Höggvið á hnútinn

Einar Kristinn Guðfinnsson

Ég hef oftar en einu sinni haldið því fram að brýnasta verkefni í vegamálum á Íslandi sé að ljúka gerð Vestfjarðavegar 60 um Gufudalssveit. Þetta er enn skoðun mín. Þau mál hafa nú um nær áratugsskeið verið í hnút, sem núna eru væntanlega að skapast forsendur til að höggva á með áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegagerðar á þessari leið.

Neikvæð umhverfisáhrif í öllum tilvikum

Það er ljóst að hvers konar vegagerð um Gufudalssveit mun hafa hafa neikvæð áhrif á náttúrufar og lífríki. Skipulagsstofnun álítur að áhrifin yrðu minnst ef farin yrði svo kölluð leið D2. Í þeirri leið er gert ráð fyrir að farið verði með rúmlega 4 kílómetra jarðgöngum undir Hjallaháls, á milli Þorskafjarðar og Djúpafjarðar sem í dag er einn af farartálmunum á Vestfjarðavegi 60. Umtalsverðar skeringar yrðu síðan í fjallshlíðinni í vestanverðum Djúpafirði og upp á Ódrjúgshálsinn. Leiðin lægi síðan yfir Gufufjörð nokkru utan við Brekku; ma væntanlega til að losna við þekkt snjóflóðasvæði og síðan út með Gufufirði að Skálanesi.

Þetta er sem sagt það leiðarval sem Skipulagsstofnun bendir á og skírskotar þá til laga nr. 106 frá árinu 2000 um mat á umhverfisáhrifum.

„Talsvert neikvæð áhrif á landslag“

En það er til marks um mál það allt er snýr að vegagerð á þessari leið, að jafnvel þessi vegagerðarkostur hefur í för með sér raskandi áhrif á náttúrufar á svæðinu sem um ræðir.

„Allar þær leiðir sem kynntar eru í matsskýrslu Vegagerðarinnar hafa bein áhrif á gróið land“, segir til dæmis í áliti Skipulagsstofnunar. Og hvað varðar þann kost, leið D2, má sjá í áliti Skipulagsstofnunar að „í botni Djúpafjarðar eru áhrif leiðar D2 á landslag metin talsvert neikvæð.“

Í áliti Skipulagsstofnunar ( bls. 27) er vitnað til frummatsskýrslu Vegagerðarinnar  með þessum orðum: „Í matsskýrslu kemur fram að leiðin yfir Ódrjúgsháls um Brekkudal og að þverun yfir Gufufjörð (svæði 13) muni hafa neikvæð áhrif á landslagsheild Brekkudals og einnig muni umfangsmiklar skeringar í hlíðum Ódrjúgsháls hafa neikvæð áhrif. Þverun við Gufufjörð að Skálanesi raski leirum beggja vegna brúarstæðis og gróin svæði skerðist. Efnistaka er fyrirhuguð á fimm stöðum á svæðinu og muni hún skerða gróðurhulu og breyta ásýnd lands.

Sjónræn áhrif leiðar D2 verði helst vegna þverana yfir firði og efnistöku á Melanesi. Niðurstaða mats á áhrifum Vegagerðarinnar á leið D2 er að hún hafi talsvert neikvæð áhrif á landslag.“

Frá sjónarhóli hreintrúarmanna væri þá væntanlega eðlilegast að gera ekki neitt. Láta veginn liggja eins og hann er nú, raska engu og búa bara við núverandi ástand. Fáir munu þó væntanlega vera talsmenn þess.

Röskun náttúrufars er óhjákvæmileg

En þá er komið að kjarna málsins og hann er þessi: Vegagerð á leiðinni um Gufudalssveit á Vestfjarðarvegi 60 verður ekki unnin nema að það hafi í för með sér röskun á náttúrufari. Til þess að standast lágmarkskröfur nútímans um vegasamgöngur geta menn ekki fylgt núverandi vegstæði. Það verður að fara ofan í fjörur, nauðsynlegt er að þvera firði ( leið D2 gerir ráð fyrir því í Þorskafirði og Gufufirði). Óhjákvæmilegt er að raska beitarlandi, trjágróðri og áfram mætti telja.

Hvað er leið Þ – H sem heimamenn vilja?

Fyrir liggur gróft mat á kostnaði á mismunandi leiðum. Sú leið sem Vegagerðin mælir með er nefnd Þ-H. Hú gerir ráð fyrir því að farið yfir Þorskafjörðinn ( líkt og í flestum öðrum kostunum sem til skoðunar eru). Farið verði út með Þorskafirði vestanverðum, um hinn títtnefnda Teigskóg, að Hallsteinsnesi, sem er á milli Þorskafjarðar og Djúpafjarðar, þaðan verði farið þvert yfir, tekið land á Grónesi á milli Djúpafjarðar og Gufufjarðar og í land við Melanes, sem er innan við Skálanes og flestir muna sem ekið hafa þessa leið.  Þetta er sú leið sem heimamenn, sveitarstjórnir í Reykhólahreppi, Vesturbyggð og Tálknafirði hafa talað fyrir sem og þingmenn Norðvesturkjördæmis, amk. til þessa. Um það hefur því ríkt góð og breið samstaða í þessum hópi.

Vegagerðin sækir um framkvæmdaleyfi

Það er vitaskuld ljóst að þessi vegagerð mun hafa í för með sér röskun á umhverfi og náttúrufari og það líka óafturkræfa röskun; rétt eins og víða gerist við framkvæmdir okkar mannfólksins. En hjá slíku verður ekki alltaf komist eins og við vitum.

Og þá er komið að matinu. Er það réttlætanlegt? Á það verður ekki brugðið einhlítum mælistokki. Það er mat, enda heita lögin sem allt þetta byggir á Lög um mat á umhverfisáhrifum.

Fram hefur komið að Vegagerðin hyggist nú sækja um framkvæmdaleyfi til þeirrar sveitarstjórnar sem um ræðir, Reykhólahrepps og reiknar síðan með að sækja um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vegar samkvæmt leið Þ-H. Það er mikið fagnaðarefni og gefur vonir að núna verði loksins unnt að höggva á þann hnút sem hefur reyrt hefur í fjötra allan framgang og framfarir á þessu tiltekna svæði í um áratug.

70 prósent dýrari leið

Fjárhagsleg rök hníga líka að því þessi leið Þ – H sé farin. Þetta er ódýrasta leiðin ( þó sannarlega kosti hún mikla peninga) Leið Þ – H kostar um 6,4 milljarða króna. Sú leið sem Skipulagsstofnun telur að falli best að markmiðum laganna um mat á umhverfisáhrifum, er talin kosta um  4,5 milljörðum meira. Er sem sé tæplega 70% prósent dýrari og kostar tæplega 11 milljarða. Til samanburðar má nefna að lægsta tilboð í Dýrafjarðargöng var um 8,7 milljarðar.

Verkin tali

Að öllu framansögðu blasir við að nú þurfum við að láta verkin að fara að tala. Öllum er ljós þörfin á vegabótunum á þessu svæði. Deilur hafa staðið um vegstæðið. Nú er komin upp ný og betri staða með því að álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir. Næsta skref er, eins og Vegagerðin bendir á,  að sækja um framkvæmdaleyfi til sveitarfélagsins sem á í hlut. Að því fengnu verður okkur vonandi ekkert að vanbúnaði að hefjast hafna við þetta langþráða og brýna verkefni.

Einar Kristinn Guðfinnsson

DEILA