Rækjuskel skolar á land við Mávagarð

Mynd: Marzellius Sveinsbjörnsson

Talsvert magn af rækjuskel hefur skolað á land við Mávagarð á Ísafirði rétt við rækjuvinnsluna Kampa líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum sem teknar voru í krikanum aftan við Mávagarð og Sundstræti í gær. Albert Haraldsson rekstarstjóri Kampa segir orsakavaldinn vera stíflu í aðalræsi hjá Ísafjarðarbæ sem reglulega hefur stíflast undanfarin ár með þeim afleiðingum að úrgangur frá vinnslunni hefur ekki komist sína leið. Kampi hirðir þá rækjuskel sem fellur til við vinnsluna og er hún flutt til bræðslu fyrirtækisins í Bolungarvík þar sem unnið er úr henni rækjumjöl, því er ekki um að ræða skel af allri þeirri rækju sem unnin er hjá fyrirtækinu, sem daglega eru um 30 tonn, þar af um 12 tonn af skel, heldur einungis þá skel sem fellur í ræsin.

Mynd: Marzellius Sveinsbjörnsson

Albert segir fyrirtækinu mikið í mun að þessir hlutir séu í lagi og vill að bærinn grafi upp þann hluta lagnarinnar sem á það til að stíflast svo atvik sem þetta komi ekki upp. Ekki er vitað nákvæmlega hversu lengi ræsið hefur verið stíflað og hversu mikið magn af skel rak á land, en starfsmenn Ísafjarðarbæjar með dælubíl vinna nú að því að losa stífluna og segir Kristján Andri Guðjónsson forstöðumaður Þjónustumiðstöðvar Ísafjarðarbæjar að skoða þurfi í framhaldinu hvort galli sé á kerfinu.

annska@bb.is

DEILA