Grafalvarleg staða

Óðinn Gestsson.

„Við höldum í vonina með að menn sjái hvað stefnir í með atvinnulífið á Íslandi. Öll fyrirtæki í útflutningi, lítil og stór, koma verulega löskuð út úr þessu umhverfi. Þetta er grafalvarleg staða,“ segir Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri fiskvinnslunnar Íslandssögu á Suðureyri. Hann segir rekstur fiskvinnslu eins og Íslandssögu vera mjög strembinn þegar gengið hækkar eins mikið og skart og raun ber vitni síðustu misseri. Óðinn bendir á að versnandi rekstrarhorfur komi af tvöföldum þunga á fyrirtæki í útflutningi, annars vegar hækkandi gengi og hinsvegar vegna samningsbundinna launahækkana. „Flest fyrirtæki hefðu sennilega átt fyrir kauphækkunum miðað við gengið í byrjun síðasta árs. Ég hef metið það þannig að í þessu litla fyrirtæki okkar þá vanti 170-80 milljónir í tekjur sé miðað við gengið í janúar í fyrra.“

Hann segir það sé á ábyrgð stjórnvalda á hverjum tíma að efnahagsumhverfið sem fyrirtæki búið við, sé lífvænlegt.  „Það eru þessar öfgar í sitthvora áttina sem gera mann langþreyttan – við höfum verið föst í vítahring sem við náum okkur ekki út úr,“ segir Óðinn Gestsson.

smari@bb.is

DEILA