Fimmtudagur 15. maí 2025
Heim Blogg Síða 2111

Kostnaðarþátttaka afnumin hjá 94% grunnskólabarna

Velferðarvaktin fól Maskínu að gera könnun á kostnaðarþátttöku grunnskólabarna í skólagögnum, s.s. ritföngum og pappír, í júlí og ágúst sl.  Leiddi hún í ljós að sveitarfélög sem ráku skóla fyrir um 38% grunnskólabarna landsins höfðu afnumið kostnaðarþátttöku þeirra í skólagögnum frá og með yfirstandandi skólaári.

Í kjölfar könnunarinnar hvatti Velferðarvaktin öll sveitarfélög til þess að skoða niðurstöður hennar í tengslum við gerð fjárhagsáætlana sinna fyrir næsta skólaár, 2018-2019.

Frá því að könnunin var gerð hafa fjölmörg sveitarfélög, þar sem alls búa um 56% grunnskólabarna landsins, bæst í hóp þeirra sem afnema kostnaðarþátttöku af þessu tagi og hafa komið þeim upplýsingum á framfæri við Velferðarvaktina eða á opinberum vettvangi. Þar vegur Reykavíkurborg þyngst, með um 14.000 grunnskólanemendur á sínum snærum.

Alls búa því nú að minnsta kosti 40.859 börn, eða 94% grunnskólanemenda landsins ,  í sveitarfélögum þar sem búið er að taka ákvörðun um að afnema kostnaðarþátttöku vegna námsgagna á næsta skólaári, 2018-2019.

Þau börn sem eftir standa búa, samkvæmt könnuninni, í sveitarfélögum sem hafa ýmist dregið úr kostnaðarþátttökunni, svöruðu ekki könnuninni, sögðust ekki hafa stefnu í málinu eða gætu ekki svarað. Einnig er hugsanlegt að í einhverjum þessara sveitarfélaga hafi verið tekin ákvörðun um að afnema kostnaðarþátttöku án þess að Velferðarvaktinni sé kunnugt um það.

Þau sveitarfélög á Vestfjörðum sem útvega nemendum skólagögn á yfirstandandi skólaári eru: Árneshreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Reykjólahreppur, Súðavíkurhreppur, Tálknafjarðarhreppur og Ísafjarðarbær.

Auglýsing

Opið á dalnum í dag

Skíðasvæði Ísfirðinga, bæði í Tungudal og skíðgöngusvæðið Seljalandsdal, verða opin frá klukkan 12-17 en þar var opnun frestað í morgun vegna hvassviðris, en hviður náðu 19 -20 metrum á sekúndu. Ljómandi veður er á Ísafirði nú eftir hádegi, kalt en bjart og hægur vindur og tilvalið að bregða sér á skíði og fá smá líf í útlimina eftir slímsetu jólanna. Skíðasvæðið verður opið alla daga kl. 12 – 17 fram á gamlársdag, ef veður leyfir eins og allt útlir er fyrir.

Skíðasvæðið opnar á nýjan leik 2. janúar.

Auglýsing

Ferðaþjónustan skilar 40% af gjaldeyristekjunum

Starf­semi tengd farþega­flutn­ing­um og ferðaskrif­stof­um var ekki virðis­auka­skatt­skyld fyrr en í árs­byrj­un 2016 og skekkir það samanburð milli ára.

Gjald­eyris­tekj­ur þjóðar­inn­ar vegna ferðaþjón­ustu á þessu ári munu nema um 535 millj­örðum króna á þessu ári gangi spá Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar eft­ir. Það nem­ur um 40% af gjald­eyris­tekj­um þjóðar­inn­ar og 15,5% aukn­ingu milli ára.  Þetta kem­ur fram í áætl­un sam­tak­anna sem Frétta­blaðið grein­ir frá í dag. Þetta er í takt við það sem gert hafi verið ráð fyr­ir og sýnir fram á mik­il­vægi ferðaþjón­ust­unn­ar fyrir þjóðarbúskapinn. Bent er á að þetta sé minni vöxt­ur en fjölg­un ferðamanna milli ára. Vís­ar Helga til erfiðra ytri skil­yrða og versn­andi sam­keppn­is­hæfni eins og sterks geng­is krón­unn­ar sem ástæðna fyr­ir því. Þá dvelji ferðamenn skem­ur og nýti sé ekki þjón­ustu í jafn mikl­um mæli og áður.

Auglýsing

Fundu draugaskip

Það var skipslagið á þústinni sem olli því að grennslast var fyrir um skipsflök á þessum slóðum hjá Landhelgisgæslunni. Skipið er greinilega á réttum kili á botninum. Yfirleitt liggja flök á hliðinni og koma fram sem lágar þústir eins og sú sem sést hægra megin við Þrym og er líklega flak sem hvergi er á skrá. Horft út fjörðinn. Mynd: Ísor.

Við jarðfræðikort­lagn­ingu á hafs­botn­in­um um­hverf­is landið, sem fyr­ir­tækið ÍSOR stend­ur fyr­ir, rák­ust menn á svo­lítið at­huga­vert í Tálknafirði. Töldu þeir að um svo­kallaðar hver­astrýt­ur væri að ræða og var nýr jarðhitastaður því merkt­ur inn á kortið.

Þóttu hver­astrýt­urn­ar ansi mik­il­feng­leg­ar og minna á skip á sigl­ingu. Á dag­inn kom þó að ekki var allt sem sýnd­ist. „Í fram­hald­inu leiddi það sem var svo skemmti­legt við strýt­urn­ar til þeirr­ar óskemmti­legu niður­stöðu að þetta var í raun skips­flak sem minnti á hver­astrýt­ur en ekki hver­astrýt­ur sem minntu á skips­flak,“ seg­ir í frétt á heimasíðu fyr­ir­tæk­is­ins.

Um var að ræða stál­skipið Þrym BA-7 sem hafði legið lengi uppi í fjöru á hafn­ar­svæði Tálkna­fjarðar. Þaðan hvarf það svo á dul­ar­full­an hátt um miðja nótt í nóv­em­ber árið 1997 og sást aldrei fram­ar. Málið var rann­sakað sem saka­mál á sín­um tíma en var aldrei fylli­lega upp­lýst.

„Þessi niðurstaða olli von­brigðum því óneit­an­lega hefði verið skemmti­legra að finna hver­astrýt­ur og jarðhita held­ur en gam­alt drauga­skip.“

Auglýsing

Vill afnám virðisaukaskatts á fjölmiðlum

Óli Björn Kárason. Mynd: mbl / Rax

Af­nám virðis­auka­skatts af áskrift­um prent-, ljósvaka- og net­miðla get­ur orðið mik­il­vægt skref í átt að því að styrkja rekst­ur sjálf­stæðra fjöl­miðla. Og um leið leiðrétta, þó ekki sé nema að litlu leyti, stöðuna gagn­vart Rík­is­út­varp­inu.

Þetta skrif­ar Óli Björn Kára­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins og formaður efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar, í grein sinni í Morg­un­blaðinu í dag. Enn­frem­ur skrif­ar Óli Björn að af­nám virðis­auka­skatts­ins væri yf­ir­lýs­ing um nauðsyn þess að leiðrétta sam­keppn­is­stöðu á fjöl­miðlamarkaði og gera hana ör­lítið sann­gjarn­ari og heil­brigðari.

Auglýsing

Flugeldar: gæði betri en magn

Íslendingar eru frægir fyrir að skjóta upp heil ósköp af flugeldum á nýársnótt. Til að mynda keypti hver Íslendingur 1,8 kg af flugeldum árið 2015 samanborið við 1 kg hjá Dönum. Umhverfisstofnun minn á áramótin síðustu þegar slíkt magn af svifryki safnaðist upp yfir Reykjavík að erfitt var orðið að sjá litadýrðina. Um nóttina var úrkomulaust og veðurstilla sem leiddi til þess að allt svifrykið sem myndaðist við sprengingarnar náði að svífa lengi um andrúmsloftið. Þetta leiddi til þess að hálftímastyrkur efnisins náði upp í tæp 2500 µg/m3 rétt eftir miðnætti en til viðmiðunar þá var hæsta hálftímagildi vikuna áður um 170 µg/m3. Í kjölfarið mátti sjá þann 1. janúar 2017 að sólarhringsstyrkur svifryks var um 160 µg/m3 en heilsuverndarmörkin eru 50 µg/m3. Svifryksstyrkur þennan sólarhring var því rúmlega þrefalt leyfilegt sólarhringsgildi fyrir efnið og til viðbótar má nefna að sólarhringsmeðaltal svifryks yfir hvert ár er yfirleitt undir 20µg/m3 á höfuðborgarsvæðinu.

Auk neikvæðra áhrifa svifryks á menn og dýr, geta verið margskonar önnur efni í flugeldum. Þar má nefna þungmálma á borð við blý, kopar og sink.

Umhverfisstofnun hvetur landsmenn til að njóta áramótanna og leyfa sér að skjóta aðeins upp en minnir á að gæði eru betri en magn. „Vöndum valið á flugeldum, kaupum færri og njótum betur,“ segir í tilkynningu.

Auglýsing

Kalt fram á nýár

 Í dag verður norðlæg átt á land­inu, 8-15 m/​s og él Norðan- og Aust­an­lands, en ann­ars bjartviðri að mestu. Hæg­ir til seint í dag. Frost á bil­inu 1 til 12 stig í dag. Á Vestfjörðum verður norðaustan 8-15 m/s með éljum, en 5-13 seint í dag, hvassast nyrst. Frost 1 til 8 stig.

Á land­inu öllu er gert ráð fyr­ir að frost herði þegar líður á morg­undag­inn, verði á milli 3 og 15 stig, kald­ast inn til lands­ins. Á föstu­dag er gert ráð fyr­ir aust­lægri átt, 5 til 13 m/​s og víða élj­um eða dá­lít­illi snjó­komu, síst þó á Suður- og Vest­ur­landi. Kalt í veðri, en dreg­ur úr frosti norðaust­an til.

Um helg­ina og fram á nýtt ár er út­lit fyr­ir norðan- og norðaustanátt með élj­um eða snjó­komu víða á land­inu, en yf­ir­leitt bjartviðri suðvest­an til. Áfram kalt í veðri.

Þriðju­dag­inn 2. janú­ar er svo gert ráð fyr­ir vax­andi suðaust­an átt með úr­komu og hlýn­andi veðri.

Færð á vegum

Búið er að hreinsa í kringum þéttbýli á Vestfjörðum en unnið er að mokstri á langleiðum. Klettsháls er ófær, Steingrímsfjarðarheiði er þungfær og þæfingsfærð í Djúpinu. Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði eru ófærar.  Áætlað er að opna norður í Árneshrepp á morgun.

Auglýsing

Persónuafsláttur hækkar um áramót

Alþingi

Samkvæmt gildandi lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal í upphafi árs hækka persónuafslátt hvers einstaklings í samræmi við hækkun á vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði.

Á grundvelli þess verður persónuafsláttur 646.739 kr. fyrir árið 2018, eða 53.895 á mánuði. Persónuafsláttur einstaklinga hækkar um 11.859 kr. milli áranna 2017 og 2018, eða um 988 kr. á mánuði og nemur hækkunin 1,9%.

Skattleysismörk tekjuskatts og útsvars verða samkvæmt því 151.978 kr. á mánuði að teknu tilliti til 4% lögbundinnar iðgjaldsgreiðslu launþega í lífeyrissjóð, samanborið við 149.192 kr. á mánuði árið 2017. Hækkun skattleysismarka milli ára nemur 1,9%.

Þegar tekjur ná skattleysismörkum byrjar launþegi að greiða útsvar til sveitarfélags síns. Hann byrjar hins vegar ekki að greiða tekjuskatt til ríkisins fyrr en tekjur ná 249.514 kr. á mánuði árið 2018, samanborið við 244.940 kr. á mánuði árið 2017.

Tekjuskattur og útsvar í staðgreiðslu

Þrepamörk tekjuskatts uppreiknast samkvæmt lögum í upphafi ársins í réttu hlutfalli við hækkun á launavísitölu á undangengnu tólf mánaða tímabili (nóv. til nóv.) Launavísitala nóvembermánaðar liggur nú fyrir og er hækkun hennar á tólf mánaða tímabili 7,1%. Þrepamörk tekjuskatts verða samkvæmt því við 10.724.553 kr. árstekjur (893.713 kr. á mánuði) fyrir árið 2018.

Tekjuskattsprósentur eru óbreyttar frá fyrra ári, 22,50% í neðra þrepi, og 31,8% í efra þrepi.
Útsvar til sveitarfélaga er líkt og tekjuskattur innheimt í staðgreiðslu og er það mishátt eftir sveitarfélögum. Þau geta samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga ákveðið útsvar á bilinu 12,44% til 14,52%. Af 74 sveitarfélögum leggja 56 á hámarksútsvar.

Tryggingagjald er óbreytt milli ára.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Fannst látin

Í gærmorgun voru björgunarsveitir á norðanverðum Vestfjörðum kallaðar út til leitar að fullorðinni konu sem virðist hafa farið fótgangandi af dvalarstað sínum í Bolungarvík í nótt eða snemma í morgun.

Um hádegisbil fann björgunarsveitarfólk konuna við höfnina í Bolungarvík. Hún reyndist látin.

Andlát konunnar er ekki talið hafa borið að með saknæmum hætti en ekki er hægt að greina frá nafni hennar en fjölskyldu og nánustu ættmennum er kunnugt um andlátið.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Skaginn 3X semur við Varðinn Pelegic

Íslenska hátæknifyrirtækið Skaginn 3X og færeyska útgerðafélagið Varðin Pelagic hafa undirritað samning um vinnslubúnað fyrir nýja uppsjávarvinnslu færeyska fyrirtækisins. Vinnslan verður staðsett á Suðurey en um er að ræða þá stærstu sinnar tegundar í heiminum. Nýja vinnslan mun hafa afkastagetu fyrir allt að 1.300 tonn af pakkaðri vöru á sólarhring með möguleika til stækkunar allt að 1.700 tonnum á sólarhring.

Auk Skagans 3X koma fyrirtækin Frost og Rafeyri á Akureyri að verkinu ásamt fleiri íslenskum fyrirtækjum.

Skaginn 3X hafði áður sett upp heildarvinnslu fyrir Varðin Pelagic árið 2012, sem á sínum tíma var stærsta og fullkomnasta uppsjávarvinnsla í heiminum. Húsnæðið sem hýsti vinnsluna brann í júní síðastliðinn og síðan hefur Varðin Pelagic farið út í mikinn og nákvæman samanburð á lausnum til að geta byggt upp að nýju. „Það var skylda okkar að skoða alla kosti sem voru í boði og einnig að hlusta á kröfur viðskiptavina okkar og aftur höfum við komist að þeirri niðurstöðu að lausnin frá Skaganum 3X sé sú framúrskarandi lausn sem mætir okkar kröfum best“ segir Bogi Jacobsen, forstjóri Varðin Pelagic.

“Þetta er stærsti samningur í sögu fyrirtækisins og að mér vitandi, stærsti samningur sem íslenskt tæknifyrirtæki hefur gert“ segir Ingólfur Árnason, framkvæmdarstjóri Skagans 3X og bætir við „Það er mikil viðurkenning í því fólgin að Varðin hafi aftur valið okkur og er sönnun þess að okkar lausn er í senn áreiðanleg og framsækin“ segir Ingólfur.

Skaginn 3X hefur undanfarið gert fjölda samninga um nýjar lausnir í uppsjávariðnaði og má þar helst nefna uppsetningu á nýrri verksmiðju fyrir Eskju á Eskifirði, samning við France Pélagique um nýja kynslóð sjálfvirkrar vinnslu fyrir skip að auki samningsins við Varðin Pelagic. Allar þessar lausnir eru stór skref í framþróun á sjálfvirknivæðingu og bættum gæðum afurða. Vinnslan nýja er byltingarkennd heildarlausn fyrir uppsjávariðnaðinn þar sem sérstök áhersla er lögð á umhverfisvernd, skilvirkni og afurðagæði. “Fjölbreyttir möguleikar í framleiðslu og pökkun eru mikilvægir til að fullnýta auðlindir hafsins og til að mæta auknum kröfum markaðarins” segir Ingólfur.

Auglýsing

Nýjustu fréttir