Allir fá eitthvað – enginn fær ekkert!

Nú er orðið ljóst hvaða tónlistarfólk treður upp á stóra sviðinu á Aldrei fór ég suður 2017, en að vanda fer hátíðin fram á Ísafirði um páskana. Annað árið í röð verður rokkað og rólað í skemmu rækjuverksmiðjunnar Kampa við Ásgeirsgötu. „Aldrei fór ég suður heldur áfram að fylgja þeirri sérstöðu að blanda saman straumum og stefnum í tónlist, konum og köllum, gömlum sem ungum, frægum og efnilegum og allt þar á milli. Þarna sjáum við indípopp, blús, pönk, lúðrastuð, þungarokk, gleðipopp, rapp, köntrí, dramatík og dans. Allir fá eitthvað, enginn fær ekkert, einn fær ekki allt,“ segir í tilkynnningunni.

Í myndbandinu sem fylgir fréttinni boða Ísfirðingar og nærsveitungar gesti velkomna til Ísafjarðar um páskana ásamt því að lyfta hulunni af safaríku prógrammi hátíðarinnar.

smari@bb.is

DEILA