Miðvikudagur 7. maí 2025
Heim Blogg Síða 2337

Burðarþolsmat Ísafjarðardjúps 30 þúsund tonn

Mynd: Ómar Smári Kristinsson.

Hafrannsóknastofnun hefur birt mat á burðarþoli Ísafjarðardjúps með tilliti til sjókvíaeldis og er niðurstaða matsins að hámark lífmassa fiskeldis í Ísafjarðardjúpi verði 30 þúsund tonn. og er það meiri lífmassi en þegar hefur verið sótt um leyfi fyrir vegna fiskeldis í Ísafjarðardjúpi. Við gerð burðarþolsmats er einkum er horft til álags á lífríki sjávarbotnsins, súrefnisstyrk og styrk næringarefna í sjó. Þá er tekið tillit til stærðar fjarðanna og varúðarnálgunar varðandi raunveruleg áhrif eldisins einkum á botndýralíf og súrefnisstyrk.

Á vef Hafrannsóknastofnunar kemur fram að við breytingu á lögum um fiskeldi árið 2014 voru sett inn ný ákvæði um að rekstrarleyfi skuli fylgja burðarþolsmat sem framkvæmt sé af Hafrannsóknastofnun.

Vegna aðstæðna í Ísafjarðardjúpi og varúðarnálgunar varðandi raunveruleg áhrif áætlaðs eldis á vatnsgæði og botndýralíf, telur Hafrannsóknastofnun að hægt sé að leyfa allt að 30 þúsund tonna lífmassa í eldi í Ísafjarðardjúpi á hverjum tíma. Í þessu mati er gert ráð fyrir að heildarlífmassi í Ísafjarðardjúpi verði aldrei meiri en 30 þúsund tonn og að vöktun á áhrifum eldisins fari fram. Slík vöktun yrði forsenda fyrir hugsanlegu endurmati á burðarþoli fjarðarins, til hækkunar eða lækkunar, sem byggt yrði á raungögnum.

Hafrannsóknastofnun tekur fram að endanleg burðarþolsmörk fyrir ákveðna firði eða svæði verða seint gefin út enda hefur slíkt varla verið gert í nágrannalöndunum, heldur er alltaf tekið með í reikninginn hvaða staðsetningar og hvers konar eldi er um að ræða og fara umhverfisáhrifin eftir báðum þessum þáttum.

Því má búast við að burðarþol fjarða og annarra eldissvæða verði endurmetið á næstu árum ef þörf krefur.

Auglýsing

Krossinn í Engidal lýsir að nýju

Krossinn er orðinn hin mesta prýði að nýju.

Fyrir síðustu jól glöddust margir á Ísafirði er þeir sáu að ljós var komið á krossinn við kirkjugarðinn í Réttarholt í Engidal að nýju en hann hafði verið ljóslaus um árabil. Það var Lionsklúbbur Ísafjarðar sem sá til þess að krossinn fengi tilhlýðilegar fegrunaraðgerðir og lagfæringar og fengu félagar klúbbsins einvalalið með sér í verkið, þar sem allir gáfu vinnu sína.

Lionsklúbbur Ísafjarðar gaf Sóknarnefnd Ísafjarðarkirkju krossinn árið 1984 og ári síðar var krossinum komið fyrir í Engidal að tillögu nefndar. Skipastál var pantað til smíðanna og sá Friðgeir Hrólfsson Lionsmaður i Vélsmiðju Ísafjarðar um verkið. Þá komu gott sem allir starfandi félagar klúbbsins að verkinu sem vakti ánægju bæjarbúa að sögn Bjarndísar Friðriksdóttur formanns Lionsklúbbsins. Eftir að hafa prýtt garðinn í nokkur ár fór að bera á bilun í ljósabúnaði, sem á endanum gaf sig.

Bjarndís segir Lionsfólk hafa rætt sín á milli að þyrfti að laga krossinn og bæjarbúar hafi haft orð á því að ljós vantaði á krossinn. Í haust var svo drifið í að taka krossinn niður og var farið með hann í sandblástur í Vélsmiðjunni Mjölni í Bolungarvík, svo lögðu Sævar og starfsfólk Pólsins í hann nýjan ljósabúnað sem kom frá fyrirtækinu Vestkraft og þá var plast yfir lýsinguna útbúið í Vélsmiðjunni  Þristi. Lionsfélagar máluðu síðan krossinn og settu hann aftur upp á sinn stað í Engidal á aðventunni „Lionsklúbbur Ísafjarðar vill koma hjartans einlægustu þökkum fyrir fallegar gjafir til þeirra sem komu að verkinu sem bæjarbúar kunna svo sannarlega að meta. Það var sannkölluð jólagleði er það kom ljós að nýju,“ Segir Bjarndís.

annska@bb.is

Auglýsing

Sjálfstæðisflokkurinn stærstur

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn nýt­ur áfram mests fylg­is stjórn­mála­flokka á Íslandi sam­kvæmt niður­stöðum nýrr­ar skoðana­könn­un­ar MMR eða 25,4%. Vinstri­hreyf­ing­in – grænt fram­boð kem­ur næst með 23,5%. Stuðning­ur við rík­is­stjórn­ina mæl­ist 34,5%.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hlaut 29% fylgi í þing­kosn­ing­un­um í októ­ber og VG 15,9%. Rík­is­stjórn­ar­flokk­arn­ir fengu sam­an­lagt 46,7% fylgi í kosn­ing­un­um.

Fylgi Pírata mæl­ist 13,7% en flokk­ur­inn hlaut 14,2% í þing­kosn­ing­un­um. Fylgi Fram­sókn­ar­flokks­ins er 11,4% sem er nán­ast það sama og þegar kosið var. Fylgi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar mæl­ist 8,8% miðað við 5,7% í kosn­ing­un­um.

Þá mæl­ist Viðreisn með 5,5% fylgi en flokk­ur­inn hlaut 10,5% í kosn­ing­un­um í októ­ber. Fylgi Bjartr­ar framtíðar mæl­ist 5% miðað við 7,2% í kosn­ing­un­um.

Auglýsing

Suðupottur sjálfbærra hugmynda í Skóbúðinni

Gamla Skóbúð Leós sem nú hýsir hversdagssögusafnið Skóbúðina. Teikning: Marta Sif Ólafsdóttir.

Á miðvikudagskvöld fer fram skipulags- og vinnufundur í Skóbúðinni á Ísafirði fyrir verkefni sem hlotið hefur nafnið Suðupottur sjálfbærra hugmynda. Að baki verkefninu stendur áhugafólk um sjálfbærni og umhverfisvænan lífsstíl og vill það skapa vettvang þar sem fólk getur komið saman og rætt þau málefni ásamt því að leggja í púkkið hugmyndir um hvað íbúar Ísafjarðar og nágrennis geta tileinkað sér til að iðka megi slíkan lífsstíl með sem bestu móti.

Verkefnið mun standa fram í byrjun maímánaðar og verður hægt að koma við í Skóbúðinni mánudags til fimmtudagskvöld á milli klukkan 20 og 22. Þar geta gestir kynnt sér hvað aðrir í samfélaginu eru að gera, skoðað hugmyndir þeirra ásamt því að koma sínum eigin hugmyndum á framfæri og auðvitað fara saman í bland umræður um sjálfbærni og umhverfisvernd. Að sögn Hildar Dagbjartar Arnardóttur, sem leiðir verkefnið, munu eflaust spretta upp í kjölfarið vinnustofur, kynningarkvöld um ákveðin málefni ásamt framkvæmd einhverra hugmynda. Hún segir þó tímann leiða í ljós hvað íbúunum dettur í hug að gera á þessum stað sem er opinn fyrir öllu.

Á vinnufundinum sem hefst klukkan 20 á miðvikudagskvöld verður undirbúin opnun Suðupottsins sem fram fer á laugardag á milli klukkan 13 og 15. Allir áhugasamir um verkefnið eru velkomnir.

annska@bb.is

Auglýsing

Neyðarbraut í Keflavík kostar 240 milljónir

Neyðarbrautin á Reykjavíkurflugvelli. Mynd: Óli Haukur.

Innanríkisráðuneytið hefur skoðað að opna NA/SV flugbraut á Keflavíkurflugvelli sem er í sömu stefnu og svokölluð neyðarbraut á Reykjavíkurflugvelli. Miðað við þá forsendu að hún yrði eingöngu nýtt sem varabraut fyrir innanlandsflug er kostnaður við opnun hennar áætlaður um 240 milljónir. Sérfræðingur á vegum ráðuneytisins skoðar nú hlutverk Reykjavíkurflugvallar með tilliti til öryggishlutverks hans vegna náttúruvár og annarra ófyrirséðra atburða. Gert er ráð fyrir að hann skili skýrslu í maí.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari Jóns Gunnarssonar, innanríkisráðherra, við fyrirspurn Einars Brynjólfssonar, þingmanns Pírata, og er greint fá á vef RÚV.

Þar segir enn fremur að öryggishlutverki flugvallarins í Vatnsmýri vegna náttúruvár og annarra ófyrirséðra atburða sem ógnað geti samfélaginu hafi ekki fengið jafn mikla umfjöllun og aðrir þættir eins og sjúkraflug og almenningssamgöngur.

Í svarinu kemur jafnframt fram að Samgöngustofa hafi ekki endanlega afgreitt lokun neyðarbrautarinnar. Hún eigi eftir að taka afstöðu til ýmissa ráðstafana sem ISAVIA hafi tilkynnt að nauðsynlegar væru vegna lokunarinnar. Meðal annars þurfi að auka viðnám og bæta nýtingu brauta í hálku, hliðarvindi og við önnur óhagstæð veðurskilyrði.

Auglýsing

Ferðamynstur á norðanverðum Vestfjörðum

Lilja Guðríður Karlsdóttir, samgönguverkfræðingur, fjallar í Vísindaporti um ferðamynstur og vinnusóknarsvæði á norðanverðum Vestfjörðum.

Í Vísindaporti vikunnar í Háskólasetri Vestfjarða verða ferðavenjur íbúa á norðanverðum Vestfjörðum sérstaklega til skoðunar. Lilja Guðríður Karlsdóttir, samgönguverkfræðingur, mun segja frá rannsóknarverkefni sínu þar sem hún skoðaði ferðamynstur og vinnusóknarsvæði á norðanverðum Vestfjörðum. Verkefnið vann Lilja á síðasta ári í gegnum fyrirtækið Viaplan en verkefnið var styrkt af Vegagerðinni og unnið í samstarfi við Innanríkisráðuneytið, Skipulagsstofnun og Byggðastofnun.

Niðurstöður verkefnisins sýna að langflestir vilja vinna nálægt heimili sínu sé þess kostur og mjög fáir eru tilbúnir að ferðast meira en 30 mín daglega til vinnu. Ennfremur sýndu niðurstöður að Ísafjörður er vinnusóknarsvæði fyrir flesta bæjarkjarnana í kring en Ísfirðingar sjálfir sækja hinsvegar fáir vinnu utan síns heimabæjar.

Lilja Guðríður Karlsdóttir er framkvæmdastjóri Viaplan, fyrirtækis sem sérhæfir sig í skipulagi samgangna.  Lilja er menntaður samgönguverkfræðingur frá Danmarks Tekniske Universitet og hefur unnið síðustu 14 árin við skipulag samgangna á Íslandi og í Danmörku. Stærstu verkefni síðustu ára hafa verið léttlestarkerfi í Óðinsvé og Árósum, svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og Borgarlínuverkefni. Lilja hefur einnig einbeitt sér að samgönguskipulagi í mörgum af minni bæjum í Danmörku, t.d Billund, Ribe, Haderslev og Sønderborg.

Að vanda er Vísindaport opið öllum áhugasömum og það fer fram í hádeginu á föstudögum í sal Háskólasetursins.

Auglýsing

Fimmtungur ferðamanna til Vestfjarða

48 þúsund erlendir ferðamenn fóru á Látrabjarg skv. könnun Ferðamálastofu.

Ferðamálastofa áætlar út frá svörum úr ferðavenjukönnun erlendra gesta að sumarið 2016 hafi fjöldi erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll verið 664.113 talsins. Í könnun Ferðamálastofu sögðust 20% aðspurðra hafa heimsótt Vestfirði.  Má því gróflega áætla að tæplega 133 þúsund þeirra erlendu ferðamanna sem til landsins kom hafi heimsótt landshlutann.

Með sömu aðferð, þótt hafa verði fyrirvara á fullri nákvæmni talnanna, heimsóttu 473 erlendir ferðamenn Suðurland og nálega annar hver erlendur ferðamaður Norðurland sumarið 2016 eða 333.400 gestir. Tæplega tvöfalt fleiri erlendir ferðamenn heimsóttu Reykjavík. 95,6% allra erlendra ferðamanna höfðu viðdvöl í höfuðborginni sumarið 2016, alls um um 635.000 erlendir gestir.

Ísafjörður er vinsælasti viðkomustaður erlendra ferðamanna á Vestfjörðum og má áætla að 12% ferðamanna hafai heimsótt bæinn, eða um 80 þúsund manns.

Auglýsing

Hinrik valinn besti leikmaður Vestra

Hinrik Guðbjartsson var valinn besti og efnilegasti leikmaður meistaraflokks tímabilið 2016-2017. Hér er hann ásamt Yngva Gunnlaugssyni, yfirþjálfara Vestra og Ingólfi Þorleifssyni formanni deildarinnar.

Á laugardaginn  var lokahóf meistaraflokks Körfuknattleiksdeildar Vestra haldið á Hótel Ísafirði. Þótt tveir síðustu leikir deildarinnar hafi tapast um helgina bar þó engan skugga á hófið enda margt jákvætt í starfinu sem full ástæða er til að fagna. Leikmenn meistaraflokks, stjórn Kkd. Vestra og Barna- og unglingaráð komu saman og nutu ljúffengra veitinga Hótels Ísafjarðar og litu yfir tímabilið.

Á vefsíðu Vestra kemur fram að árangur meistaraflokks var ásættanlegur miðað við talsverðar mannabreytingar innan liðsins í upphafi tímabils. Þá er árangurinn einnig mun betri en spá formanna, þjálfara og fyrirliða í 1. deild í upphafi móts gaf til kynna en samkvæmt henni átti liðið að enda áttunda og næst neðst sæti. Sú spá átti ekki við rök að styðjast því liðið endaði í sjötta sæti og var nálægt því að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni.

Á lokahófinu voru veittar viðurkenningar í sex flokkum: Besti leikmaðurinn, efnilegasti leikmaðurinn, besti sóknarmaðurinn, besti varnarmaðurinn, mestu framfarir og dugnaðarforkur ársins. Auk þess fengu allir leikmenn viðurkenningar meira til gamans en þar á meðal mátti finna viðurkenningar á borð við „reiðasti leikmaðurinn“, „elsti leikmaðurinn“ og „besta tanið“.

Hinrik Guðbjartsson, leikstjórnandi var valinn besti leikmaðurinn og hlaut hann einnig nafnbótina efnilegasti leikmaðurinn. Hinrik, sem er aðeins 21 árs gamall, sýndi í vetur að hann er meðal bestu leikstjórnenda 1. deildar og meðal efnilegustu leikstjórnenda landsins. Hinrik var með 16 stig, 3,5 fráköst og 2,8 stoðsendingar að meðaltali í leik á tímabilinu.

Besti sóknarmaðurinn var valinn Nebojsa Knezevic. Það kemur væntanlega engum á óvart enda býr Nebojsa yfir fádæma sóknarhæfileikum og getur skorað stig í öllum regnbogans litum, frá troðslum yfir í þriggja stiga körfur og allt þar á milli. Nebojsa er stigahæsti leikmaður liðsins í vetur með 18,7 stig í leik auk þess að státa af 7,9 fráköstum og 2,6 stoðsendingum.

Besti varnarmaðurinn var valinn Yima Chia-Kur. Þessi öflugi Banaríkjamaður sýndi oft góða varnartakta í vetur og með hæð sinni, styrk og krafti gerði hann vörn liðsins óárennilega fyrir andstæðingana.

Nökkvi Harðarson fékk viðurkenningu fyrir mestar framfarir. Nökkvi varð fyrir því óláni að hljóta slæm höfuðmeiðsl á miðju tímabili en lét það þó ekki stoppa sig og kom gríðarlega sterkur inn í seinni hluta mótsins. Það sést vel á því að í fjórum af síðustu sex leikjum deildarinnar var hann með yfir 10 stig auk þess að vera tvisvar með tvennu (yfir 10 stig og 10 fráköst).

Dugnaðarforkur ársins var svo valinn Adam Smári Ólafsson. Adam hefur sannarlega unnið fyrir þessum titli í vetur því hann hefur bæði leikið stórt hlutverk í meistaraflokki og unglingaflokki of oft leikið þrjá leiki á helgi án þess að blása úr nös eða kvarta yfir álagi.

Auglýsing

Gistináttaskatturinn ekki í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða

Fram­kvæmda­sjóður ferða­manna­staða verður ekki lengur fjár­magn­aður með gistin­átta­skatti, sam­kvæmt drögum að frum­varpi um breyt­ingar á lögum um sjóð­inn. Þá munu ferða­manna­staðir í opin­berri eigu ekki lengur geta sótt um styrki í sjóð­inn heldur ein­göngu ferða­manna­staðir í einka­eigu eða eigu sveit­ar­fé­laga. Sam­kvæmt núgild­andi lögum fær fram­kvæmda­sjóður ferða­manna­staða 3/5 hluta þeirra tekna sem ríkið fær af gistin­átta­skatti. Fyrir jól var gistin­átta­skatt­ur­inn þre­fald­aður úr 100 krónum á hverja selda ein­ingu í 300 krónur á hverja selda gistin­átta­ein­ingu. Sú breyt­ing tekur gildi 1. september 2017 og að óbreyttu hefði fram­kvæmda­sjóð­ur­inn fengið tals­vert hærri fram­lög af fjár­lögum, en gert var ráð fyrir því að auknar tekjur rík­is­ins af hærri gistin­átta­skatti yrðu 300 millj­ónir á þessu ári og 1,2 millj­arðar á næsta ári.

Sam­kvæmt frum­varp­inu verður fram­lag rík­is­sjóðs í fram­kvæmda­sjóð­inn ákveðið á fjár­lög­um, og sjóð­ur­inn fær því ekki mark­aðar tekjur af gistin­átta­skatti.

Auglýsing

Fjárfesta í framtíðinni á afmælisárinu

Skjöldur Pálmason, framkvæmdastjóri Odda hf., Valdimar Sigurðsson, svæðissölustjóri Marel og Sigurður Viggósson, stjórnarformaður Odda hf., takast í hendur til að staðfesta samning um uppsetningu FleXicut. Mynd af heimasíðu Marel.

Fiskvinnslan Oddi hf á Patreksfirði fagnar 50 ára starfsafmæli í ár og hefur fyrirtækið vaxið og þróast í takt við tíðarandann á hálfri öld. Í dag tók Oddi í notkun nýtt FleXicut kerfi frá Marel, sem er vatnsskurðarvél sem greinir og sker burt beingarð, þunnildi og sporð með mikilli nákvæmni og hlutar svo flökin niður í bita samkvæmt óskum viðskiptavinar. Þá var einnig sett upp FleXisort kerfi sem er sérhannað til þess að taka við afurðum frá FleXicut og dreifa á mismunandi afurðarlínur með nýrri vipputækni sem stuðlar að bættri hráefnismeðhöndlun.

Skjöldur Pálmason, framkvæmdarstjóri Odda segir búnaðinn gera fyrirtækinu kleift að bjóða upp á fleiri vörulínur fyrir viðskiptavini þeirra og með þeim hætti nái fyrirtækið forskoti í samkeppni við aðra framleiðendur og geti boðið upp á fyrsta flokks vöru, hvort sem um er að ræða ferska hnakka eða flök.

Skjöldur segir afmælisárið vera kjörinn tíma til að fjárfesta í framtíðinni: „Síðastliðið ár höfum við gert miklar fjárfestingar og segja má að uppsetning FleXicut kerfisins sé hápunkturinn á ferlinum og fullkomin leið til þess að halda upp á hálfrar aldar afmælið.”

Ekki er einvörðungu haldið upp á starfsemi í hálfa öld með nýjum búnaði. Allt starfsfólk fyrirtækisins til sjós og lands ásamt fjölskyldum, 137 manns, er nýkomið heim úr vikuferð til Tenerife. Skjöldur segir ferðina, sem hefur verið í undirbúningi í langan tíma, hafa lukkast frábærlega og allir komið gríðarlega ánægðir til baka.

annska@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir