Persónuafsláttur hækkar um áramót

Alþingi

Samkvæmt gildandi lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal í upphafi árs hækka persónuafslátt hvers einstaklings í samræmi við hækkun á vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði.

Á grundvelli þess verður persónuafsláttur 646.739 kr. fyrir árið 2018, eða 53.895 á mánuði. Persónuafsláttur einstaklinga hækkar um 11.859 kr. milli áranna 2017 og 2018, eða um 988 kr. á mánuði og nemur hækkunin 1,9%.

Skattleysismörk tekjuskatts og útsvars verða samkvæmt því 151.978 kr. á mánuði að teknu tilliti til 4% lögbundinnar iðgjaldsgreiðslu launþega í lífeyrissjóð, samanborið við 149.192 kr. á mánuði árið 2017. Hækkun skattleysismarka milli ára nemur 1,9%.

Þegar tekjur ná skattleysismörkum byrjar launþegi að greiða útsvar til sveitarfélags síns. Hann byrjar hins vegar ekki að greiða tekjuskatt til ríkisins fyrr en tekjur ná 249.514 kr. á mánuði árið 2018, samanborið við 244.940 kr. á mánuði árið 2017.

Tekjuskattur og útsvar í staðgreiðslu

Þrepamörk tekjuskatts uppreiknast samkvæmt lögum í upphafi ársins í réttu hlutfalli við hækkun á launavísitölu á undangengnu tólf mánaða tímabili (nóv. til nóv.) Launavísitala nóvembermánaðar liggur nú fyrir og er hækkun hennar á tólf mánaða tímabili 7,1%. Þrepamörk tekjuskatts verða samkvæmt því við 10.724.553 kr. árstekjur (893.713 kr. á mánuði) fyrir árið 2018.

Tekjuskattsprósentur eru óbreyttar frá fyrra ári, 22,50% í neðra þrepi, og 31,8% í efra þrepi.
Útsvar til sveitarfélaga er líkt og tekjuskattur innheimt í staðgreiðslu og er það mishátt eftir sveitarfélögum. Þau geta samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga ákveðið útsvar á bilinu 12,44% til 14,52%. Af 74 sveitarfélögum leggja 56 á hámarksútsvar.

Tryggingagjald er óbreytt milli ára.

bryndis@bb.is

DEILA