Miðvikudagur 14. maí 2025
Heim Blogg Síða 2332

Rækjuskel skolar á land við Mávagarð

Mynd: Marzellius Sveinsbjörnsson

Talsvert magn af rækjuskel hefur skolað á land við Mávagarð á Ísafirði rétt við rækjuvinnsluna Kampa líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum sem teknar voru í krikanum aftan við Mávagarð og Sundstræti í gær. Albert Haraldsson rekstarstjóri Kampa segir orsakavaldinn vera stíflu í aðalræsi hjá Ísafjarðarbæ sem reglulega hefur stíflast undanfarin ár með þeim afleiðingum að úrgangur frá vinnslunni hefur ekki komist sína leið. Kampi hirðir þá rækjuskel sem fellur til við vinnsluna og er hún flutt til bræðslu fyrirtækisins í Bolungarvík þar sem unnið er úr henni rækjumjöl, því er ekki um að ræða skel af allri þeirri rækju sem unnin er hjá fyrirtækinu, sem daglega eru um 30 tonn, þar af um 12 tonn af skel, heldur einungis þá skel sem fellur í ræsin.

Mynd: Marzellius Sveinsbjörnsson

Albert segir fyrirtækinu mikið í mun að þessir hlutir séu í lagi og vill að bærinn grafi upp þann hluta lagnarinnar sem á það til að stíflast svo atvik sem þetta komi ekki upp. Ekki er vitað nákvæmlega hversu lengi ræsið hefur verið stíflað og hversu mikið magn af skel rak á land, en starfsmenn Ísafjarðarbæjar með dælubíl vinna nú að því að losa stífluna og segir Kristján Andri Guðjónsson forstöðumaður Þjónustumiðstöðvar Ísafjarðarbæjar að skoða þurfi í framhaldinu hvort galli sé á kerfinu.

annska@bb.is

Auglýsing

Chorus Tenebris syngur hjá kórstjórnendum framtíðarinnar

Chorus Tenebris verður með tónleika í Ísafjarðarkirkju í kvöld. Kórinn var stofnaður síðasta vetur er samstarf hófst milli Tónlistarskóla Þjóðkirkjunnar og Tónlistarskóla Ísafjarðar. Beata Joó, píanókennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar og kórstjóri frá Franz Liszt akademíunni í Búdapest kennir kórstjórnina við TÍ og hafa fimm nemendur stundað námið í vetur. Chorus Tenebris er því enn í fullri virkni er upprennandi kórstjórarnir fimm fá að spreyta sig reglulega á kórnum, sem skipaður er einvalaliði söngvara. Það eru þau Aron Ottó Jóhannsson, Dagný Arnalds, Pétur Ernir Svavarsson, Sigrún Pálmadóttir og Tuuli Rähni sem nú stunda námið hér og má segja að tónleikarnir í kvöld séu einskonar generalprufa, en próf kórstjórnarnemanna fara fram á morgun.

Í tilkynningu T.Í. um tónleikana segir að samstarf skólanna tveggja hafi verið með miklum ágætum og sýnt fram á að samstarf við tónlistarskóla í öðrum landshlutum er vel framkvæmanlegt sé viljinn fyrir hendi.

Chorus Tenebris syngur 10 lög á tónleikunum sem verða sem áður segir í kvöld í Ísafjarðarkirkju, þeir hefjast klukkan 20 og standa yfir í um það bil 40 mínútur. Lögin eru öll vel þekktar perlur frá miðöldum til okkar tíma. Allir eru velkomnir á tónleikana og er aðgangur ókeypis.

annska@bb.is

Auglýsing

Fagnar fjárveitingu í Vestfjarðaveg

Friðbjörg Matthíasdóttir.

Friðbjörg Matthíasdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, fagnar fjárveitingu vegna framkvæmda við Vestfjarðaveg í Gufudalssveit. Tvö hundruð milljónir fara til verksins í ár af þeim 1.200 milljónum sem ríkistjórnin ákvað fyrir helgi að fari aukalega í vegaframkvæmdir. „Þetta nægir til að bjóða út verkið á þessu ári og ég lít svo á að fjárveitingin feli í sér viðurkenningu ríkisstjórnarinnar á að vegagerð í Gufudalssveitt sé forgangsverkefni,“ segir Friðbjörg.

Hún bendir á að ákveðin tæknileg skref séu eftir. Í fyrsta lagi er beðið eftir áliti Skipulagsstofnunar á umhverfismati framkvæmdarinnar, en von er á því á allra næstu dögum. Í annan stað þarf að gefa út framkvæmdaleyfi sem á hendi Reykhólahrepps og í þriðja lagi að ganga frá útboðsgögnum og bjóða verkið út.

„Allt tekur þetta tíma en með þessu fjármagni tekst okkur að bjóða verkið út og þá verður ekki aftur snúið,“ segir Friðbjörg.

Íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum hafa beðið lengi eftir vegbótum í Gufudalssveit og Friðbjörg segir spennu og streitu í íbúum mjög skiljanlega en hún segist þess fullviss að nú hillir undir að framkvæmdir hefjist.

smari@bb.is

Auglýsing

Halda áfram að byggja iðnaðarhúsnæði

Húsin sem Vestfirskir verktakar reistu á Mávagarði.

Vestfirskir verktakar ehf. hafa sótt um sjö lóðir á Ísafirði undir iðnaðarhúsnæði. Í fyrra og hittifyrra reisti fyrirtækið þrjár skemmur á Mávagarði og reyndist vera mikil eftirspurn eftir húsnæðinu. „Þetta hefur selst um leið og við finnum að það er ennþá eftirspurn,“ segir Garðar Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Vestfirskra verktaka. Lóðirnar sem fyrirtækið sótti um eru Æðartangi 16, 18 og 20 annarsvegar og Neðstafjara 1, 3, 5 og 7. Lóðirnar eru á nýlegu deiliskipulagi Suðutanga. „Við fáum ekki allar lóðirnar að sinni. Erum búnir að fá lóðirnar á Æðartanga og förum fljótlega í að láta teikna fyrir okkur hús,“ segir Garðar. Tvö eða þrjú hús verða reist á lóðunum og útfærsla þeirra verður með svipuðu sniði og er á iðnaðarhúsunum á Mávagarði. Aðspurður hvenær verður byrjað að segir Garðar það óljóst, en ólíklegt að það verði byrjað í sumar.

Í Bolungarvík stefna Vestfirskir verktaka á að hefjast handa í sumar við að reisa 900 fm iðnaðarhúsnæði. Húsið mun standa á Mávakambi 1-3 og alls verða 12 bil í húsinu.

smari@bb.is

Auglýsing

Vilja fiskeldisnám til Vestfjarða

Fiskeldi. Myndin er úr safni BB.

Sveitarfélagið Vesturbyggð hefur samþykkt að kanna möguleika á að koma á fót námi í fiskeldi og fiskeldisrannsóknum á sunnanverðum Vestfjörðum. Leitað hefur verið til Smára Haraldssonar sem verkefnastjóra til að leiða verkefnið. Smári var til skamms tíma forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. Gerður Björk Sveinsdóttir, verkefnastjóri samfélagsuppbyggingar í Vesturbyggð, hefur verið tilnefnd sem fulltrúi sveitarfélagsins í samstarfshóp um verkefnið.  Verkefnið er á byrjunarstigi og gengur það út á að kanna hvort forsendur séu fyrir því að koma á þesskonar námi. Leitað verður eftir samstarfi við fyrirtæki í fiskeldi á svæðinu, Háskólasetur Vestfjarða og Fræðslumiðstöð Vestfjarða.

Vaxtabroddur fiskeldis á Íslandi hefur síðustu ár verið á sunnanverðum Vestfjörðum með öflugum fyrirtækjum eins og Arnarlaxi, Fjarðalaxi og Arctic Fish (áður Dýrfiskur). Tvö fyrrnefndu fyrirtækin sameinuðust á síðasta ári.

smari@bb.is

Auglýsing

Taka við keflinu af Ísfirðingum

Púttkeppni á Landsmóti 50+ á Ísafirði í fyrra.

Hvergerðingar taka við keflinu af Ísfirðingum og halda Landsmót UMFÍ 50+ í sumar. Í fyrra var mótið haldið með glæsibrag á Ísafirði.  „Eldri borgarar í Hveragerði hafa mikinn áhuga á mótinu í sumar og vilja taka þátt í því með ýmsum hætti,“ segir Gísli Páll Pálsson, formaður framkvæmdanefndar Landsmóts UMFÍ 50+. Mótið verður haldið um Jónsmessuhelgina 23.-25. júní í sumar í Hveragerði.

Landsmót UMFÍ 50+ hefur verið haldið ár hvert frá 2012 og er þetta í fyrsta sinn sem Héraðssambandið Skarphéðinn (HSK) er mótshaldari. Nálægðin við höfuðborgarsvæðið, Selfoss og aðra þéttbýlisstaði gerir það að verkum að búist er við meiri fjölda af öflugum þátttakendum 50 ára og eldri en áður hefur sést á mótunum til þessa.

Mótið er fyrir alla sem fagna fimmtugsafmæli á árinu og þá sem eldri eru. Í boði eru keppnisgreinar á boð við utanvegahlaup, strandblak, crossfit og frjálsar, þríþraut, sund, hjólreiðar, pútt, golf og boccía auk ringó.

smari@bb.is

 

Auglýsing

Átakalítið veður í vikunni

Það verður fremur hæg breytileg átt og bjartviðri á Vestfjörðum í dag, en norðaustan 8-13 m/s á morgun, skýjað með köflum og stöku él. Hiti verður um og yfir frostmarki að deginum. Í spá Veðurstofu Íslands fyrir landið á miðvikudag og fimmtudag er gert ráð fyrir austan 8-13 m/s syðst á landinu og smáskúrum, en annars hægari breytileg átt, skýjað með köflum og yfirleitt þurrt. Hiti verður 1 til 6 stig að deginum, en í kringum frostmark norðan- og austanlands.

Nokkur hálka er á heiðum og hálsum á  Vestfjörðum en óveruleg hálka er á láglendi.

annska@bb.is

Auglýsing

Stækka Hólabúð

Ása og Reynir í Hólabúð.

Nú er undirbúningur hafinn að stækkun húsnæðis Hólabúðar á Reykhólum. Verslunin og veitingasalan hjá hjónunum Ásu Fossdal og Reyni Þór Róbertssyni er í frekar knöppu rými, svo ekki sé meira sagt, en nú sjá þau fram á bjartari tíma með mun betri vinnuaðstöðu. Á Reykhólvefnum segir að í sveitinni hafi verið spaugað með að þarna sé minnsti veitingastaður norðan Alpafjalla, með eitt fjögurra manna borð, en ekki hefur það komið niður á afgreiðslunni þó gestirnir væru fleiri en fjóri. Eftir stækkunina verður eiginlegur veitingastaður settur upp í Hólabúð þar sem áhersla verður lögð á mat úr héraði, og er það við hæfi þar sem Reykhólar eru við mestu matarkistu landsins.

smari@bb.is

Auglýsing

Gefa bílbeltanotkun sérstakan gaum

Aldrei er of oft minnt á mikilvægi þess að ökumenn og farþegar noti öryggisbelti, og börn viðeigandi öryggisbúnað. Ekki síður að ökumenn einbeiti sér að akstrinum og noti ekki farsíma í akstir nema þá með handfrjálsum búnaði. Vegna þessara sjálfsögðu öryggisþátta, ætlar lögreglan á Vestfjörðum að gefa þessum þáttum sérstakan gaum næstu daga og vikur í það minnsta. „Þetta snýst fyrst og fremst um umferðaröryggi gott fólk. Engu máli skiptir hvort verið sé að aka styttri eða lengri leiðir,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

smari@bb.is

Auglýsing

Vonast eftir Páli seinnipartinn í sumar

Páll í skipasmíðastöðinni í Kína fyrir mánuði síðan.

Vonir standa til að nýr Páll Pálsson ÍS komi til heimahafnar á Ísafirði í sumar. Þegar Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. tilkynnti nýsmíðin í júní 2014 var gert ráð fyrir að smíðin tæki 18 mánuði. „Þetta hefur dregist mikið og við vonum að hann komi seinnipart sumars,“ segir Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri HG. Páll er smíðaður í Huanghai skipasmíðastöðinni í Rongcheng í Kína eins og systurskipið Breki VE sem er í eigu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Einar Valur segir að smíðin á Breka og Páli sé á sama róli.

Síðustu daga hefur verið unnið hörðum höndum að undirbúa Pál fyrir reynslusiglingu í Kína.

Þegar Páll verður tilbúinn úti í Kína tekur við löng heimsigling sem Einar Valur segir að taki líklega meira en 40 daga. Siglt verður yfir Kyrrhafið og um Panamaskurðinn, sömu leið og núverandi Páll sigldi fyrir rúmum 40 árum þegar hann kom nýr frá Japan.

Breki og Páll er 50,7 metrar að lengd og 12,8 metra breiðir. Vegna nýstárlegrar hönnunar á skrokkum skipanna og mun stærri skrúfu heldur en nú tíðkast á þessari stærð skipa, er áætlað að þau hafi um 60% meiri veiðigetu en þau skip sem þau leysa af hólmi án þess að eyða meiri olíu. Þá verða skipin búin þremur rafdrifnum togvindum og geta því dregið tvö troll samtímis.

smari@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir