Óbreyttir stýrivextir

Óbreytt vaxtastig hjá Seðlabankanum.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 5 prósentum. Segir í rökstuðningi nefndarinnar að of snemmt sé að segja til um efnahagsleg áhrif síðustu skrefa við losun fjármagnshafta og að hugsanlegt sé að betra jafnvægi skapist á milli inn- og útstreymis á gjaldeyrismarkaði. Skammtímahreyfingar kunni hins vegar að aukast eins og gerst hefur undanfarna daga.

Þetta er fyrsta stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans frá því tilkynnt var um losun fjármagnshafta.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að vísbendingar séu um að vöxtur muni halda áfram að aukast á árinu en hagvöxtur mældist 7,2% á síðasta ári. Störfum fjölgi hratt, atvinnuleysi sé lítið og atvinnuþátttaka meiri en þegar hún var sem mest fyrir hrun. Spenna í þjóðarbúinu fari því vaxandi.

1,9% verðbólga mældist í febrúar sem er svipað og verið hefur undanfarna sex mánuði. Varðandi horfur segir peningastefnunefnd að tveir kraftar togist á, meiri hagvöxtur en spáð var og hærra gengi krónunnar. Gengishækkunin sem og lág verðbólga í heiminum vegi á móti verðbólguþrýstingi af innlendum rótum. Þá hafi aðhaldssöm peningastefna skapað verðbólguvæntingum kjölfestu og haldið aftur af vexti útlána og eftirspurnar.

smari@bb.is

DEILA