Fagnar ákvörðun Vegagerðarinnar

Pétur G. Markan.

Pétur G. Markan, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, fagnar ákvörðun Vegagerðarinnar um að sækja um framkvæmdaleyfi vegna vegagerðar í Gufudalssveit. Vegagerðin stefnir á að leggja veginn eftir veglínu Þ-H sem liggur í gegnum Teigsskóg. Í áliti Skipulagsstofnunar á umhverfismati í Gufudalssveit er mælt með að fara aðra leið, en í henni felst jarðgangagerð undir Hjallaháls.

„Skipulagsstofnun leggst ekki beint gegn veglínu Þ-H og þetta er sú leið sem Vegagerðin hefur stefnt á. Að mínu mati er mikilvægt að Vegagerðin er einbeitt og ætlar ekki að hika, enda eru þetta einar mikilvægustu samgöngubætur á Vestfjörðum,“ segir Pétur.

Málefni vegagerðar í Gufudalssveit hafa þvælst í kerfinu í rúman áratug. Fyrri tilraun Vegagerðarinnar til að leggja veg um Teigsskóg endaði fyrir dómstólum árið 2009 felldi Hæstiréttur úr gildi úrskurð umhverfisráðherra um að leyfa vegagerð í Teigskógi.

Pétur segir augljóst að telji menn að þeir þurfi að leita réttar síns vegna Teigskógar, þá verði það gert eftir réttum leiðum. Hann er ekki á þeirri skoðun að ákvörðun Vegagerðarinnar að stefna áfram á veg í gegnum Teigsskóg  tefji vegabætur umfram það sem aðrar leiðir bjóða upp.

„Ég held að það sé augljóst að allar þær leiðir sem eru í boði taka langan tíma. Sú leið sem Skipulagsstofnun mælir með er dýrari og ég sé ekki að hún stytti tímaramann, það vita allir sem hafa fylgst með jarðgangaumræðu á Íslandi,“ segir Pétur.

Smári

DEILA