Miðvikudagur 14. maí 2025
Heim Blogg Síða 1832

Tveir Ísfirðingar á Vetrarólympíuhátíð æskunnar

Framkvæmdastjór ÍSÍ hefur samþykkt að senda 13 keppendur á Vetrarólympíuhátíð æskunnar sem vrða haldnir 9.- 16. febrúar næstkomandi í Sarajevo í Bosníu Herzegóníu.

Keppnisgreinar á leikunum eru alpagreinar, skíðaskotfimi, skíðaganga, íshokkí, skautahlaup, listskautar, krulla og snjóbrettagreinar. Keppendur koma frá 46 Evrópuþjóðum og verða yfir eitt þúsund talsins.

Ólympíuhátíðin er sett með athöfn sem nær hámarki þegar Ólympíueldur er tendraður og hátíðinni lýkur með lokaathöfn og skemmtun. Hátíðin hefur verið mikilvæg fyrir ungt íþróttafólk álfunnar í gegnum tíðina. Margir af fyrri keppendum á hátíðinni hafa síðar náð alla leið á efsta getustigi í sínum greinum.

Af þrettán keppendum eru tveir frá Ísafirði. Það eru þeir Jakob Daníelsson og Kolfinna Íris Rúnarsdóttir sem keppa bæði í skíðagöngu. Þjálfari skíðagöngufólksins verður Tormod Vatten. Þriðji skíðagöngukeppandinn Egill Bjarni Gíslason, frá Akureyri, er reyndar tengdur Ísafirði en föðurfólk hans eru Ísfirðingar. Alls eru fjórir keppendur í skíðagöngu frá Íslandi.

Auglýsing

Unnið að framkvæmd byggðaáætlunar

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið vinnur í samstarfi við stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál, landshlutasamtök sveitarfélaga og fleiri aðila, að framkvæmd stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018 til 2024.

Áætlunin lýsir stefnu ríkisins í byggðamálum og er ætlað að stuðla að jákvæðri þróun byggða um land allt og bæta skilyrði til búsetu segir í tilkynningu frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.

Meginmarkmið hennar er að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sérstök áhersla er lögð á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.

54 aðgerðir byggðaáætlunar

Áætlunin er um 54 aðgerðir og verða 30 þeirra fjármagnaðar af byggðalið fjárlaga, samtals að upphæð 3,5 milljarðar á tímabilinu.

Kostnaður við áætlunina verður umtalsvert meiri en það fjármagn sem kemur af byggðalið fjárlaga. Með samþættingu við aðrar opinberar áætlanir verður hægt að fjármagna aðgerðir.

160 milljónum úthlutað úr samkeppnissjóðum

Sérstök valnefnd hefur verið skipuð sem annast mat á umsóknum um styrki á grundvelli byggðaáætlunar, en hana skipa þau Elín Gróa Karlsdóttir, verkefnisstjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Magnús Karel Hannesson, fv. starfsmaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, sem var formaður. Með valnefnd starfa Jóhanna Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í ráðuneytinu og Sigríður K. Þorgrímsdóttir, sérfræðingur hjá Byggðastofnun.

Á árinu 2018 var auglýst eftir umsóknum um styrki vegna þriggja aðgerða byggðaáætlunar þ.e. sértækra verkefna sóknaráætlana, fjarvinnslustöðva og verslunar í strjálbýli. Alls var úthlutað 160 m.kr. til 19 verkefna á grundvelli aðgerðanna þriggja.

skipting fjárheimilda 2019 og nýjar auglýsingar
Á næstu dögum mun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra birta yfirlit yfir skiptingu fjármuna byggðaáætlunar eftir aðgerðum og einstökum verkefnum á sviði byggðamála, á grundvelli framangreindra reglna og með vísan til fjárheimilda

 

Auglýsing

Tungumálatöfrar – skráning fyrir 2019 hafin

Opnað hefur verið fyrir skráningar á Tungumálatöfra 2019. Skráningarform má nálgast hér: https://bit.ly/2QFJofa
Tungumálatöfrar er íslenskunámskeið með listsköpun og leik fyrir 5 – 11 ára krakka sem fer fram í Edinborgarhúsinu á Ísafirði dagana 5. – 10. ágúst 2019. Námskeiðið er hugsað fyrir öll börn með sérstaka áherslu á íslensk börn sem að hafa fæðst eða flutt erlendis og börn af erlendum uppruna sem sest hafa að hér á landi. Á lokadeginum verður svo Töfraganga sem endar með bæjarhátíð í Suðurtanga. Þar standa bæjarbúar af ólíkum uppruna fyrir fjölskylduskemmtun með leikjum, sögum, myndlist og matarupplifun.

Gjald er 20.000 krónur fyrir hvert barn – 30.000 fyrir tvö börn úr sömu fjölskyldu. Námskeiðið er í fjórar klukkustundir dag hvern og lýkur með skrúðgöngu og fjöslskylduskemmtun á laugardegi. Matur og allur efniskostnaður er innifalinn.

Nánari upplýsingar á síðu Edinborgarhúss og Facebook síðu Tungumálatöfra.

Auglýsing

SFS: gerir athugasendir við áhættumatið

Landssamband fiskeldisstöðva gekk á dögunum inn í samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar eru því SFS sem senda inn fyrir þerira hönd til stjórnvalda umsögn um  drög að lagafrumvarpi um breytingu á ýmsum lagafrumvörpum sem tengjast fiskeldi.

Auðlindin er sjávarrýmið

Í umsögninni segir að auðlindin sem sjókvíaeldi á laxi nýtir er rýmið til fiskeldis. Burðarþolsmatinu er ætlað að meta afrakstursgetu auðlindarinnar og metið er þol hennar  til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið.
Laxeldi í sjókvíum getur haft óæskileg hliðaráhrif á aðra hagsmuni og er því mikilvægt að draga úr slíkum hliðaráhrifum með hagkvæmum hætti með mótvægisaðgerðum.

Burðarþol og svo áhættumat

Þegar burðarþolsmatið liggur fyrir er komið að afleiðingunum. Þá eru athuguð neikvæð áhrif fyrirhugaðs eldis á aðra hagsmuni og tekin tillit til þeirra, að gefnum mótvægisaðgerðum, með takmörkun á umfangi eldisins ef þurfa þykir. Áhættumatinu er ætlað að meta slík áhrif vegna mögulegrar erfðablöndunar eldisfisks við villta laxastofna.

Samtökin segja því  að  eðlilegri röð ákvæða væri sú, að lagagreinin um burðarþolsmat kæmi á undan greininni um áhættumat.

Hlutverk Hafrannsóknarstofnunar

Hafrannsóknastofnun er vísindaleg rannsóknastofnun, segir í umsögninni. Mjög mikilvægt er að álit hennar sé ráðgefandi vegna bæði stefnumótunar stjórnvalda og ákvarðanatöku leyfisveitanda og eftirlitsaðila. Mikilvægt er að forðast að hinn vísindalegi ráðgjafi hafi hlutverk stjórnvalds því að slíkt fyrirkomulag væri vond stjórnsýsla og græfi undan trúverðugleika hins vísindalega ráðgjafa.

Með öðrum orðum hlutverk vísindastofnunar er ráðgjöf en ekki að vera stjórnvald.

Nýtingarstefna í fiskeldi verði ávallt nýtingarstefna stjórnvalda, en ekki nýtingarstefna ráðgjafanna.

Athugasemdir við áhættumatið

Gerðar eru nokkrar athugasemdir við ákvæði frumvarpsdraganna um áhættumatið.

Í fyrsta lagi verði áhættumatið uppfært svo oft sem þurfa þykir í ljósi þróunar og þekkingar og raunhæfra mótvægisaðgerða, en þó eigi sjaldnar en einu sinni á ári.

Í öðru lagi  verði áhættumat á hverjum tíma byggt á mismunandi og ólíkum forsendum og valkostum um eldisaðgerðir og mótvægisaðgerðir og niðurstöður birtar sem tafla með mati á ólíkum valkostum. Mikilvægi slíks fyrirkomulags kemur til af því, að eðlilegast hlýtur að teljast að áhættumatinu sé ætlað að nýtast sem vísindaleg ráðgjöf sem gagnist stjórnvöldum við mótun og þróun stefnu á sviði auðlindanýtingar með laxeldi.

Í þriðja lagi verði  mótvægisaðgerða flokkaðar í tvo flokka:

1) Fyrsta stigs mótvægisaðgerðir. Þær fara fram eldisstað. Dæmi um slíkar mótvægisaðgerðir eru notkun stærri seiða og smærri möskva til að draga úr seiðasleppingum, beiting ljósastýringar til að draga úr líkum á kynþroska, o.s.frv. Þess má vænta að þróun í eldistækni og fyrsta stigs mótvægisaðgerðum geti á hverjum tíma verið til þess fallin að draga enn frekar úr áhættu á erfðablöndun.

2) Annars stigs mótvægisaðgerðir. Þær fara fram í ánum. Er þá fylgst á reglubundinn hátt með komu eldisfiska, t.d. með notkun myndavéla, og brugðist við og eldisfiskar fjarlægðir á kostnað eldisaðila, annað hvort með vöktun og veiði eða með því að virkja gildrur við árnar.
Umsögninni um áhættumatið lýkur með þessum orðum:

Að mati samtakanna eru virkar varnir og mótvægisaðgerðir, bæði fyrsta stigs og annars stigs, ábyrgasta leiðin til að lágmarka áhættu. Mikilvægt er að reiknað áhættumat taki fullt tillit til þessara þátta.

Auglýsing

Samgönguráðherra: umferðaröryggi er forgangsmál

Sigurður ingi Jóhannsson, samgönguráðherra.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra segir í færslu á facebook í gær að umferðaröryggi eigi að vera forgangsmál.

Þá segir hann:

„Banaslys og alvarleg slys í umferðinni eru alltof mörg. Vegagerðin hefur unnið ötullega að öryggisaðgerðum á þjóðvegum við að bæta merkingar. Nú fyrir skemmstu ákvað Vegagerðin að lækka hámarkshraða í 50 km/klst. við allar einbreiðar brýr þar sem umferð er meiri en 300 bílar á dag, að jafnaði. Einnig er unnið að því að eyða svartblettum, eins og t.d. að lengja vegrið eða laga vegfláa til að draga úr hættu á að fólk slasist alvarlega við útafakstur. Síðast en ekki síst er brýnt að fjölga stöðum meðfram vegum þar sem ferðamenn geta stöðvað til að njóta landsins án þess að valda sjálfum sér eða öðum hættu.“

Athyglisvert er að ráðherrann vekji sérstaklega máls á þessu atriði núna þegar framundan er fundur með forsvarsmönnum Reykhólahrepps um vegamál í Gufudalssveit. Af þessu má ráða að ráðherrann muni líta fyrst á umferðaröryggið við val á leið. Þá má velta því upp hvernig ráðherrann muni telja best að verja þeim rúmum 7 milljörðum króna sem verða til ráðstöfunar á næstu tveimur árum ef Þ-H leiðinni verður hafnað. Miðað við áherslurnar í færslunni mun verða litið á þær framkvæmdir sem draga mest úr slysum og auka öryggi umferðinni á landsvísu. Þær framkvæmdir eru ekki á Vestfjörðum.

 

Auglýsing

Bolungavík: vill fiskeldi í Djúpið og auðlindagjöld til sveitarfélaga

Bolungavík. Mynd: vikari.is.

Bæjarráð Bolungavík hélt fyrst fund sinn á nýju árið þann 8. janúar. Þar var meðal annarra mála rætt um  drög að lögum um breytingu á fiskeldislögum og drög að lögum um gjaldtöku af fiskeldi.

Samþykkt var að bæjarráð Bolungarvíkur „leggur áherslu á mikilvægi þess að fiskeldi í Ísafjarðardjúpi hefjist semt fyrst og núverandi áhættumat verði endurmetið við fyrsta tækifæri.
Bæjarráð Bolungarvíkur leggur jafnframt áherslu á að í fiskeldislögum og í lögum um gjaldtöku af fiskeldi komi skýrt fram að auðlindagjöld hvers konar af fiskeldi renni til uppbyggingar í sveitarfélögum á Vestfjörðum.“

Bæjarstjóra var falið að vinna með öðrum sveitarfélgöum á Vestfjörðum að umsögn um áðurnefnd frumvörp.

Auglýsing

Fyrstu kynni – Grænlendingar á Ísafirði

Grænlendingarnir að njóta ísfirskrar náttúru.

Í gær var opnuð í Reykjavík sýningin Fyrstu kynni – Grænlendingar á Ísafirði í Veröld, húsi Vigdísar. Fjallað er um heimsókn tæplega 90 Grænlendinga til Ísafjarðar árið 1925. Áður hefur þessari heimsókn verið gerð skil á Ísafirði. Sýningarhöfundur er Sumarliði R. Ísleifsson. Margar ljósmyndir eru sýndar sem teknar voru þá. Það var einkum danski ljósmyndarinn Marinus Simson sem búsettur var á Ísafirði og Thyra Juul, einnig dönsk. Sýndar eru bækur sem tengjast Grænlandi.

Tildrög heimsóknar Grænlendinganna eru þau að inúítar sem bjuggu í grennd við Ammassalik fluttust til Scoresbysunds að áeggjan danskra stjórnvalda og kom fólkið við á Ísafirði á leið sinni, meðal annars til þess að sækja vistir. Þá þurfti að vígja prest til þess að þjóna nýju byggðinni og það var einfaldlega auðveldara að fara til Ísafjarðar til þess en að ferðast mun lengra til annarra byggðarlaga á Grænlandi.

Fjölmenni var við opnunina og mátt þar sjá margan Vestfirðinginn.

Svona var Ísafjörður 1925.
Hér má sjáfyrir miðju Ísfirðinginn Magnús Jóhannesson, fyrrv ráðuneytisstjóra.
Bolvíkingurinn og Ísfirðingurinn Guðmundur Magnús Kristjánsson (Muggi) til vinstri og Ólafur Engilbertsson frá Tyrðilmýri á Snæfjallaströnd til hægri.
Jón Elíasson, Bolvíkingur lét sig ekki vanta.

 

Auglýsing

Mokað á morgun í Árneshrepp

Frá Norðurfirði. Mynd: Árneshreppur.

Vegagerðin mun hefja mokstur á morgun norður í Árneshrepp. Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti sagði í samtali við Bæjarins besta að það væri kominn töluverður snjór og það hefði snjóað mikið í logni síðustu daga.

G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar staðfesti að Vegagerðin hefði samþykkt að ráðast í moksturinn sem helmingamokstur. Það þýðir að sveitarfélagið Árneshreppur mun greiða helminginn af kostnaðinum. Miðað er við að fært verði fyrir fjórhjóladrifin ökutæki. Eva kvaðst ekki vita hver kostnaður hreppsins gæti orðið en sagðist vera bjartsýn og skaut á 100 – 150 þúsund krónur.

Ákvörðunin nú á aðeins við þennan eina mokstur, en annars er enginn reglubundinn mokstur næstu mánuði samkvæmt mokstursáætlun Vegagerðarinnar.

Auglýsing

Anað út í ófæruna – Vestfirðingum til ómælds skaða

Þann áttunda mars á síðasta ári samþykkti hreppsnefnd Reykhólahrepps með 4 atkvæðum gegn 1 að „lleið Þ-H verði lögð til grundvallar í aðalskipulagstillögu vegna breytingar á aðalskipulagi Reykhólahrepps 2006 – 2018 vegna vegagerðar um Vestfjarðarveg 60, Bjarkalundur að Skálanesi.“

Þá var talið að komin væri loksins niðurstaða í val á veglínu. Í aðdraganda fundarins sagði sá eini sem var á móti, í opinberu viðtali, að málið þyldi ekki frekari tafir og að niðurstaða yrði að fást. Það kom svo í ljós að það átti bara við ef niðurstaðan yrði „rétt“ og Þ-H leiðin var ekki „rétt“. Hófst nú nýr tafaferill sem staðið hefur síðan og miðar að því koma í veg fyrir Þ-H leiðina. Í þessari viku er gert ráð fyrir því að  sveitarstjórnin  ógildi leiðavalið frá 8. mars 2018 og velji R leiðina, leið sem er óframkvæmanleg.  Þá verður málið í þeirri stöðu, að óbreyttu,  að ekkert mun gerast næstu árin.

Það er misskilningur hjá hreppsnefndarmönnunum á Reykhólum að þeir ráði vegagerð. Það er ríkið sem gerir það og Vegagerðin fyrir hönd þess rannsakar og velur leið. Ríkið á vegina , borgar þá og heldur þeim við. Sveitarfélagið leggur ekkert til. Sveitarstjórn getur neitað Vegagerðinni með því að gefa ekki út framkvæmdaleyfi og gera ekki viðeigandi breytingar á skipulagi.  En það þýðir ekki að Ríkið verði að leggja vegina eins og sveitarstjórnin mæla fyrir um.

Vegalög

Í 28. grein vegalaga segir eftirfarandi:

Ákveða skal legu þjóðvega í skipulagi að fenginni tillögu Vegagerðarinnar að höfðu samráði Vegagerðarinnar og skipulagsyfirvalda. Fallist sveitarfélag ekki á tillögu Vegagerðarinnar skal það rökstyðja það sérstaklega. Þó er sveitarfélagi óheimilt að víkja frá tillögu Vegagerðarinnar ef það leiðir til minna umferðaröryggis en tillagan felur í sér. [Skal Vegagerðin þegar við á leggja fram mat á umferðaröryggi mismunandi kosta við vegarlagningu nægilega tímanlega til að skipulagsnefnd geti tekið afstöðu til matsins við mótun aðalskipulagstillögu.]

Vegalög eru lög. Sveitarstjórnarmenn verður að hlíta lögum rétt eins og aðrir þegnar landsins. Þarna segir í fyrsta lagi að lega vegar skuli ákveðin að fenginni tillögu Vegagerðarinnar.  Tillagan liggur fyrir og er um Þ-H leið. Sú tillaga var unnin í samráði fyrir Reykhólahrepp og að kröfu hans.

rökstuðningur enginn

Þá segir í öðru lagi að sveitarstjórn skuli rökstyðja það sérstaklega ef ekki er fallist á tillöguna. Fyrir liggur að leiðtogar hreppsnefndar hafa samþykkt í skipulagsnefnd hreppsins að setja R leið inn á aðalskipulag. Þetta þarf að rökstyðja sérstaklega. En rökstuðingurinn er afar fátæklegur:

„Ljóst er að samfélagslegir hagsmunir Reykhólahrepps og umhverfissjónarmiðum verði best borgið með R-leið. Undirritaðir telja að umhverfisáhrif Þ-H leiðar séu það umfangsmikil að sú leið verði aldrei fær“

Þetta stendur ekki undir því að geta kallast rökstuðningur. Umhverfismat fyrir R leiðina hefur ekki farið fram en þær athuganir sem gerðar hafa verið á fyrri stigum hafa leitt til þeirrar niðurstöðu að umhverfisáhrif verði mikil og slæm. Eina leiðin til þess að vita betur er með því að láta framkvæmda fullburða umhverfismat. Það eru engin gögn sem styðja fullyrðinguna að umhverfissjónarmiðum verði best borgið með R – leið. Meira að segja hreppsnefnd Reykhólahrepps andmælti ekki Vegagerðinni á sínum tíma þegar ákveðið var að leggja frekari skoðun á umræddri leið á hilluna.

 

Seinni hluti rökstuðningsins er aðeins mat tveggja mat um að Þ-H leiðin verði aldrei fær vegna umhverfisáhrifa. Það er líka í andstöðu við fyrirliggjandi gögn og afstöðu flestra þeirra sem komið hafa að málinu.

umferðaröryggi

Þá segir í lögunum að sveitarstjórn er óheimilt að víkja frá tillögu Vegagerðarinnar ef það leiðir til minna umferðaröryggis en tillaga Vegagerðarinnar. Þetta liggur fyrir eftir öryggismatsúttekt á þeim fjórum möguleikum sem hafa verið nefndir. Þar kom Þ-H leiðin best út,  það er með mest umferðaröryggi. En R – leiðin kom langverst út, var sem sé hættulegasti kosturinn. Þetta þýðir einfaldlega að óheimilt er að velja R- leiðina. Það er lögbrot. Þeir tvímenningar hafa ekki lagt fram nein gögn um öryggi R leiðina sem breytir öryggismatsútektinni. Þeir einfaldlega láta sem lagaákvæðið komi þeim ekki við.

 

út í ófæruna

Gangi það eftir, sem virðist fyrirsjáanlegt, að hreppsnefndin samþykki tillöguna um R-leiðina kemur upp staða sem er algert einsdæmi.  Valin veglína sem enginn er til þess að framkvæma. Hefja þarf  ferli um breytingar á skipulagi og auglýsa þær. Þá mun Vegagerðin væntanlega mótmæla tillögunum og benda á vegalögin. Það er vandséð hvernig Skipulagsstofnun getur hleypt tillögunum áfram og mun ekki geta staðfest þær. Málið er sjálfdautt og á þá eftir að líta til andófs og mótmæla þeirra annarra sem leggjast gegn R – leiðinni.

Sveitarstjórnin hefur engan framkvæmdaaðila. Enginn sem vill leggja veginn, enginn sem borga umframkostnaðinn, enginn til þess að standa straum af kostnaði við umhverfismat og skipulagsbreytingar. Kostnaður við Þ-H leiðina er orðinn um 430 milljónir. Hver ætlar borgar hundruð milljóna króna við algerlega nýtt ferli sem mundi taka mörg ár? Svarið er skýrt. Enginn. Ekki einu sinni Hagkaupsbræður eða annað innlent auðvald. En Vestfirðingar munu líða fyrir þvermóðskuna.

Kristinn H. Gunnarsson.

 

 

 

Auglýsing

Samgönguráðherra fer norður í Árneshrepp

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra.

Samgönguráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson hefur ákveðið að fara í heimsókn norður í Árneshrepp í framhaldi af ákalli til stjórnvalda frá nefnd um brothættar byggðir.

Sigtryggur Magnason, einn aðstoðarmanna ráðherrans upplýsir Bæjarins besta um þetta og segir jafnfram að ráðherrann hlusti á áhyggjur íbúanna. Dagsetning hefur ekki verið ákveðin.

Auglýsing

Nýjustu fréttir