Burðarþol þeirra sjö fjarða og flóa sem Hafrannsóknastofnun hefur þegar metið er í heildina 125 þúsund tonn. Er þetta 3-4 sinnum það magn sem fiskeldisfyrirtækin hafa leyfi til að ala í sjókvíum í þessum fjörðum. Þau hafa hins vegar mikil áform um aukningu í framtíðinni. Eftir er að meta nokkra firði þannig að burðarþol þeirra svæða sem opin eru fyrir fiskeldi gæti nálgast 200 þúsund tonn. Þetta kemur fram í fréttaskýringu Morgunblaðsins.
Þau fimm fyrirtæki sem eru stærst í sjókvíaeldinu hafa sótt um aukningu til viðbótar núverandi leyfum þannig að heildarframleiðslan verði 185 þúsund tonn. Það er í fjörðum sem hafa fengið burðarþolsmat og fjörðum sem ekki er búið að meta. Ekki er víst að burðarþolsmatið takmarki áformin, þegar allir firðir á þeim svæðum sem opin eru til sjókvíaeldis hafa verið metin og matið endurskoðað í ljósi reynslunnar í þeim fjörðum sem hafa reiknað burðarþol.
Hafrannsóknastofnun hefur metið burðarþol fimm fjarða á Vestfjörðum og hámarksframleiðsla samkvæmt Hafró er 80 þúsund tonn. Ekki er búið að meta burðarþol Öndundarfjarðar og Jökulfjarða. Fyrirliggjandi burðarþol er sem hér segir:
- Patreks- og Tálknafjörður (metið saman): 20 þúsund tonn
- Arnarfjörður: 20 þúsund tonn
- Dýrafjörður: 10 þúsund tonn
- Ísafjarðardjúp 30 þúsund tonn
smari@bb.is