Fagnar burðarþolsmati Hafró

Ísafjarðardjúp ber 30 þúsund tonna framleiðslu samkvæmt burðarþolsmati Hafró.

Fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish fagnar nýútkominni skýrslu Hafrannsóknastofnunar um burðarþolsmat Ísafjarðardjúps. Samkvæmt burðarþolsmatinu þá er gert ráð fyrir að heildarlífmassi í Ísafjarðardjúpi verði aldrei meiri en 30 þúsund tonn, en þetta leyfilega magn verði vaktað og metið svo út frá raungögnum á komandi árum. Í tilkynningu frá Arctic Fish kemur segir að burðarþolsmatið sé afar mikilvægt innlegg í því leyfisumsóknarferli sem fyrirtækið er statt í og nauðsynlegt skref fyrir framþróun greinarinnar í heild á norðanverðum Vestfjörðum.

Arctic Fish er að sækja um 8 þúsund tonna laxeldisleyfi í Ísafjarðardjúp, en er í dag með 4 þúsund tonna starfsleyfi fyrir regnbogasilung sem það áformar að skipta yfir í lax sem og tvö 200 tonna rekstrarleyfi. Sjókvíaeldi Arctic Fish er í dag í Dýrafirði og á næstu árum er gert ráð fyrir að setja út seiði á Patreksfirði og Tálknafirði þar sem leyfisveitingar eru á lokastigi. Mikil uppbygging hefur átt sér stað í grundvallarstarfsemi félagsins í nýrri endurnýtingastöð fyrir seiðaeldi félagsins í Tálknafirði.

Í tilkynningu Arctic Fish segir: „Ef leyfismál félagsins fyrir Ísafjarðardjúp klárast á næstu misserum ætti félagið að hafa afkastagetu í seiðaeldinu þannig að mögulegt væri að byrja eldi í Ísafjarðardjúpi jafnvel á næsta ári. Frekari leyfisveitingar eru forsenda fyrir því að fyrirtækið nái stærðarhagkvæmni og verði samkeppnishæft á afurðamörkuðum. Nú þegar er fyrirtækið með talsverða starfsemi á Vestfjörðum, aðalskrifstofa félagsins og vinnsla er á Ísafirði, sjókvíaeldi í Dýrafirði, pökkun í samstarfi við verktaka á Flateyri og svo seiðaeldið í Tálknafirði. Í það heila starfa yfir 40 manns hjá fyrirtækinu beint og frá 10 til 30 starfsmenn í uppbyggingu á nýrri seiðaeldisstöð félagsins. Stefnt er á talsverða fjölgun og frekari fjárfestingar á komandi árum að því gefnu að leyfisumsóknir félagsins fái jákvæða afgreiðslu.“

smari@bb.is

DEILA