Fagnar fjárveitingu í Vestfjarðaveg

Friðbjörg Matthíasdóttir.

Friðbjörg Matthíasdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, fagnar fjárveitingu vegna framkvæmda við Vestfjarðaveg í Gufudalssveit. Tvö hundruð milljónir fara til verksins í ár af þeim 1.200 milljónum sem ríkistjórnin ákvað fyrir helgi að fari aukalega í vegaframkvæmdir. „Þetta nægir til að bjóða út verkið á þessu ári og ég lít svo á að fjárveitingin feli í sér viðurkenningu ríkisstjórnarinnar á að vegagerð í Gufudalssveitt sé forgangsverkefni,“ segir Friðbjörg.

Hún bendir á að ákveðin tæknileg skref séu eftir. Í fyrsta lagi er beðið eftir áliti Skipulagsstofnunar á umhverfismati framkvæmdarinnar, en von er á því á allra næstu dögum. Í annan stað þarf að gefa út framkvæmdaleyfi sem á hendi Reykhólahrepps og í þriðja lagi að ganga frá útboðsgögnum og bjóða verkið út.

„Allt tekur þetta tíma en með þessu fjármagni tekst okkur að bjóða verkið út og þá verður ekki aftur snúið,“ segir Friðbjörg.

Íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum hafa beðið lengi eftir vegbótum í Gufudalssveit og Friðbjörg segir spennu og streitu í íbúum mjög skiljanlega en hún segist þess fullviss að nú hillir undir að framkvæmdir hefjist.

smari@bb.is

DEILA