Bærinn skaffi húsnæði fyrir landamærastöð

Landamærastöð Matvælastofnunar er í Vestrahúsinu á Ísafiðri.

Matvælastofnun vill að Ísafjarðarbær greiði húsaleigu eða útvegi húsnæði undir landamærastöð stofnunarinnar á Ísafirði. Að öðrum kosti verður landamærastöðin líklega lögð niður. Stöðin er til húsa í Vestrahúsinu á Ísafirði. Landamærastöðin er rekin í samræmi við reglur EES sem kveða á um að slík stöð skuli vera til staðar þar sem innflutningur á dýraafurðum frá ríkjum utan EES fer fram. Stöðin á Ísafirði hefur verið rekin síðan 1999, fyrst af Fiskistofu og síðustu 10 árin af Matvælastofnun. Í bréfi Matvælastofnunar til Ísafjarðarbæjar kemur fram að leigusamningur við Vestra renni út í lok apríl og leigusali hafi boðið stofnuninni nýjan samning með talsverðri hækkun á leigu. Með hliðsjón af þeim fáu sendingum sem hafa borist á stöðina, en sum ár hafa engar sendingar borist, telur Matvælastofnun ekki grundvöll til að reka landamærastöð á Ísafirði. Á það er bent að hafnaryfirvöld á Akureyri og í Þorlákshöfn skaffa húsnæði undir sínar stöðvar án endurgjalds. Í bréfinu er tekið fram að ef landamærastöðinni verður lokað geti tekið u.þ.b. 2-3 ár að opna stöðina aftur.

Bæjarstjóra hefur verið falið afla upplýsinga um hvernig húsnæði Matvælastofnun er að leita eftir og hvers vegna sveitarfélög en ekki ríki eigi að standa undir kostnaðinum við rekstur landamærastöðvar.

Smári

DEILA