Íslandsbanki og Orkubúið aðalstyrktaraðilar Fossavatnsgöngunnar.

Frá vinstri: Daníel Jakobsson formaður Fossavatnsgöngunnar, Hallgrímur Magnús Sigurjónsson útibússtjóri Íslandsbanka og Kristbjörn R. Sigurjónsson framkvæmdastjóri Fossvatnsgöngunnar.

Í gær skrifuðu forsvarsmenn Fossavatnsgöngunnar undir samninga við Íslandsbanka og Orkubú Vestfjarða sem gera fyrirtækin að aðalstyrktaraðilum göngunnar. Með því taka fyrirtækin þátt í að efla gönguna og skíðagönguíþróttina í Ísafjarðarbæ, en meginmarkið göngunnar er sem kunnugt er fjáröflun fyrir Skíðafélag Ísfirðinga.

„Það er ánægjulegt að sjá að þessi tvö öflugu fyrirtæki eru tilbúin að taka þátt í þessum flotta viðburði sem við höfum byggt upp hér á Ísafirði. Þessir samningar eru okkur afar miklilvægir, ekki bara fjárhagslega heldur líka sú viðurkenning sem felst í því að fyrirtækin sjái sér hag í að tengjast göngunni.“ segir Kristbjörn R. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Fossavatnsgöngunnar.

Kristbjörn og Elías Jónatansson orkubústjóri handsala samninginn.

Íslandsbanki hefur í árafjöld verið tryggur bakhjarl Fossavatnsgöngunnar og Skíðafélagsins. Orkubúið hefur einnig verið í innsta hring velunnara göngunnar og í ár hefur fyrirtækið ákveðið að gefa í og auka við framlag sitt og verður ásamt Íslandsbanka aðalstyrktaraðili göngunnar. Fyrirtækin gera fjögurra ára samning við gönguna.

„Við höfum verið bakhjarl göngunnar um árabil og þetta samstarf hefur verið  farsælt. Það er okkur því sönn ánægja að geta stutt við þennan stóra viðurð sem er samfélaginu til mikils sóma,“ segir Hallgrímur Magnús Sigurjónsson, útibússtjóri Íslandsbanka á Ísafirði.

Elías Jónatansson orkubússtjóri segir ánægjulegt fyrir fyrirtækið að geta tengst skíðaíþróttinni og Fossavatnsgöngunni með enn betri hætti en áður. „Orkbúið vill vera bakhjarl á sínu starfsvæði og vekja athygli á því öfluga mannlífi sem hér er. Fossavatnsgangan er slíkt verkefni. Ekki skemmir svo fyrir að gangan fer fram á starfsvæði félagsins, það er fjalllendi Skutulsfjarðar og gengið er á snjó sem breytist svo í vatn og í framhaldinu raforku sem Orkubúið selur“ segir Elías.

Smári

DEILA