Mín kynslóð man vel eftir LÍÚ sem stóð fyrir Landsamband íslenskra útvegsmanna – þessi félagsskapur var ekki lagður niður – í dag heitir hann Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi – skammstafað SFS.
Kannski má líkja þessari breytingu við kennitöluflakk – ekkert breytist í raun nema nafnið.
Einu sinni var sjávarútvegsráðuneytið eitt af mikilvægustu ráðuneytunum – nú hefur það verið lagt niður og sjávarútvegsmálin komin undir nýtt ráðuneyti atvinnu og matvæla. Málefnum er varðar dýrmætustu auðlind þjóðarinnar hefur sem sé verið komið fyrir í einni skúffu í nýju ráðuneyti sem hefur ótal margt annað á sinni könnu – eins og til að mynda landbúnaðinn sem nú stendur frammi fyrir stórum áskorunum er varða fæðuöryggi og sjálfbærni á viðsjárverðum tímum.
Sjávarútvegurinn er grunnurinn að velferð þjóðarinnar og ætti að öllu eðlilegu að vera hennar helsta tekjulind svo þessi ráðstöfun verður að teljast undarleg í meira lagi. Það er eins vísvitandi sé verið að reyna að draga úr mikilvægi sjávarútvegs í hugum fólks og deyfa vitund þess gagnvart auðlindinni – þannig að eignatilfærslan sem hefur verið að eiga sér stað í skjóli margra fyrri stjórnvalda verið ekki eins áberandi.
Það er mikið talað um og varað við falsfréttum og upplýsingaóreiðu nú á dögum. Fáir fjölmiðlar hér á landi teljast áræðanlegir svo hverjum á almenningur að treysta þegar kemur að upplýsingagjöf – varla þeim fjölmiðlum sem ítrekað hafa gerst sekir um einhliða áróðurskenndan fréttaflutning. Við hljótum að þurfa að treysta á eigið innsæi og dómgreind því hálfsagðar sögur geta aldrei talist tæmandi fréttir.
Það hefur örugglega ekki farið fram hjá hugsandi fólki sem fylgst hefur með fréttaflutningi í gegnum tíðina að um langa hríð hafa flestir fjölmiðlar hér grímulaust dregið taum stórútgerðanna og látið eins og þeir sem hafa þurft að líða vegna aðgerða þeirra séu ekki til – ekki mjög traustvekjandi það.
Það hefur heldur ekki farið fram hjá þeim sem fylgjast með hvernig stríðið í Úkraínu hefur beinlínis verið látið skyggja á fjöldamorðin á Gasa í fjölmiðlum. Volodymyr Selensky hefur óspart verið hampað sem hetju og honum fylgt eftir hvar sem hann hefur farið um snapandi úr almannasjóðum Natóríkja til að fjármagna stríðsrekstur sem stofnar heimsfriðnum í hættu. Og svona til að kóróna ótrúverðuleika Evrópskra sjónvarpsstöðva þá virðist það aldrei hafa verið inn í myndinni að refsa Ísrael með sama hætti og rússum.
Á dögunum bárust okkur fréttir af rafmagnsleysi á Spáni sem setti mannlífið þar víða úr skorðum. Pútin talin saklaus af þessu fári en ójafnvægi í kerfinu kennt um eða sérstökum veðurskilyrðum. Ótrúverðugt verður að teljast að land á suðrænum slóðum skuli treysta á kerfi sem lætur undan í logni og sól.
Þessi uppákoma virkjaði samsæriskenningastöðvarnar hjá mér því ef líkja má þessu við eitthvað þá helst innrásinni frá Mars – sem á sínum tíma setti Bandaríkin á annan endann.
Það er vitað að orkan er gullgæsin sem einkavæðingin vill helst komast yfir um þessar mundir – orkan er jú feitur biti í að komast og því ólíklegt að einkavæðingasinnar ætli að láta happ úr hendi sleppa – svo velta má fyrir sér hvort þarna hafi þeir verið að ýta út vör áróðursherferð um orkuöryggi á heimsvísu.
Það er ekki bara á Íslandi sem einkavæðingin ásælist orkuna – það gera einnig auðhringar um heim allan – þeir vinna skipulega saman að settu marki og treysta á gangandi mútubauka í almannaþjónustu.
Frjálshyggjan vill svo gjarnan telja okkur trú um að ekkert geti gengið án hennar aðkomu – þó hún hafi skilið eftir sig sviðna jörð hvar sem hún hefur drepið niður fæti.
Rafbílavæðingin snýst ólíklega um umhverfisvernd – ef verið væri í alvöru að hugsa um umhverfið þá væri metan lausnin – enda smellpassar það inn í hringrásina. Reynslan af rafbílum er heldur ekki góð – þeir þykja hættulegir í umferðinni vegna tíðra sjálfíkveikju – svo er það til umhugsunar hvort þeir geti mögulega haft slæm heilsufarsleg áhrif.
Þegar áróðri er beint að lifnaðarháttum almennings er mjög líklega verið að draga athygli hans frá einhverju öðru – það sem kann að virðast umhyggja í fyrstu getur þegar öllu er á botninn hvolft reynst blekking.
Ég er umhverfisverndarsinni og geri mér fulla grein fyrir að plast er umhverfisógn – ég læt samt einhliða plastáróðu fara í taugarnar á mér því ég tel svo margt annað sem ekki hefur fengið pláss í umræðunni hættulegra lífríkinu til lands og sjávar. Það hefur til að mynda alveg verið skautað framhjá lyfjaframleiðslu og áti sem og fíkniefnaframleiðslu og neyslu – þarna er um að ræða mikið magn af mjög skaðlegum efnum sem enda í hafinu með mennskum úrgangi. Það væri klárlega hægt að draga mikið úr mengun á þessu sviði með því að nýta mennskan úrgang til orkuframleiðslu svo um munaði. Við hljótum að þurfa að hugsa í lausnum til framtíðar fremur en að láta stjórnast af stundargróðrarhyggju auðvaldsins sem hugsar um það eitt að græða meira í dag en í gær.
Við vitum ekki hvernig eftirliti er háttað með lyfjaframleiðslu – ólíklega er hún með „geislabaug“ fremur en önnur stórgróðrarstarfsemi.
Lyf eru nauðsynleg – þau bjarga mannslífum og breyta til hins betra í mörgum tilfellum – en þeim er líka frjálslega ávísað og þau misnotuð í miklu mæli og telja má víst að spillingin teygi anga sína inn í þennan iðnað eins og annan þar sem gróðra er von.
Og svo er það kjarnorkan – stærsta og hættulegasta „boðflennan“ á jörðinni. Það er eitthvað svo léttvægt að ræða um plastagnir í fatnaði og ilmefni í sápum sem ógn við lífríkið þegar „stórir strákar“ í vígahug eru að smíða og gera tilraunir með vopn sem geta gjöreytt jörðinni mörgu sinnum
Auðvitað skiptir þetta allt máli en við megum ekki láta litlu hlutina yfirtaka umræðuna.
Umhverfisvernd getur í sumum tilfellu að mínu mati snúist upp í andhverfu sína – í því sambandi vil ég nefna hvalafriðun – sem er mikið tilfinningamál hjá mörgum. Hvalafriðunarsinnar hafa alltaf átt greiðan aðgang að fjölmiðlum sem hafa þá látið umræðuna snúast að mestu um ferðaþjónustuna og afkomu hennar sem og ásýnd landsins út á við. Umræða um skynsemi hvalafriðunar hins vegar ekki verið í boði – sem hlýtur að vera álitamál og varasamt getur verið að treysta á þann kost sem við helst kjósum – því meiri líkur eru á en minni að hvalafriðun geti valdið röskun í lífríki sjávar. Það virðist svo augljóst að það geti ekki gengið upp að friða stærstu skepnuna til sjávar á sama tíma og verið er að ofnýta flesta nytjastofna.
Umhverfissjónarmiðin eru því miður of oft látin víkja fyrir gróðrarhyggjunni.
Peningarnir ráða öllu og leyfa sér allt – umfjöllun í síðast Kveikþætti undirstrikaði þá staðreynd. Spillingin hér kemur örugglega ekki mörgum á óvart – nema þá helst þeim sem eiga að hafa eftirlit með henni – en þeir láta eins og hún sé latína sem þeir kunna engin skil á. Ég varð ekkert hissa – en ég verð mjög hissa ef umræddu máli verður ekki stungið undir stól gleymskunnar.
Persónunjósnir eru langt í frá nýtilkomnar á Íslandi. Það er vissulega ekki á hvers manns færi að fjármagna slíkar „þarfir“. það er ekki bara að fjarmagna eltingaleik – í einhverjum tilfellum er líka verið að kaupa persónuupplýsingar og eða fölsun á slíkum. Það er svo óspart notast við frændsemi og vinskap á réttum stöðum við tálmanir af ýmsum toga og fjárhagslegt ofbeldi. Ótrúlega margir virðast vera tilbúnir til að vera þátttakendur í að leika sér að lífi annarra og taka þannig aurinn fram yfir orðsporið.
Þetta er allt ógeðslegt – Ísland er ógeðslegt sagði Styrmir heitinn Gunnarsson – við hljótum að trúa honum því hann þekkti vel til á æðstu stöðum og þeirra vinnubragða sem þar tíðkuðust.
En við skulum ekki gleyma að hvert samfélag mótast af íbúum þess og þá kannski helst af sjálfskipuðum forystusauðum og þjónum þeirra.
——————–
Ég sit á herðum manns, þjarma að honum og læt hann bera mig og samt fullvissa ég sjálfan mig og aðra um, að ég finni mjög til með honum og vilji með öllum tiltækum ráðum létta honum byrgðina – nema með því að fara af baki hans.
Leo Tolstoj
——————-
Mér hefur verið tíðrætt um íslenskt okur ég vil því að gefnu tilefni ráðleggja fólki að kanna verðlagningu á bifreiðaverkstæðum áður en farið er með bíl á viðgerð.
Ég á tíma á verkstæði þann 5. maí – áður uppgefinn kostnaður var 140.000 kr en eftir að „verkstæðisformaðurinn“ hafði farið yfir málið hækkaði hann upp í 270.000 kr
Um er að ræða tímareimaskipti og endurnýjun á vatnsdælu og umfelgun (ég á dekkjaganginn)
en bíllinn minn er subaru impresa – lítið ekinn.
Lifið heil !
Vilhelmína H. Guðmundsdóttir
Lífsreyndur eldri borgari.
AuglýsingAuglýsing