Miðvikudagur 14. maí 2025
Heim Blogg Síða 2329

Sveitarfélög verði studd betur til sameininga

Jón Gunnarsson, samgönguráðherra vill efla sveitarstjórnarstigið og sagði á landsþingi Sambandi íslenskra sveitarfélaga á dögunum að hann vilji sjá ákveðna hvata innbyggða í tekjustofnakerfi sveitarfélaga sem styddi betur við sameiningu þeirra. Tryggja þurfi að reglur Jöfnunarsjóðs sveitafélaga hjálpi vel þeim sveitarfélögum sem vilja sameinast og leitað verði leiða til að tryggja að slíkar sameiningar styrki stöðu sveitarfélaga sem ein meginstoð velferðar íbúanna.

„Hér sé ég fyrir mér að setja megi frekari hvata í kerfið þannig að sveitarfélög sjái ávinning og hagræði af því að sameinast. Mín hugsun er sú að verulegir fjármunir gætu orðið til ráðstöfunar úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á næstu árum til að styrkja sveitarfélög við undirbúning sameiningar, endurskipulagningar og uppbyggingar í sameinuðu sveitarfélagi. Frumkvæði um þetta verður þó að koma frá sveitarfélögunum sjálfum,“ sagði samgönguráðherra en undir hann heyra málefni sveitarstjórnarstigsins.

Samgönguráðherra hefur ákveðið að setja á fót verkefnahóp sem ætlað er að vinna að stefnumörkun stjórnvalda á þessu sviði en sú vinna yrði unnin í beinu framhaldi af því að nefnd um stöðu og framtíð sveitarstjórnarstigsins skili sinni niðurstöðu. Verkefnahópnum yrði ætlað að skoða frekari leiðir til að stuðla að sameiningu sveitarfélaga, meðal annars  með hliðsjón af reynslu liðinna ára.

Smári

Auglýsing

Þaulreyndur eldisstjóri til Arctic

Jóhan Hansen.

Arctic Fish hefur fengið til liðs við sig þaulreyndan stjórnanda í seiðaeldi. Johan Hansen, er 62 ára Færeyingur sem hefur reynslu af seiðaeldi sem spannar um 35 ár. Johan verður seiðaeldisstjóri í fyrirtækinu Arctic Smolt sem er í eigu Arctic Fish. Hann verður búsettur á Tálknafirði og hefur nú þegar flutt á Tálknafjörð og hóf í gær formlega störf hjá félaginu.

Á starfsferli sínum þá hefur Johan verið í eigin seiðaeldisrekstri í Fjardara/Nordsmolt í Færeyjum , síðar vann  hann hjá Bakkafrost í Færeyjum við uppbyggingu á nýrri seiðaeldisstöð. Frá Færeyjum fluttist Johan til Noregs þar sem hann byggði upp seiðaeldisstöð fyrir Sundsfjord Smolt og nú síðast vann hann við uppbyggingu á seiðaeldisstöð fyrir Helgeland Smolt. Hann hefur borið ábyrgð á hönnun, byggingarframkvæmdum og stjórnun stöðvanna sem hann hefur starfað í .

Arctic Smolt er nú að byggja eina stærstu seiðaeldisstöð landsins sem verður með endurnýtingarkerfi á vatni. Stöðin verður líklega stærsta mannvirkið á Vestfjörðum og er áætlað að afkastagetan stöðvarinnar sem er í þremur einingum verði um 6 milljónir seiða.  Afkastagetan í fjölda seiða er þó tengd hversu stór seiði eru framleidd og það er verið að meta möguleika þess að framleiða stór sjógönguseiði til þess að stytta framleiðslutímann í sjó.

Arctic Smolt er hjartað í starfsemi Arctic Fish fyrirtækjanna og á grunni stöðvarinnar byggjast framleiðsluáætlanir fyrirtækisins. Árið 2018 er áætlað að framleiða rúmlega 2 milljónir seiða og 2019 rúmlega 3 milljónir seiða. Nú þegar er ein framleiðslueining að hluta virk og eftir þvi hvernig gengur að byggja upp framleiðsluna er stefnt er á að setja hálfa til eina milljón seiða út í sumar. Hjá Arctic Smolt starfa í dag 8 starfsmenn í seiðaeldi og um 25 starfsmenn starfa við byggingu stöðvarinnar.

Smári

Auglýsing

Skemmtiferðaskip á réttri leið?

Á mánudag og þriðjudag verður haldin á Ísafirði ráðstefna undir yfirskriftinni „Skemmtiferðaskip á réttri leið?“ Það er Háskólasetur Vestfjarða sem stendur fyrir ráðstefnunni í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Ferðamálasamtök Vestfjarða, Markaðsstofu Vestfjarða, Ísafjarðarbæ, og Vesturferðir og er henni ætlað að varpa ljósi á þessa ört vaxandi ferðaþjónustugrein á Íslandi og fjalla um hana frá ýmsum hliðum. Lögð er áhersla á hvernig byggja megi greinina upp til framtíðar með sjálfbærni að leiðarljósi. Fjölmargir koma að borðinu og erindi flytja fyrirlesarar úr röðum fræðimanna og sérfræðinga sem og hagsmunaaðila, sveitarstjórna og íbúa. Aðalfyrirlesari er Frigg Jörgensen sem er framkvæmdastjóri AECO sem eru hagsmunasamtök útgerða könnunar- og skemmtiferðaskipa á Norðurslóðum. Frigg hefur einnig víðtæka reynslu af ferðaþjónustu á Svalbarða. Hún flytur fyrirlestur sinn á ensku en aðrir liðið ráðstefnunnar fara fram á íslensku. Á eftir hverri fyrirlestralotu er síðan tími til umræðna.

Talsverð umræða hefur verið um komur skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar, en skipakomum hefur fjölgað gífurlega undanfarin ár og eru þær skráðar 100 í sumar. Birna Lárusdóttir, verkefnastjóri hjá Háskólasetri Vestfjarða sem vinnur að skipulagningu ráðstefnunnar segir hana hugsaða sem samráðsvettvang fyrir alla þá sem hafa hagsmuna að gæta og þá gildir einu hvort það séu íbúar á stöðum sem skemmtiferðaskip sækja eða aðilar úr ferðaþjónustunni og hvetur hún íbúa á svæðinu eindregið til að mæta.

Eftir hádegi á þriðjudag verður verður Ísafjörður í brennidepli og taka þá til máls Guðmundur M. Kristjánsson hafnastjóri sem fjallar um stefnumótun Ísafjarðarbæjar í ferðaþjónustu, Kolbrún Sverrisdóttir ræðir sjónarmið íbúans og Halldóra Björk Norðdahl sjónarmið verslunareigandans, þá mun Daníel Jakobsson tala fyrir hönd Ferðamálasamtaka Vestfjarða og framkvæmdastjóri Vesturferða Ásgeir Höskuldsson sem þjónustar flest þau skip sem til Ísafjarðar koma um ferðir. Þá verður gefinn rúmur tími til umræðna þar sem allir geta lagt til málanna og komið með spurningar. Verið er að vinna að stefnumótun í ferðamálum á Vestfjörðum og verða þeir sem að þeirri vinnu koma á ráðstefnunni til að sjá og heyra mismunandi sjónarmið sem veganesti inn í stefnumótunina.

Sigríður Kristjánsdóttir og Jón Páll Hreinsson stýra ráðstefnunni sem verður sett á mánudagsmorgun klukkan 09:30 af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur ráðherra ferðamála. Ráðstefnan stendur sem áður segir í tvo daga og segir Birna að ráðstefnugjaldi hafi verið haldið í lágmarki svo að sem flestir ættu kost á þátttöku, en gjaldið er 5000 krónur og má skrá þátttöku á heimasíðu Háskólaseturs Vestfjarða, þar sem einnig má skoða dagskrána. Sækja má hluta ráðstefnunnar eigi gestir ekki kost á því að sitja hana í heild sinni.

annska@bb.is

Auglýsing

Bærinn skaffi húsnæði fyrir landamærastöð

Landamærastöð Matvælastofnunar er í Vestrahúsinu á Ísafiðri.

Matvælastofnun vill að Ísafjarðarbær greiði húsaleigu eða útvegi húsnæði undir landamærastöð stofnunarinnar á Ísafirði. Að öðrum kosti verður landamærastöðin líklega lögð niður. Stöðin er til húsa í Vestrahúsinu á Ísafirði. Landamærastöðin er rekin í samræmi við reglur EES sem kveða á um að slík stöð skuli vera til staðar þar sem innflutningur á dýraafurðum frá ríkjum utan EES fer fram. Stöðin á Ísafirði hefur verið rekin síðan 1999, fyrst af Fiskistofu og síðustu 10 árin af Matvælastofnun. Í bréfi Matvælastofnunar til Ísafjarðarbæjar kemur fram að leigusamningur við Vestra renni út í lok apríl og leigusali hafi boðið stofnuninni nýjan samning með talsverðri hækkun á leigu. Með hliðsjón af þeim fáu sendingum sem hafa borist á stöðina, en sum ár hafa engar sendingar borist, telur Matvælastofnun ekki grundvöll til að reka landamærastöð á Ísafirði. Á það er bent að hafnaryfirvöld á Akureyri og í Þorlákshöfn skaffa húsnæði undir sínar stöðvar án endurgjalds. Í bréfinu er tekið fram að ef landamærastöðinni verður lokað geti tekið u.þ.b. 2-3 ár að opna stöðina aftur.

Bæjarstjóra hefur verið falið afla upplýsinga um hvernig húsnæði Matvælastofnun er að leita eftir og hvers vegna sveitarfélög en ekki ríki eigi að standa undir kostnaðinum við rekstur landamærastöðvar.

Smári

Auglýsing

Íslandsbanki og Orkubúið aðalstyrktaraðilar Fossavatnsgöngunnar.

Frá vinstri: Daníel Jakobsson formaður Fossavatnsgöngunnar, Hallgrímur Magnús Sigurjónsson útibússtjóri Íslandsbanka og Kristbjörn R. Sigurjónsson framkvæmdastjóri Fossvatnsgöngunnar.

Í gær skrifuðu forsvarsmenn Fossavatnsgöngunnar undir samninga við Íslandsbanka og Orkubú Vestfjarða sem gera fyrirtækin að aðalstyrktaraðilum göngunnar. Með því taka fyrirtækin þátt í að efla gönguna og skíðagönguíþróttina í Ísafjarðarbæ, en meginmarkið göngunnar er sem kunnugt er fjáröflun fyrir Skíðafélag Ísfirðinga.

„Það er ánægjulegt að sjá að þessi tvö öflugu fyrirtæki eru tilbúin að taka þátt í þessum flotta viðburði sem við höfum byggt upp hér á Ísafirði. Þessir samningar eru okkur afar miklilvægir, ekki bara fjárhagslega heldur líka sú viðurkenning sem felst í því að fyrirtækin sjái sér hag í að tengjast göngunni.“ segir Kristbjörn R. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Fossavatnsgöngunnar.

Kristbjörn og Elías Jónatansson orkubústjóri handsala samninginn.

Íslandsbanki hefur í árafjöld verið tryggur bakhjarl Fossavatnsgöngunnar og Skíðafélagsins. Orkubúið hefur einnig verið í innsta hring velunnara göngunnar og í ár hefur fyrirtækið ákveðið að gefa í og auka við framlag sitt og verður ásamt Íslandsbanka aðalstyrktaraðili göngunnar. Fyrirtækin gera fjögurra ára samning við gönguna.

„Við höfum verið bakhjarl göngunnar um árabil og þetta samstarf hefur verið  farsælt. Það er okkur því sönn ánægja að geta stutt við þennan stóra viðurð sem er samfélaginu til mikils sóma,“ segir Hallgrímur Magnús Sigurjónsson, útibússtjóri Íslandsbanka á Ísafirði.

Elías Jónatansson orkubússtjóri segir ánægjulegt fyrir fyrirtækið að geta tengst skíðaíþróttinni og Fossavatnsgöngunni með enn betri hætti en áður. „Orkbúið vill vera bakhjarl á sínu starfsvæði og vekja athygli á því öfluga mannlífi sem hér er. Fossavatnsgangan er slíkt verkefni. Ekki skemmir svo fyrir að gangan fer fram á starfsvæði félagsins, það er fjalllendi Skutulsfjarðar og gengið er á snjó sem breytist svo í vatn og í framhaldinu raforku sem Orkubúið selur“ segir Elías.

Smári

Auglýsing

Ætla að vinna málið hratt

Hreinn Haraldsson vegamálsstjóri í Teigsskógi með Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þáverandi samgönguráðherra.

Eins og greint hefur verið frá ætlar Vegagerðin að halda sínu striki varðandi vegaframkvæmdir í Gufudalssveit og stefnir að því að umsókn um framkvæmdaleyfi vegar um Teigsskóg verði komin inn á borð sveitarstjórnar Reykhólahrepps í aprílmánuði. Í gær var birt álit Skipulagsstofnunar á framkvæmdunum þar sem stofnunin mælti með því að fara aðra leið en um Teigsskóg vegna mikilla og neikvæðra umhverfisáhrifa. Skipulagstofnun mælir með jarðgöngum undir Hjallaháls og vegi yfir Ódrjúgsháls en sú leið er metin 4,5 milljörðum kr. dýrari. Hreinn Haraldsson sagði kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að vilji Vegagerðarinnar sé skýr. „Það er ekki síst með tilliti til þess að það er alveg ljóst að það liggur ekki fyrir fjármagn í miklu dýrari leiðir og við viljum bara fá þessar framkvæmdir í gang sem allra fyrst.“

Hreinn viðurkennir að mikil óvissa ríki um hversu hratt það gangi. „Ég er að vonast til að við getum eitthvað farið að hreyfa okkur í haust.“

Smári

Auglýsing

Stefnt á að opna vesturleiðina í dag

Mokstur á Hrafnseyrarheiði. Mynd úr safni.

Moksturstæki Vegagerðarinnar hafa síðustu daga verið að störfum á Dynjandisheiði. Guðmundur R. Björgvinsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Ísafirði, vonast til að vegurinn opni í dag. „Ef ekkert óvænt kemur upp á þá ætti það að takast. En ég lofa því ekki fyrr en ég sé síðasta skaflinn fara,“ segir hann. Vegagerðin er búin að opna veginn um Hrafnseyrarheiði.

Að sögn Guðmundar er mokstur á heiðunum óvenju snemma á ferðinni í ár, enda hafa snjóalög ekki verið mikil. „Það er ekkert sérlega mikill snjór uppi, en hann er harður og mikill klaki og seinlegt að moka.“

Hann minnir vegfarendur sem hyggjast keyra heiðarnará  að hafa í huga að þó ágætisveður sé á láglendi þá er vetur konungur ekki búinn að sleppa takinu af fjallvegum.

Smári

Auglýsing

Höggvið á hnútinn

Einar Kristinn Guðfinnsson

Ég hef oftar en einu sinni haldið því fram að brýnasta verkefni í vegamálum á Íslandi sé að ljúka gerð Vestfjarðavegar 60 um Gufudalssveit. Þetta er enn skoðun mín. Þau mál hafa nú um nær áratugsskeið verið í hnút, sem núna eru væntanlega að skapast forsendur til að höggva á með áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegagerðar á þessari leið.

Neikvæð umhverfisáhrif í öllum tilvikum

Það er ljóst að hvers konar vegagerð um Gufudalssveit mun hafa hafa neikvæð áhrif á náttúrufar og lífríki. Skipulagsstofnun álítur að áhrifin yrðu minnst ef farin yrði svo kölluð leið D2. Í þeirri leið er gert ráð fyrir að farið verði með rúmlega 4 kílómetra jarðgöngum undir Hjallaháls, á milli Þorskafjarðar og Djúpafjarðar sem í dag er einn af farartálmunum á Vestfjarðavegi 60. Umtalsverðar skeringar yrðu síðan í fjallshlíðinni í vestanverðum Djúpafirði og upp á Ódrjúgshálsinn. Leiðin lægi síðan yfir Gufufjörð nokkru utan við Brekku; ma væntanlega til að losna við þekkt snjóflóðasvæði og síðan út með Gufufirði að Skálanesi.

Þetta er sem sagt það leiðarval sem Skipulagsstofnun bendir á og skírskotar þá til laga nr. 106 frá árinu 2000 um mat á umhverfisáhrifum.

„Talsvert neikvæð áhrif á landslag“

En það er til marks um mál það allt er snýr að vegagerð á þessari leið, að jafnvel þessi vegagerðarkostur hefur í för með sér raskandi áhrif á náttúrufar á svæðinu sem um ræðir.

„Allar þær leiðir sem kynntar eru í matsskýrslu Vegagerðarinnar hafa bein áhrif á gróið land“, segir til dæmis í áliti Skipulagsstofnunar. Og hvað varðar þann kost, leið D2, má sjá í áliti Skipulagsstofnunar að „í botni Djúpafjarðar eru áhrif leiðar D2 á landslag metin talsvert neikvæð.“

Í áliti Skipulagsstofnunar ( bls. 27) er vitnað til frummatsskýrslu Vegagerðarinnar  með þessum orðum: „Í matsskýrslu kemur fram að leiðin yfir Ódrjúgsháls um Brekkudal og að þverun yfir Gufufjörð (svæði 13) muni hafa neikvæð áhrif á landslagsheild Brekkudals og einnig muni umfangsmiklar skeringar í hlíðum Ódrjúgsháls hafa neikvæð áhrif. Þverun við Gufufjörð að Skálanesi raski leirum beggja vegna brúarstæðis og gróin svæði skerðist. Efnistaka er fyrirhuguð á fimm stöðum á svæðinu og muni hún skerða gróðurhulu og breyta ásýnd lands.

Sjónræn áhrif leiðar D2 verði helst vegna þverana yfir firði og efnistöku á Melanesi. Niðurstaða mats á áhrifum Vegagerðarinnar á leið D2 er að hún hafi talsvert neikvæð áhrif á landslag.“

Frá sjónarhóli hreintrúarmanna væri þá væntanlega eðlilegast að gera ekki neitt. Láta veginn liggja eins og hann er nú, raska engu og búa bara við núverandi ástand. Fáir munu þó væntanlega vera talsmenn þess.

Röskun náttúrufars er óhjákvæmileg

En þá er komið að kjarna málsins og hann er þessi: Vegagerð á leiðinni um Gufudalssveit á Vestfjarðarvegi 60 verður ekki unnin nema að það hafi í för með sér röskun á náttúrufari. Til þess að standast lágmarkskröfur nútímans um vegasamgöngur geta menn ekki fylgt núverandi vegstæði. Það verður að fara ofan í fjörur, nauðsynlegt er að þvera firði ( leið D2 gerir ráð fyrir því í Þorskafirði og Gufufirði). Óhjákvæmilegt er að raska beitarlandi, trjágróðri og áfram mætti telja.

Hvað er leið Þ – H sem heimamenn vilja?

Fyrir liggur gróft mat á kostnaði á mismunandi leiðum. Sú leið sem Vegagerðin mælir með er nefnd Þ-H. Hú gerir ráð fyrir því að farið yfir Þorskafjörðinn ( líkt og í flestum öðrum kostunum sem til skoðunar eru). Farið verði út með Þorskafirði vestanverðum, um hinn títtnefnda Teigskóg, að Hallsteinsnesi, sem er á milli Þorskafjarðar og Djúpafjarðar, þaðan verði farið þvert yfir, tekið land á Grónesi á milli Djúpafjarðar og Gufufjarðar og í land við Melanes, sem er innan við Skálanes og flestir muna sem ekið hafa þessa leið.  Þetta er sú leið sem heimamenn, sveitarstjórnir í Reykhólahreppi, Vesturbyggð og Tálknafirði hafa talað fyrir sem og þingmenn Norðvesturkjördæmis, amk. til þessa. Um það hefur því ríkt góð og breið samstaða í þessum hópi.

Vegagerðin sækir um framkvæmdaleyfi

Það er vitaskuld ljóst að þessi vegagerð mun hafa í för með sér röskun á umhverfi og náttúrufari og það líka óafturkræfa röskun; rétt eins og víða gerist við framkvæmdir okkar mannfólksins. En hjá slíku verður ekki alltaf komist eins og við vitum.

Og þá er komið að matinu. Er það réttlætanlegt? Á það verður ekki brugðið einhlítum mælistokki. Það er mat, enda heita lögin sem allt þetta byggir á Lög um mat á umhverfisáhrifum.

Fram hefur komið að Vegagerðin hyggist nú sækja um framkvæmdaleyfi til þeirrar sveitarstjórnar sem um ræðir, Reykhólahrepps og reiknar síðan með að sækja um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vegar samkvæmt leið Þ-H. Það er mikið fagnaðarefni og gefur vonir að núna verði loksins unnt að höggva á þann hnút sem hefur reyrt hefur í fjötra allan framgang og framfarir á þessu tiltekna svæði í um áratug.

70 prósent dýrari leið

Fjárhagsleg rök hníga líka að því þessi leið Þ – H sé farin. Þetta er ódýrasta leiðin ( þó sannarlega kosti hún mikla peninga) Leið Þ – H kostar um 6,4 milljarða króna. Sú leið sem Skipulagsstofnun telur að falli best að markmiðum laganna um mat á umhverfisáhrifum, er talin kosta um  4,5 milljörðum meira. Er sem sé tæplega 70% prósent dýrari og kostar tæplega 11 milljarða. Til samanburðar má nefna að lægsta tilboð í Dýrafjarðargöng var um 8,7 milljarðar.

Verkin tali

Að öllu framansögðu blasir við að nú þurfum við að láta verkin að fara að tala. Öllum er ljós þörfin á vegabótunum á þessu svæði. Deilur hafa staðið um vegstæðið. Nú er komin upp ný og betri staða með því að álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir. Næsta skref er, eins og Vegagerðin bendir á,  að sækja um framkvæmdaleyfi til sveitarfélagsins sem á í hlut. Að því fengnu verður okkur vonandi ekkert að vanbúnaði að hefjast hafna við þetta langþráða og brýna verkefni.

Einar Kristinn Guðfinnsson

Auglýsing

Fagnar ákvörðun Vegagerðarinnar

Pétur G. Markan.

Pétur G. Markan, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, fagnar ákvörðun Vegagerðarinnar um að sækja um framkvæmdaleyfi vegna vegagerðar í Gufudalssveit. Vegagerðin stefnir á að leggja veginn eftir veglínu Þ-H sem liggur í gegnum Teigsskóg. Í áliti Skipulagsstofnunar á umhverfismati í Gufudalssveit er mælt með að fara aðra leið, en í henni felst jarðgangagerð undir Hjallaháls.

„Skipulagsstofnun leggst ekki beint gegn veglínu Þ-H og þetta er sú leið sem Vegagerðin hefur stefnt á. Að mínu mati er mikilvægt að Vegagerðin er einbeitt og ætlar ekki að hika, enda eru þetta einar mikilvægustu samgöngubætur á Vestfjörðum,“ segir Pétur.

Málefni vegagerðar í Gufudalssveit hafa þvælst í kerfinu í rúman áratug. Fyrri tilraun Vegagerðarinnar til að leggja veg um Teigsskóg endaði fyrir dómstólum árið 2009 felldi Hæstiréttur úr gildi úrskurð umhverfisráðherra um að leyfa vegagerð í Teigskógi.

Pétur segir augljóst að telji menn að þeir þurfi að leita réttar síns vegna Teigskógar, þá verði það gert eftir réttum leiðum. Hann er ekki á þeirri skoðun að ákvörðun Vegagerðarinnar að stefna áfram á veg í gegnum Teigsskóg  tefji vegabætur umfram það sem aðrar leiðir bjóða upp.

„Ég held að það sé augljóst að allar þær leiðir sem eru í boði taka langan tíma. Sú leið sem Skipulagsstofnun mælir með er dýrari og ég sé ekki að hún stytti tímaramann, það vita allir sem hafa fylgst með jarðgangaumræðu á Íslandi,“ segir Pétur.

Smári

Auglýsing

Bjartmar spilar í Bolungarvík

Bjartmar Guðlaugsson

Tónlistarmaðurinn Bjartmar Guðlaugsson verður með tónleika í Félagsheimili Bolungarvíkur á laugardagskvöld. Bjartmar  er flestum að góðu kunnur fyrir tónlist sína en hann hefur samið ógrynni af þekktum lögum sem hafa lifað með þjóðinni í áratugi. Bjartmar var einn vinsælasti tónlistarmaður á Íslandi á níunda áratugnum og sló hann rækilega í gegn árið 1987 þegar hann gaf út vinsælustu plötu sína Í fylgd með fullorðnum. Í Bolungarvík mun Bjartmar flytja öll sín bestu lög og verður að sjálfsögðu með lag þjóðarinnar, Þannig týnist tíminn, með í farteskinu.

Að loknum tónleikum, eða í kringum miðnættið mun Danstríó Vestfjarða stíga á svið og spila fram á nótt. Húsið opnar kl 21:00 og er miðaverð kr 2.500.

annska@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir