Afnám lágmarksútsvars ýti undir aðstöðumun

Stjórnsýsluhúsið á Ísafirði.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggst alfarið gegn því að ákvæði um lágmarksútsvar sveitarfélaga verði afnumið. Alþingismennirnir Vilhjálmur Árnason, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Hildur Sverrisdóttir, öll úr Sjálfstæðisflokki, hafa lagt fram frumvarp þar sem ákvæði um lágmarksútsvar er fellt úr gildi. Bæjarráð segir að það muni ýta undir aðstöðumun á milli sveitarfélaga á landinu og samkeppni þeirra á milli. Jafnframt væri hætta á því að ójöfnuður í samfélaginu mundi aukast þar sem einstaka sveitarfélög gætu boðið útsvarsprósentu sem væri miklum meirihluta þeirra ómögulegt að bjóða. Þá bendir bæjarráð á að frumvarpið sé líklegt til að mynda skekkju á milli þess hvar fólk býr og hvar það þiggur sína þjónustu.

„Rökin fyrir lögbindingu lágmarksútsvarshlutfalls eru þau að allir íbúar landsins sem greiða skatt af tekjum sínum á annað borð skuli greiða sinn lágmarkshluta af kostnaði við þá samfélagsþjónustu sem sveitarfélögin veita íbúum landsins. Þau rök eiga jafnvel við nú og þegar lögin um tekjustofna sveitarfélaga vorusamþykkt árið 1995,“ segir í umsögn bæjarráðs.

smari@bb.is

DEILA