varðandi horfur segir peningastefnunefnd að tveir kraftar togist á, meiri hagvöxtur en spáð var og hærra gengi krónunnar. Gengishækkunin sem og lág verðbólga í heiminum vegi á móti verðbólguþrýstingi af innlendum rótum. Þá hafi aðhaldssöm peningastefna skapað verðbólguvæntingum kjölfestu og haldið aftur af vexti útlána og eftirspurnar.

smari@bb.is

Auglýsing

Byggðastofnun styrkir meistaranema

Byggðastofnun auglýsir styrki til meistaranema sem vinna að lokaverkefnum á sviði byggðaþróunar. Til úthlutunar er allt að 1.000.000 kr. og stefnt að því að veita fjóra styrki. Umsækjendur þurfa að stunda meistaranám við viðurkenndan háskóla. Í umsókn skal meðal annars koma fram greinargóð lýsing á verkefninu, markmiðum þess og hvernig það styður við byggðaþróun. Við mat á umsóknum verður fyrst og fremst litið til tengsla við byggðaþróun, nýnæmi verkefnis og hvort til staðar séu möguleikar á hagnýtingu þess. Kostur er ef verkefnin hafa skírskotun til byggðaáætlunar.

Þetta er í þriðja skipti sem Byggðastofnun veitir styrkir til meistaranema. Áður hafa allavega tvö verkefni sem tengjast byggðaþróun á Vestfjörðum hlotið styrki; Hagkvæmni nýtingar sjávarhita á norðurslóðum: raundæmi Önundarfjörður. Styrkþegi Majid Eskafi, Háskólasetur Vestfjarða og Eldri íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum: Athafnir, þátttaka og viðhorf til þjónustu. Styrkþegi Margrét Brynjólfsdóttir, Háskólinn á Akureyri.

Nánari upplýsingar og rafrænt umsóknarform er að finna á vef Byggðastofnunar. Umsóknafrestur er til miðnættis 9. apríl 2017.

annska@bb.is

Auglýsing

Áframhaldandi éljagangur

Fram eftir degi verður suðvestan átt 8-13 m/s á Vestfjörðum og él framan af degi samkvæmt spá Veðurstofunnar, en lægir smám saman er líða tekur á daginn. Á morgun snýr vindur sér í norðaustan átt og bætir aftur í vind og má búast við 8-15 m/s og éljum á morgun, hvassast á annesjum. Hiti í dag verður nálægt frostmarki, en kólnar fram til morguns og verður 0 til 5 stiga frost annað kvöld.

Á Vestfjörðum er víða hálka, snjóþekja eða hálkublettir, en þæfingur og éljagangur er á Klettshálsi samkvæmt vef Vegagerðarinnar.

annska@bb.is

Auglýsing

Flúrun styrktaraðila

Laufey Hálfdánardóttir stýrði blaðamannafundinum með harðri hendi.

Hinn hefðbundni blaðamannafundur tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður fór fram á flugvellinum á Ísafirði í morgun. Þar voru mættir auk fjölmiðlamanna fulltrúar styrktaraðila hátíðarinnar og fengu þeir og rokkstjórinn Kristján Freyr Halldórsson merki Aldrei „húðflúrað“ á handlegginn. Þar með var samstarf þeirra innsiglað og undirritað.

Kristján Freyr Halldórsson rokkstjóri Aldrei fór ég suður.

Það voru þau Hálfdán Bjarki Hálfdánsson, Kristján Freyr Halldórsson, Þórdís Sif Sigurðardóttir og Örn Elías Guðmundsson sem lýstu komandi hátíð, liðnum hátíðum og upplifun sinni af páskum á Ísafirði. Íbúafjöldinn hér á fjörðunum tvöfaldast um páska og fyrir utan opinbera dagskrá Aldrei fór ég suður á Ísafirði eru í farvatninu allskonar uppákomur á fjörðunum í kring. Þegar liggur til dæmis fyrir að á Suðureyri mun 66¨N bjóða upp á veglega tónleika á bryggjunni.

Bjarni Sólbergsson fjármálastjóri Orkubús Vestfjarða og Magnús Kristjánsson forstjóri Orkusölunnar kvitta undir samstarfið

Dagskrá Aldrei er að venju bæði fjölbreytt og skemmtileg og hefur nefndin gefið út myndband þar sem bæjarbúar kynna þau atriði sem boðið verður upp á.

Þórdís Sif Sigurðardóttir
Örn Elías Guðmundsson

bryndis@bb.is

Auglýsing

Fagnar burðarþolsmati Hafró

Ísafjarðardjúp ber 30 þúsund tonna framleiðslu samkvæmt burðarþolsmati Hafró.

Fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish fagnar nýútkominni skýrslu Hafrannsóknastofnunar um burðarþolsmat Ísafjarðardjúps. Samkvæmt burðarþolsmatinu þá er gert ráð fyrir að heildarlífmassi í Ísafjarðardjúpi verði aldrei meiri en 30 þúsund tonn, en þetta leyfilega magn verði vaktað og metið svo út frá raungögnum á komandi árum. Í tilkynningu frá Arctic Fish kemur segir að burðarþolsmatið sé afar mikilvægt innlegg í því leyfisumsóknarferli sem fyrirtækið er statt í og nauðsynlegt skref fyrir framþróun greinarinnar í heild á norðanverðum Vestfjörðum.

Arctic Fish er að sækja um 8 þúsund tonna laxeldisleyfi í Ísafjarðardjúp, en er í dag með 4 þúsund tonna starfsleyfi fyrir regnbogasilung sem það áformar að skipta yfir í lax sem og tvö 200 tonna rekstrarleyfi. Sjókvíaeldi Arctic Fish er í dag í Dýrafirði og á næstu árum er gert ráð fyrir að setja út seiði á Patreksfirði og Tálknafirði þar sem leyfisveitingar eru á lokastigi. Mikil uppbygging hefur átt sér stað í grundvallarstarfsemi félagsins í nýrri endurnýtingastöð fyrir seiðaeldi félagsins í Tálknafirði.

Í tilkynningu Arctic Fish segir: „Ef leyfismál félagsins fyrir Ísafjarðardjúp klárast á næstu misserum ætti félagið að hafa afkastagetu í seiðaeldinu þannig að mögulegt væri að byrja eldi í Ísafjarðardjúpi jafnvel á næsta ári. Frekari leyfisveitingar eru forsenda fyrir því að fyrirtækið nái stærðarhagkvæmni og verði samkeppnishæft á afurðamörkuðum. Nú þegar er fyrirtækið með talsverða starfsemi á Vestfjörðum, aðalskrifstofa félagsins og vinnsla er á Ísafirði, sjókvíaeldi í Dýrafirði, pökkun í samstarfi við verktaka á Flateyri og svo seiðaeldið í Tálknafirði. Í það heila starfa yfir 40 manns hjá fyrirtækinu beint og frá 10 til 30 starfsmenn í uppbyggingu á nýrri seiðaeldisstöð félagsins. Stefnt er á talsverða fjölgun og frekari fjárfestingar á komandi árum að því gefnu að leyfisumsóknir félagsins fái jákvæða afgreiðslu.“

smari@bb.is

Auglýsing

Skiladagur skattframtala í dag

Í dag er síðasti dagurinn til að vinna skattframtöl einstaklinga vegna síðasta launaárs og rennur frestur til að skila inn framtali út á miðnætti. Skilin hafa verið óvenju góð í ár og voru i gærmorgun á annað hundrað þúsunda framtala komin inn til ríkisskattstjóra, en dagurinn í dag, skiladagurinn, er iðulega sá dagur sem flest framtölin koma í hús. Aldrei hafa heldur eins margir skilað inn framtali fyrsta sólarhringinn sem opið var fyrir rafræn skil á skattaframtali er bárust yfir 4000 framtöl.

Skattframtölin hafa breyst mikið á undanförnum árum og í tilfellum venjulegs launafólks dugar oft að opna framtalið á vefsvæðinu skattur.is og staðfesta. „Nú er þetta orðið þannig að við erum með það góða upplýsingavinnslu að við getum útbúið framtal fyrir þorra gjaldenda. Okkar viðskiptavinir þurfa ekki að gera annað í mjög mörgum tilfellum en að opna framtalið, skoða það, yfirfara upplýsingarnar og síðan staðfesta,“ segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri í samtali við Vísi í gær.

Þar segir Skúli Eggert einnig að í ár verði líkt og í fyrra álagningin lögð fram mánuði fyrr en áður tíðkaðist og verður hún tilbúin þann 30. júní núna.

Kunni einhverjir að vera í vandræðum með framtöl sín má fá framtalsaðstoð í síma 442 1414

annska@bb.is

Auglýsing

Kostnaður heimila vegna raforkukaupa lítið breyst

Höfuðstöðvar Orkubús Vestfjarða á Ísafirði.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur látið vinna skýrslu um þróun kostnaðar heimila við raforkuöflun, frá gildistöku raforkulaga 2005 til 2017. Sérstaklega er þar horft til heimila sem búa við rafhitun. Í skýrslunni er skoðuð þróun tekna og kostnaðar notenda fyrir kerfið í heild sinni. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru að heildarkostnaður meðal heimilis við raforkuöflun, á verðlagi við lok árs 2016, hefur breyst tiltölulega lítið frá 2005, en hann hefur þó ætíð verið meiri í dreifbýli en þéttbýli. Ef skoðaður er hver kostnaðarþáttur fyrir sig kemur í ljós að kostnaður notanda við orkukaup fór heldur minnkandi í byrjun tímabilsins en hefur verið að vaxa á undanförnum árum. Á móti kemur að kostnaður notanda vegna flutnings og dreifingar hefur farið lækkandi á allra síðustu árum vegna aukinna niðurgreiðslna og dreifbýlisframlags.

 

Sé horft til viðskiptavina Orkubús Vestfjarða í dreifbýli hefur kostnaður lítið breyst á þessu tímabili en hefur sveiflast frá um 250 upp í um 330 þús. kr. á ári, á föstu verðlagi. Kostnaðurinn var mestur á árunum 2010 til 2014 en nú er hann svipaður og við upphaf tímabilsins. Frá 2005 til 2017 hafa niðurgreiðslur og verðjöfnun aukist um 20% fyrir þennan notanda en árlegur kostnaður notandans er að mestu óbreyttur en tekjur veitufyrirtækjanna hafa aukist um 10% af þessum notanda. Niðurgreiðslur og verðjöfnun hafa að undanförnu verið um tvöfalt meiri en þær voru minnstar rétt fyrir mitt tímabilið.

 

Kostnaður notanda í þéttbýli á veitusvæði Orkubús Vestfjarða hefur breyst lítið en hann er nokkuð lægri en fyrir notandann í dreifibýlinu. Að meðaltali er kostnaður notandans í dreifbýlinu um 40 þús. kr. hærri á ári og mesti munurinn er rúmlega 60 þúsund kr. á ári á þessu tímabili en nú er munurinn 27 þúsund kr. á ári (janúar 2017). Niðurgreiðslurnar hafa aukist um 7% frá upphafi tímabilsins til 2017 og tekjur veitufyrirtækjanna hafa aukist um 6% á föstu verðlagi. Eins og í dreifbýlinu voru tekjurnar minnstar rétt fyrir mitt tímabilið (2009).

 

 

Auglýsing

Starfsmannaleigur í örum vexti

Fjöldi starfs­manna sem eru á ís­lensk­um vinnu­markaði á veg­um er­lendra þjón­ustu­fyr­ir­tækja og starfs­manna­leigna hef­ur marg­fald­ast á milli ára. Þetta kem­ur fram í skýrslu Vinnu­mála­stofn­un­ar um ástandið á vinnu­markaði. Í sein­asta mánuði voru 40 er­lend þjón­ustu­fyr­ir­tæki starf­andi hér á landi en þau voru níu tals­ins í sama mánuði í fyrra. Alls voru 411 starfs­menn á veg­um þess­ara fyr­ir­tækja í fe­brú­ar, ná­lega tvö­falt fleiri en í sama mánuði í fyrra.

Þá voru starfs­menn starfs­manna­leigna, inn­lendra sem er­lendra, sam­tals 974 í sein­asta mánuði á veg­um 26 starfs­manna­leigna á vinnu­markaðinum og hafði þeim fjölgað úr 178 á einu ári. Yfir 20.000 er­lend­ir rík­is­borg­ar­ar voru að jafnaði á ís­lensk­um vinnu­markaði á sein­asta ári.

Auglýsing

Nýjustu fréttir