Miðvikudagur 14. maí 2025
Heim Blogg Síða 2331

Tveir fornminjastyrkir vestur

Fornleifauppgröftur á Hrafnseyri í Arnarfirði.

Í síðustu viku var styrkjum úthlutað til 24 verkefna úr fornminjasjóði. Tveir styrkir fóru til verkefna á Vestfjörðum. Annars vegar 2,5 milljóna kr. styrkur til Náttúrustofu Vestfjarða vegna fornminjarannsókna í Arnarfirði og hins vegar til rannsóknaseturs Háskóla Íslands í Bolungarvík vegna rannsókna á hvalveiðum útlendinga við Íslandsstrendur á 17. öld.

smari@bb.is

Auglýsing

Skýjað með köflum

Veðurstofa Íslands spáir norðaustan 5-10 m/s á Vestfjörðum í dag en hægari vindi í kvöld. Það verður skýjað með köflum og þurrt. Á morgun má gera ráð fyrir hægri breytilegri átt en norðaustan 3-8 m/s seinnipartinn með lítilsháttar rigningu eða slyddu um kvöldið. Hiti verður 0 til 4 stig að deginum. Veður verður með svipuðu sniði fram að helgi en á fimmtudag og föstudag er gert ráð fyrir austlægum, tiltölulega hægum vindi á Vestfjörðum, með hitatölum að 5 stigum. Búast má við stöku skúrum.

Á Vestfjörðum er sumstaðar nokkur hálka eða hálkublettir á heiðum og hálsum  en að mestu autt á láglendi.

annska@bb.is

Auglýsing

Grafalvarleg staða

Óðinn Gestsson.

„Við höldum í vonina með að menn sjái hvað stefnir í með atvinnulífið á Íslandi. Öll fyrirtæki í útflutningi, lítil og stór, koma verulega löskuð út úr þessu umhverfi. Þetta er grafalvarleg staða,“ segir Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri fiskvinnslunnar Íslandssögu á Suðureyri. Hann segir rekstur fiskvinnslu eins og Íslandssögu vera mjög strembinn þegar gengið hækkar eins mikið og skart og raun ber vitni síðustu misseri. Óðinn bendir á að versnandi rekstrarhorfur komi af tvöföldum þunga á fyrirtæki í útflutningi, annars vegar hækkandi gengi og hinsvegar vegna samningsbundinna launahækkana. „Flest fyrirtæki hefðu sennilega átt fyrir kauphækkunum miðað við gengið í byrjun síðasta árs. Ég hef metið það þannig að í þessu litla fyrirtæki okkar þá vanti 170-80 milljónir í tekjur sé miðað við gengið í janúar í fyrra.“

Hann segir það sé á ábyrgð stjórnvalda á hverjum tíma að efnahagsumhverfið sem fyrirtæki búið við, sé lífvænlegt.  „Það eru þessar öfgar í sitthvora áttina sem gera mann langþreyttan – við höfum verið föst í vítahring sem við náum okkur ekki út úr,“ segir Óðinn Gestsson.

smari@bb.is

Auglýsing

Vill að Tangagata verði lagfærð

Aram Nói í Tangagötunni sem er eins og sést handónýt.

Hinn sjö ára gamli Aram Nói Norðdahl Widell hefur óskað eftir því að Ísafjarðarbær lagfæri Tangagötu á Ísafirði. Aram Nói, sem er búsettur í Tangagötu, segir í bréfi til Gísla Halldór Halldórssonar bæjarstjóra að gatan sé mjög holótt og nýverið varð hann fyrir þvi að stíga í eina holu og detta og meiða sig.

Bréf Arams Nóa til bæjarstjóra.

Bréf Arams Nóa var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í gær. Ásamt því að þakka bréfritara fyrir ábendingu var bent á að samkvæmt framkvæmdaáætlun næsta árs stendur til að helluleggja götuna, en þangað til verður fyllt í holurnar til bráðabirgða.

smari@bb.is

Auglýsing

Afnám lágmarksútsvars ýti undir aðstöðumun

Stjórnsýsluhúsið á Ísafirði.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggst alfarið gegn því að ákvæði um lágmarksútsvar sveitarfélaga verði afnumið. Alþingismennirnir Vilhjálmur Árnason, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Hildur Sverrisdóttir, öll úr Sjálfstæðisflokki, hafa lagt fram frumvarp þar sem ákvæði um lágmarksútsvar er fellt úr gildi. Bæjarráð segir að það muni ýta undir aðstöðumun á milli sveitarfélaga á landinu og samkeppni þeirra á milli. Jafnframt væri hætta á því að ójöfnuður í samfélaginu mundi aukast þar sem einstaka sveitarfélög gætu boðið útsvarsprósentu sem væri miklum meirihluta þeirra ómögulegt að bjóða. Þá bendir bæjarráð á að frumvarpið sé líklegt til að mynda skekkju á milli þess hvar fólk býr og hvar það þiggur sína þjónustu.

„Rökin fyrir lögbindingu lágmarksútsvarshlutfalls eru þau að allir íbúar landsins sem greiða skatt af tekjum sínum á annað borð skuli greiða sinn lágmarkshluta af kostnaði við þá samfélagsþjónustu sem sveitarfélögin veita íbúum landsins. Þau rök eiga jafnvel við nú og þegar lögin um tekjustofna sveitarfélaga vorusamþykkt árið 1995,“ segir í umsögn bæjarráðs.

smari@bb.is

Auglýsing

Sjö teknir fyrir of hraðan akstur

Lögreglan á Vestfjörðum kærði sjö ökumenn í síðustu viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Flestir þessara ökumanna voru í akstri í Strandasýslu, en einnig í Ísafjarðardjúpi, í Bolungarvíkurgöngum og á Ísafirði. Í yfirliti um verkefni vikunnar kemur fram að lögreglan hafði afskipti af fjórum ökumönnum sem ekki voru með ökuréttindi í lagi. Einn þessara ökumanna hafði verið sviptur ökuréttindum en ók þrátt fyrir það. Þungar refsingar eru við slíku broti. Hinir voru með útrunnin ökuréttindi. Þessir ökumenn voru stöðvaðir í Strandasýslu í Ísafjarðarbæ og í Vesturbyggð.

Tilkynnt var um eitt vinnuslys í vikunni, en það gerðist á vinnustað einum í Vesturbyggð. Hættulegur vökvi lenti í andliti starfsmanns þar. Maðurinn var fluttur á heilbrigðisstofnunina á Patreksfirði til aðhlynningar. Rannsókn á tildrögum slyssins er í höndum lögreglunnar á Vestfjörðum og Vinnueftirlitsins.

Þá voru tveir ökumenn sektaðir fyrir að vera ekki með öryggisbelti spennt. Báðir voru þessir ökumenn í akstri í Vesturbyggð. Lögreglan á Vestfjörðum vill minna á mikilvægi þess að nota þennan öryggisbúnað og eins að ökumenn noti ekki GSM síma við akstur, ekki nema þá að nota handfrjálsan búnað. Þessum mikilvægu þáttum ætlar lögreglan á Vestfjörðum að gefa sérstakan gaum næstu daga, vikur og mánuði

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum féll snjóflóð í botni Súgandafjarðar í síðustu viku. Fjórir fjallaskíðamenn voru þar á ferð. Þrír þeirra urðu fyrir flóðinu en komust sjálfir út úr því og hlutu ekki alvarlega áverka, utan einn var fluttur á sjúkrahús og mun hafa meiðst á fæti. Snjóflóðahætta er ekki í byggð á Vestfjörðum en hins vegar er hún talin töluverð til fjalla, utan byggðar. Lögreglan hvetur útivistarfólk til að gæta varúðar og fylgjast með spám á vefsíðu Veðurstofu Íslands.

smari@bb.is

Auglýsing

Burðarþolið gæti farið í 200 þúsund tonn

Burðarþol þeirra sjö fjarða og flóa sem Haf­rann­sókna­stofn­un hef­ur þegar metið er í heild­ina 125 þúsund tonn. Er þetta 3-4 sinn­um það magn sem fisk­eld­is­fyr­ir­tæk­in hafa leyfi til að ala í sjókví­um í þess­um fjörðum. Þau hafa hins veg­ar mik­il áform um aukn­ingu í framtíðinni. Eft­ir er að meta nokkra firði þannig að burðarþol þeirra svæða sem opin eru fyr­ir fisk­eldi gæti nálg­ast 200 þúsund tonn. Þetta kemur fram í fréttaskýringu Morgunblaðsins.

Þau fimm fyr­ir­tæki sem eru stærst í sjókvía­eld­inu hafa sótt um aukn­ingu til viðbót­ar nú­ver­andi leyf­um þannig að heild­ar­fram­leiðslan verði 185 þúsund tonn. Það er í fjörðum sem hafa fengið burðarþols­mat og fjörðum sem ekki er búið að meta. Ekki er víst að burðarþols­matið tak­marki áformin, þegar all­ir firðir á þeim svæðum sem opin eru til sjókvía­eld­is hafa verið met­in og matið end­ur­skoðað í ljósi reynsl­unn­ar í þeim fjörðum sem hafa reiknað burðarþol.

Hafrannsóknastofnun hefur metið burðarþol fimm fjarða á Vestfjörðum og hámarksframleiðsla samkvæmt Hafró er 80 þúsund tonn. Ekki er búið að meta burðarþol Öndundarfjarðar og Jökulfjarða. Fyrirliggjandi burðarþol er sem hér segir:

  • Patreks- og Tálknafjörður (metið saman): 20 þúsund tonn
  • Arnarfjörður:                                20 þúsund tonn
  • Dýrafjörður:                                10 þúsund tonn
  • Ísafjarðardjúp                                30 þúsund tonn

smari@bb.is

Auglýsing

Katla Vigdís og Ásrós í úrslit Músíktilrauna

Vestfirska dúettinn Between Mountains var önnur tveggja hljómsveita sem komst áfram á öðru undanúrslitakvöldi Músíktilrauna sem fram fór í Hörpu í gærkvöldi. Between Mountains kemur frá Suðureyri og Núpi í Dýrafirði og samanstendur af þeim Kötlu Vigdísi Vernharðsdóttur og Ásrós Helgu Guðmundsdóttur. Hljómsveitin er enn ung að aldri og hefur í raun einungis verið starfrækt í um mánaðartíma, en hún var stofnuð áður en þær Katla Vigdís og Ásrós kepptu í undankeppni fyrir  Söngkeppni Samfés á Ísafirði og höfðu þar sigur. Þær tóku svo þátt í Söngkeppni Samfés og í framhaldi af henni Músíktilraunum þar sem þær voru valdar af áhorfendum í úrslit sem fram fara 1.apríl.

Katla Vigdís sem er 14 ára semur lögin og textana fyrir hljómsveitina, hún spilar á hljómborð og syngur og Ásrós sem er 16 ára syngur og spilar á xylófón. Þess má til gamans geta að bræður Kötlu Vigdísar sem eru í hljómsveitinni Rythmatik sigruðu Músíktilraunir árið 2015.

Hér má hlusta á þær stöllur.

annska@bb.is

Auglýsing

Rækjuskel skolar á land við Mávagarð

Mynd: Marzellius Sveinsbjörnsson

Talsvert magn af rækjuskel hefur skolað á land við Mávagarð á Ísafirði rétt við rækjuvinnsluna Kampa líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum sem teknar voru í krikanum aftan við Mávagarð og Sundstræti í gær. Albert Haraldsson rekstarstjóri Kampa segir orsakavaldinn vera stíflu í aðalræsi hjá Ísafjarðarbæ sem reglulega hefur stíflast undanfarin ár með þeim afleiðingum að úrgangur frá vinnslunni hefur ekki komist sína leið. Kampi hirðir þá rækjuskel sem fellur til við vinnsluna og er hún flutt til bræðslu fyrirtækisins í Bolungarvík þar sem unnið er úr henni rækjumjöl, því er ekki um að ræða skel af allri þeirri rækju sem unnin er hjá fyrirtækinu, sem daglega eru um 30 tonn, þar af um 12 tonn af skel, heldur einungis þá skel sem fellur í ræsin.

Mynd: Marzellius Sveinsbjörnsson

Albert segir fyrirtækinu mikið í mun að þessir hlutir séu í lagi og vill að bærinn grafi upp þann hluta lagnarinnar sem á það til að stíflast svo atvik sem þetta komi ekki upp. Ekki er vitað nákvæmlega hversu lengi ræsið hefur verið stíflað og hversu mikið magn af skel rak á land, en starfsmenn Ísafjarðarbæjar með dælubíl vinna nú að því að losa stífluna og segir Kristján Andri Guðjónsson forstöðumaður Þjónustumiðstöðvar Ísafjarðarbæjar að skoða þurfi í framhaldinu hvort galli sé á kerfinu.

annska@bb.is

Auglýsing

Chorus Tenebris syngur hjá kórstjórnendum framtíðarinnar

Chorus Tenebris verður með tónleika í Ísafjarðarkirkju í kvöld. Kórinn var stofnaður síðasta vetur er samstarf hófst milli Tónlistarskóla Þjóðkirkjunnar og Tónlistarskóla Ísafjarðar. Beata Joó, píanókennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar og kórstjóri frá Franz Liszt akademíunni í Búdapest kennir kórstjórnina við TÍ og hafa fimm nemendur stundað námið í vetur. Chorus Tenebris er því enn í fullri virkni er upprennandi kórstjórarnir fimm fá að spreyta sig reglulega á kórnum, sem skipaður er einvalaliði söngvara. Það eru þau Aron Ottó Jóhannsson, Dagný Arnalds, Pétur Ernir Svavarsson, Sigrún Pálmadóttir og Tuuli Rähni sem nú stunda námið hér og má segja að tónleikarnir í kvöld séu einskonar generalprufa, en próf kórstjórnarnemanna fara fram á morgun.

Í tilkynningu T.Í. um tónleikana segir að samstarf skólanna tveggja hafi verið með miklum ágætum og sýnt fram á að samstarf við tónlistarskóla í öðrum landshlutum er vel framkvæmanlegt sé viljinn fyrir hendi.

Chorus Tenebris syngur 10 lög á tónleikunum sem verða sem áður segir í kvöld í Ísafjarðarkirkju, þeir hefjast klukkan 20 og standa yfir í um það bil 40 mínútur. Lögin eru öll vel þekktar perlur frá miðöldum til okkar tíma. Allir eru velkomnir á tónleikana og er aðgangur ókeypis.

annska@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir