Miðvikudagur 14. maí 2025
Heim Blogg Síða 2328

Aflaverðmæti minnkar um 12%

Löndun á Ísafirði.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar fyrir árið 2016 nam aflaverðmæti íslenskra skipa 133 milljörðum króna samanborið við ríflega 151 milljarð árið 2015. Aflaverðmæti úr sjó hefur því minnkað um rúma 18 milljarða eða sem nemur 12,1% samdrætti á milli ára. Aflaverðmæti í desember nam rúmum 6,5 milljörðum samanborið við 8,5 milljarða í desember 2015.

Aflaverðmæti botnfisks nam 92,7 milljörðum á árinu sem er samdráttur um 9,9% frá fyrra ári. Af botnfisktegundum var þorskur sem fyrr verðmætastur en aflaverðmæti þorsks á síðasta ári nam 58 milljörðum króna sem er 4,8% minna en árið 2015. Verðmæti flatfiskafla var 9 milljarðar á síðasta ári sem er 7,9% samdráttur frá fyrra ári. Verðmæti uppsjávarafla nam 27,8 milljörðum sem er 19,6% minna en árið 2015. Aflaverðmæti síldar jókst um 11% en verðmæti loðnu dróst verulega saman á milli ára, eða um 60,9%. Verðmæti skel- og krabbadýra var tæpir 3,5 milljarðar á síðasta ári sem er 12,9% samdráttur frá árinu 2015.

Verðmæti afla, sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands nam 70,2 milljörðum króna árið 2016 sem er samdráttur um 13,9%  frá fyrra ári. Verðmæti afla sem keyptur er á markaði til vinnslu innanlands nam rúmum 19,5 milljörðum og dróst saman um 4,1%. Aflaverðmæti sjófrystingar dróst einnig saman á milli ára, nam rúmum 37 milljörðum samanborið við tæpa 44 milljarða árið 2015.

Smári

Auglýsing

Leið Skipulagsstofnunar kemur verst út úr umferðaröryggismati

 

Vegagerðin hefur sent frá sér ítarlega frétt um gerð Vestfjarðavegar um Gufudalssveit, en hún telur svokallaða leið Þ-H sem sker langan og mjóan og ósnortinn landsnámsskóginn við norðurströnd Þorskafjarðar eftir honum endilöngum vera bestu leiðina. Í áliti Skipulagsstofnunar á mati á umhverfisáhrifum er sú leið metin lökust og stofnunin mælir frekar með leið D2 en í henni felst jarðagangagerð undir Hjallaháls og nýr vegur yfir Ódrjúgsháls.

Alls voru fimm leiðir bornar saman í umhverfismatinu og uppfylla þær allar skilyrði góðrar veghönnunar og eru allar mun öruggari en núverandi vegur.

Í skýrslu um umferðaröryggismat Vestfjarðavegar kemur leið D2 verr út en hinar leiðirnar.

Kaflar leiðar D2 eru í miklum bratta sem eru yfir viðmiðunarreglum og sniðhalli einnig. Mesti halli á leið D2 er 8% á 500 m kafla. Alls eru um 2300 m með yfir 7% halla. Í veghönnunarreglum kemur fram að vegur með 90 km/klst hámarkshraða megi hafa 7% langhalla. Veglínan fer mest upp í 168 m hæð. Auk þess er hún um 2 km lengri en hinar leiðirnar.

Í frétt Vegagerðarinnar segir að í fræðiritum um veghönnun komi þráfaldlega fram að rétt sé að lágmarka langhalla vegar eins og kostur er. Þetta skal gert með hliðsjón af umferðaröryggi, kostnaði umferðarinnar og kostnaði vegna viðhalds vegarins, einnig með hliðsjón af orkunýtingu, lágmörkun mengunar o.fl. þátta. Á  hinn bóginn, til að halda jarðraski og framkvæmdakostnaði í lágmarki, ber að velja langhalla þannig að vegurinn falli að landslaginu.

Rannsóknir á umferðarslysum sýna að 6,5 % langhalli er nokkurs konar vendipunktur og meiri langhalli hefur í för með sér mjög aukna slysatíðni. Þannig vex slysahætta um 25 % frá 6,5 % langhalla í 8 % og um önnur 25 % frá 8 % í 9 % langhalla. Slysarannsóknir á tveggja akreina vegum í dreifbýli leiða í ljós að langhalli innan við 6,5 % hefur lítil áhrif á slysatíðnina en langshalli umfram 6,5 % veldur snöggri og sívaxandi aukningu á slysatíðninni.

Hallinn á leið D2 er mestur 7,9 % í sunnanverðum Ódrjúgshálsi en 8,0 % að vestan. Ódrjúgsháls er snjóléttur en hálka í svona langhalla er alltaf varhugaverð svo ekki sé talað um komi hún ökumönnum að óvörum.

Smári

 

Auglýsing

Grunnskóli Bolungarvíkur í úrslit í Skólahreysti

Glaðbeittir sigurvegarar

Í gærkvöldi kepptu skólarnir á Vestfjörðum í Skólahreysti og það var Grunnskóli Bolungarvíkur sem bara sigur úr býtum. Það voru Grunnskólarnir á Suðureyri, Ísafirði og Hólmavík sem öttu kappi við Bolvíkinga.

Í fyrstu greininni, upphífingum var það Flóki Hrafn Markan úr Bolungarvík sem sem sigraði með 29 upphífingar. Í armbeygjum var það Vala Karítas Guðbjartsdóttir úr Bolungarvík sem bara sigur út býtum með 28 armbeygjum. Flóki tók svo dýfurnar með trukki og 18 dýfum og þar með var Bolungarvík komin með fullt hús eftir þrjár fyrstu greinarnar. Í hreystigreipinni „hékk“ Vala í 2,38 sekúndur og þar með var Bolungarvík búin að vinna allar einstaklingsgreinarnar með glæsibrag.

Það var svo í hraðaþrautinni sem Bolvíkingarnir Jónína Arndís og Kristján Logi létu í minni pokann fyrir Ísfirðingunum Hafdísi Báru og Daníel.

Leikar fóru svo að Bolvíkingarnir sigruðu með 22 stigum og er það í fyrsta skipti sem Grunnskóli Bolungarvíkur sigrar. Þessir hraustu krakkar munu því storma í höllina 26. Apríl, má leiða að því líkum að Bolvíkingar fjölmenni suður og standi við bakið á þessum hetjum.

Bryndís

 

Auglýsing

Austurland og Vestfirðir með neikvæðan flutningajöfnuð

Aðfluttir umfram brottflutta á árinu 2016 voru 4.069 manns. Það eru mun fleiri en árið 2015 en þá fluttust 1.451 fleiri til landsins en frá því. Þetta kemur fram í samantekt Hagstofunnar. Öll landsvæði nutu góðs af flutningum milli landa enda flutningsjöfnuður þeirra jákvæður. Rúmlega helmingur þeirra 4.069 sem fluttust til Íslands umfram brottflutta enduðu á höfuðborgarsvæðinu (2.210). Þegar litið er til flutninga bæði innanlands og utan voru Vestfirðir (-42) og Austurland (-27) einu landsvæðin sem vorum með neikvæðan flutningsjöfnuð árið 2016.

Á árunum 2006 og 2007 fluttust 5.200 fleiri til landsins en frá því og eru það einu árin sem flutningsjöfnuður hefur verið hærri en í fyrra. Flestir hinna aðfluttu eru erlendir ríkisborgarar en flutningsjöfnuður meðal íslenskra ríkisborgara var neikvæður. 146 fleiri Íslendingar fluttu frá landinu en til þess. 2016 fluttust tæplega 11 þúsund til landsins og er það fjölgun um rúmlega 4 þúsund milli ára. Tæplega 7 þúsund fluttust frá landinu samanborið við rúmlega 6 þúsund árið 2015.

Smári

Auglýsing

Skaginn 3X hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslands

Frá vinstri: Jón Agnar Ottesen, Una Lovísa Ingólfsdóttir, Jónmundur Ingólfsson, Ingólfur Árnason, Árni Ingólfsson og Guðrún Agnes Sveinsdóttir.

Skaginn 3X hlaut í dag Nýsköpunarverðlaun Íslands fyrir framúrskarandi árangur á sviði þróunar á nýjum tæknilausnum fyrir bolfiskveiðiskip, myndavélatækni og sjálfvirkum uppsjávarkerfum. Verðlaunin voru veitt á Nýsköpunarþingi 2017 sem fór fram á Grand Hótel Reykjavík.

Nýsköpunarverðlaun Íslands eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð og Nýsköpunarsjóði til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og vísindastarfi og náð hefur árangri á markaði.

Skaginn 3X hefur verið leiðandi á svið tækninýjunga fyrir sjávariðnað á Íslandi síðan 1998 og hefur þróað nýjar lausnir í náinni samvinnu við fyrirtæki í sjávariðnaði. Má þar nefna nýja myndavélatækni sem tegunda- og stærðargreinir fiska og nýtist í sjálfvirka flokkun og upplýsingaöflun um borð í skipum og í uppsjávarvinnslum. Þá er SUB-CHILLING ný tækni við kælingu á fiski sem gerir iðnaðinum kleift að sleppa notkun íss við kælingu fersks fisks og stórauka um leið endingartíma og gæði vörunnar. Einnig má nefna heildstæð uppsjávarkerfi sem flokka, frysta og pakka sjálfvirkt. Þessi kerfi hafa stóraukið afköst í uppsjávarverksmiðjum ásamt því að bæta vinnuumhverfi starfsfólks til muna.

Ingólfur Árnason framkvæmdastjóri tók við verðlaununum. Hann segir þau vera mikinn heiður og um leið mikla viðurkenningu til starfsmanna fyrirtækisins fyrir það mikla þróunarstarf sem unnið hefur verið á liðnum árum. „Við höfum haft það að leiðarljósi að auka hagkvæmni við vinnslu sjávarafla og um leið að bæta afrakstur fiskistofna. Verðlaunin eru okkur því ekki síst mikil hvatning í þeim störfum okkar“.

Auglýsing

Bjarni fyrirspurnakóngur Alþingis

Bjarni Jónsson. Mynd: mbl.is / Ómar.

Bjarni Jónsson, varaþingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, er fyrirspurnakóngur Alþingis. Bjarni sat nokkra daga á þingi í fjarveru Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur. Á þessum stutta tíma lagði Bjarni fram 16 fyrirspurnir, þar af 14 á mánudaginn var. Bjarni vildi fá svör við hinum margvíslegustu spurningum, svo sem um vegamál, Hvalfjarðargöng og Spöl, geðheilbrigðisþjónustu barna, laxastofna og stöðu háskóla utan Reykjavíkur, svo eitthvað sé nefnt. Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að undanfarna daga hefur fyrirspurnum rignt yfir ráðherra ríkisstjórnarinnar á Alþingi. Í þessari og síðustu viku hafa alþingismenn lagt fram 53 fyrirspurnir til ráðherranna og óskað eftir munnlegum eða skriflegum svörum. Fyrirspurnirnar voru 30 í síðustu viku og fyrstu tvo dagana í þessari viku eru þær orðnar 23.

Smári

Auglýsing

Leita að 6.107 leikföngum

Á Stóra sviði Þjóðleikhússins, í álfahöllinni miðri, sviðsetur Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri og samverkafólk hans þætti úr sögu íslenskrar leiklistar í leikritinu Álfahöllin sem frumsýnt verður þann 8.apríl. Nú er unnið að því hörðum höndum að fullkomna verkið áður en gestir setjast á bekki hins virðulega húss og bera leiksýninguna augum. Aðstandendur leita nú logandi ljósi að hinum ýmsu leikfangafígúrum til að nota sem hluta af heimi Álfahallarinnar og skal tala þeirra vera 6.107 sem er táknrænt fyrir þau börn sem líða skort á Íslandi um þessar mundir, samkvæmt rannsóknarskýrslu Unicef.

6.107 bangsar, brúður, playmokallar og þess háttar fígúrur óskast og eru án vafa margar slíkar að finna geymslum landsins, þar sem margt dótið endar dagana. Nú getur dótið gengið í gegnum endurnýjun lífdaga, fyrst með frægð á Stóra sviði Þjóðleikhússins, en það sem meira er, er sýningum Álfahallarinnar lýkur verður séð til þess að dótið fái heimili þar sem þess er þörf.

Rauði krossinn á Vestfjörðum býður þeim sem vilja ánafna dóti í þetta verkefni að koma með það á svæðisskrifstofuna sem er í Vestrahúsinu við Suðurgötu 12 á Ísafirði og verður þá séð til þess að það rati í Þjóðleikhúsið og í framhaldi af því aftur í dótakassa barna. Koma má með dótið í dag og á morgun á skrifstofutíma. Fyrir þá sem eru staddir sunnan heiða má koma með leikföngin í miðasölu Þjóðleikhússins á milli kl. 10 og 18 virka daga fram til mánudagsins 3. apríl.

annska@bb.is

Auglýsing

Hagnýt þekking í sögulegu samhengi

Simon Brown

Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða á morgun verður umræðuefnið hagnýt þekking og gagnsemi hennar í sögulegu samhengi. Simon Brown, bandarískur doktorsnemi í sagnfræði við Kaliforníuháskólann í Berkeley, mun flytja erindi og flétta saman sagnfræði, guðfræði og heimspeki. Simon er gestkomandi á Ísafirði um þessar mundir en unnusta hans stundar meistaranám við haf- og strandsvæðastjórnun Háskólasetursins.

Í erindi sínu mun Simon fjalla um sögu hugtaksins „hagnýt þekking“ á nýöld á Englandi. Sagnfræðingar hafa talið hugtakið tilheyra vísindabyltingu 16. og 17. aldar þegar heimspekingar tóku að skrifa um og halda á lofti hugtakinu „hagnýt þekking“  sem væri sú þekking á náttúrunni sem sérfræðingar gætu nýtt sér til efnahagslegs ávinnings. Þessi skrif hafa orðið til þess að hugtakið hefur helst verið tengt læknavísindum, málmiðnaði, landbúnaðarvísindum og öðrum þeim sviðum sem í dag teljast til nátttúruvísinda.

Simon er á annarri skoðun og telur að hugtakið „hagnýt þekking“ sé eldra og megi frekar rekja til siðaskiptanna á Englandi. Í því samhengi merki hugtakið þekking einstaklingsins á kenningum Biblíunnar og hvernig sú þekking þvingar einstaklinginn til að haga sér í samræmi við kristileg siðalögmál. Ávinningurinn af slíkri þekkingu er ekki efnislegur, heldur frekar siðferðilegur og andlegur.

Simon Brown ólst upp í Pittsburgh í Pennsylvania fylki í Bandaríkjum og lauk BA gráðum í sagnfræði og heimspeki frá Háskólanum í Pittsburgh. Hann hóf doktorsnám í sagnfræði við Kaliforníuháskólann í Berkeley árið 2015 þar sem hann rannsakar sögu nýaldar á Englandi með sérstaka áherslu á trúarbrögð og guðfræði í Bretlandi á 17. og 18. öld.

Vísindaportið fer að vanda fram í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða frá 12.10-13.00 á föstudag. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir. Fyrirlesturinn að þessu sinni fer fram á ensku.

Smári

Auglýsing

Hætta að reykja á Hornbjargsvita

Hornbjargsviti.

Valgeir Skagfjörð, leikar og markþjálfi, stendur fyrir námskeiði námskeiði í samvinnu við Ferðafélag Íslands, um það hvernig losna má frá nikótínfíkninni, á Hornbjargsvita í byrjun júlí. „Þarna verðum við að þrauka þessa daga og það þarf ansi mikla skuldbindingu að ákveða að fara á hjara veraldar til að takast á við verkefnið að hætta að reykja,“ segir Valgeir í Morgunblaðinu í dag. Námskeiðið byggir á því að reykingamaðurinn fari í burtu úr sínu venjulega umhverfi – út fyrir þægindarammann og takist á við verkefnið ótruflaður. „Þarna getur fólk ekki nálgast neinn varning og það fer enginn út í sjoppu.“ Hugmyndina sækir Valgeir til Halldórs vitavarðar Halldórssonar, sem er skálavörður Ferðafélagsins á Hornbjargsvita.

Smári

Auglýsing

Bæjarins besta 13. tbl. 34. árgangur

13. tbl 2017
13. tbl 2017
Auglýsing

Nýjustu fréttir