Flugeldar: gæði betri en magn

Íslendingar eru frægir fyrir að skjóta upp heil ósköp af flugeldum á nýársnótt. Til að mynda keypti hver Íslendingur 1,8 kg af flugeldum árið 2015 samanborið við 1 kg hjá Dönum. Umhverfisstofnun minn á áramótin síðustu þegar slíkt magn af svifryki safnaðist upp yfir Reykjavík að erfitt var orðið að sjá litadýrðina. Um nóttina var úrkomulaust og veðurstilla sem leiddi til þess að allt svifrykið sem myndaðist við sprengingarnar náði að svífa lengi um andrúmsloftið. Þetta leiddi til þess að hálftímastyrkur efnisins náði upp í tæp 2500 µg/m3 rétt eftir miðnætti en til viðmiðunar þá var hæsta hálftímagildi vikuna áður um 170 µg/m3. Í kjölfarið mátti sjá þann 1. janúar 2017 að sólarhringsstyrkur svifryks var um 160 µg/m3 en heilsuverndarmörkin eru 50 µg/m3. Svifryksstyrkur þennan sólarhring var því rúmlega þrefalt leyfilegt sólarhringsgildi fyrir efnið og til viðbótar má nefna að sólarhringsmeðaltal svifryks yfir hvert ár er yfirleitt undir 20µg/m3 á höfuðborgarsvæðinu.

Auk neikvæðra áhrifa svifryks á menn og dýr, geta verið margskonar önnur efni í flugeldum. Þar má nefna þungmálma á borð við blý, kopar og sink.

Umhverfisstofnun hvetur landsmenn til að njóta áramótanna og leyfa sér að skjóta aðeins upp en minnir á að gæði eru betri en magn. „Vöndum valið á flugeldum, kaupum færri og njótum betur,“ segir í tilkynningu.

DEILA