Skemmtiferðaskip á réttri leið?

Á mánudag og þriðjudag verður haldin á Ísafirði ráðstefna undir yfirskriftinni „Skemmtiferðaskip á réttri leið?“ Það er Háskólasetur Vestfjarða sem stendur fyrir ráðstefnunni í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Ferðamálasamtök Vestfjarða, Markaðsstofu Vestfjarða, Ísafjarðarbæ, og Vesturferðir og er henni ætlað að varpa ljósi á þessa ört vaxandi ferðaþjónustugrein á Íslandi og fjalla um hana frá ýmsum hliðum. Lögð er áhersla á hvernig byggja megi greinina upp til framtíðar með sjálfbærni að leiðarljósi. Fjölmargir koma að borðinu og erindi flytja fyrirlesarar úr röðum fræðimanna og sérfræðinga sem og hagsmunaaðila, sveitarstjórna og íbúa. Aðalfyrirlesari er Frigg Jörgensen sem er framkvæmdastjóri AECO sem eru hagsmunasamtök útgerða könnunar- og skemmtiferðaskipa á Norðurslóðum. Frigg hefur einnig víðtæka reynslu af ferðaþjónustu á Svalbarða. Hún flytur fyrirlestur sinn á ensku en aðrir liðið ráðstefnunnar fara fram á íslensku. Á eftir hverri fyrirlestralotu er síðan tími til umræðna.

Talsverð umræða hefur verið um komur skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar, en skipakomum hefur fjölgað gífurlega undanfarin ár og eru þær skráðar 100 í sumar. Birna Lárusdóttir, verkefnastjóri hjá Háskólasetri Vestfjarða sem vinnur að skipulagningu ráðstefnunnar segir hana hugsaða sem samráðsvettvang fyrir alla þá sem hafa hagsmuna að gæta og þá gildir einu hvort það séu íbúar á stöðum sem skemmtiferðaskip sækja eða aðilar úr ferðaþjónustunni og hvetur hún íbúa á svæðinu eindregið til að mæta.

Eftir hádegi á þriðjudag verður verður Ísafjörður í brennidepli og taka þá til máls Guðmundur M. Kristjánsson hafnastjóri sem fjallar um stefnumótun Ísafjarðarbæjar í ferðaþjónustu, Kolbrún Sverrisdóttir ræðir sjónarmið íbúans og Halldóra Björk Norðdahl sjónarmið verslunareigandans, þá mun Daníel Jakobsson tala fyrir hönd Ferðamálasamtaka Vestfjarða og framkvæmdastjóri Vesturferða Ásgeir Höskuldsson sem þjónustar flest þau skip sem til Ísafjarðar koma um ferðir. Þá verður gefinn rúmur tími til umræðna þar sem allir geta lagt til málanna og komið með spurningar. Verið er að vinna að stefnumótun í ferðamálum á Vestfjörðum og verða þeir sem að þeirri vinnu koma á ráðstefnunni til að sjá og heyra mismunandi sjónarmið sem veganesti inn í stefnumótunina.

Sigríður Kristjánsdóttir og Jón Páll Hreinsson stýra ráðstefnunni sem verður sett á mánudagsmorgun klukkan 09:30 af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur ráðherra ferðamála. Ráðstefnan stendur sem áður segir í tvo daga og segir Birna að ráðstefnugjaldi hafi verið haldið í lágmarki svo að sem flestir ættu kost á þátttöku, en gjaldið er 5000 krónur og má skrá þátttöku á heimasíðu Háskólaseturs Vestfjarða, þar sem einnig má skoða dagskrána. Sækja má hluta ráðstefnunnar eigi gestir ekki kost á því að sitja hana í heild sinni.

annska@bb.is

DEILA